18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1759 í B-deild Alþingistíðinda. (2116)

160. mál, veð

Frsm. (Guðbrandur Ísberg):

Þetta frv. er flutt af allshn. eftir beiðni fjmrh. og ósk bankastjórna Landsbankans og Útvegsbankans. Eftir að málið kom til n. var allmikið um það rætt, þótt afgreiðsla þess biði nokkuð. En nú er svo komið, að n. hefir afgr. frv., þótt að þeirri afgreiðslu standi aðeins 2 nm., vegna veikinda og forfalla annara, sem í n. eru. Sá hluti n., sem að frv. stendur, leggur til, að frv. verði samþ. óbreytt. Frv. fylgir ýtarleg grg., og vísa ég til hennar í öllum aðalatriðum. Frv. hefir aðallega að flytja 2 tiltölulega smávægilegar breyt. á tvennum lögum, l. 18/1887 og 34,/1927. Annað atriðið er það, að afli fiskiskips, sem settur er að sjálfsvörzluveði, sæti ekki sömu meðferð og önnur sjálfsvörzluveð. Hin breyt. er þess efnis, að leyft verði að veðsetja með skipinu ýms þau veiðarfæri og aðrar nauðsynjar skipsins, svo sem kol- og olíubirgðir, sem áður hlíttu reglum um venjulegt sjálfsvörzluveð í lausafé. Þetta er í sjálfu sér alveg hliðstætt við lausafjármuni þá, sem veðsettir eru með jörðum og verksmiðjum, samkv. 5. og 6. gr. veðlaganna. Fyrra atriðið er hinsvegar sérstætt, og mundi n. hafa talið það athugavert og jafnvel varhugavert, ef ekki væri um fiskveð að ræða. En eins og okkar fiskframleiðslu er háttað, virðist nauðsynlegt, bæði vegna fiskframleiðendanna og bankans, að skapa fiskveði með lögum meira öryggi en öðru lausafjárveði. Flestir útgerðarmenn hafa upp á lítið annað að bjóða til tryggingar en aflann jafnótt og hann kemur á land. Út á þessa tryggingu lána svo bankarnir stórfé. Það er ekki nema eðlilegt, að bankarnir krefjist þess, að þetta veð sé tryggt. Komist þetta ekki á, er hætt við, að þessi tegund veðtrygginga verði talin áfram fremur ótrygg, eins og hingað til, og geti jafnvel svo farið, að hætt yrði að taka slík veð. Þarf eigi að benda á, hversu brýn þörf það er lántakendum að öðlast bætta aðstöðu að þessu leyti.