12.04.1933
Efri deild: 49. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1755 í B-deild Alþingistíðinda. (2102)

156. mál, innflutningur nauta af bresku holdakyni

Frsm. (Páll Hermannsson):

Landbn. flytur frv. þetta eftir tilmælum hæstv. atvmrh. Það er samið af hinni svokölluðu bændanefnd, mþn., sem falið var að athuga hag bænda. Er grg. frv. einnig frá henni komin.

Landbn. hefir aðeins lauslega litið yfir frv., en ekki rannsakað það svo, að vissa sé fyrir, að hún kunni ekki að stinga upp á einhverjum breyt á því síðar. Áskilur hún sér því rétt til þess að bera fram brtt. við 2. umr., ef henni þykir þörf á við nánari athugun.

Það hefir fyrr í dag verið rætt allmikið hér í hv. d. um lagafrv., sem snertir kjötframleiðslu og sölu kjöts út úr landinu. Þetta frv. snertir einnig það efni. Eins og útlitið er nú, má jafnvel búast við því, að landsmenn verði að minnka framleiðslu sauðakjöts í framtíðinni frá því, sem nú er. Væri þá að sjálfsögðu hin mesta þörf á, að einhver önnur framleiðsla gæti komið í staðinn. Mönnum kann nú að virðast í fljótu bragði, að lítið þýði að draga úr sauðakjötsframleiðslu til þess að auka jafnframt framleiðslu nautakjöts. En það er þó alls ekki víst, að eins miklir erfiðleikar verði á því að selja nautakjöt eins og kindakjöt. Byggist það á því, að fram til þessa hefir ekki þótt kleift að flytja sauðakjöt út úr landinu öðruvísi en annaðhvort saltað eða fryst. En frosið kjöt er ekki talin fyrsta flokks vara. Talið er, að miklu fremur megi flytja nautakjöt héðan nýtt heldur en sauðakjöt, og kynni því að verða minni erfiðleikum bundið að koma því í verð. Ef það reynist svo, leiðir af sjálfu sér, að nokkuð mikils er um það vert að stuðla að því, að sláturnautin gefi af sér sem mestan og beztan kjötþunga.

Líka má á það benda, að mjólkurpeningsræktin er nú óðum að aukast í landinu. Og í sambandi við aukna tölu kúnna má búast við, að heppilegt þyki að fara að ala naut til slátrunar jafnframt. Sérstaklega mun kálfaeldi þykja hentugt þar, sem mjólkurframleiðslan er aukin vegna smjörbúa, en ekki mjólkurbúa, og er þá mjög mikilsvert, að kálfarnir geti orðið sem beztir til frálags.

Ég geng út frá, að hv. d. vísi þessu máli til 2. umr. Eins og sjá má, er frv. flutt af n., og mun því ekki þurfa að gera till. um að vísa því til n. Geri ég ráð fyrir, að landbn. athugi málið frekar fyrir 2. umr.