27.03.1933
Neðri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

1. mál, fjárlög 1934

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég heyrði á orðum hv. þm. Seyðf., að hann var svona óbeint að mælast til þess, að ekki yrði um hann farið mjög ómjúkum höndum. Ég skal þá heldur ekki gera það, enda var hv. þm. miklu blíðari og bljúgari nú en fyrr í kvöld. Hann hefir sennilega fundið, að hann hafði gengið fulllangt áður. Ég get þó ekki sleppt honum alveg og vil því segja fáein orð út af því, sem hann sagði í síðustu ræðu sinni. Það hefir nú komið í ljós, að hv. þm., sem hefir ávítað mig fyrir að fara ekki rétt með, hefir nú orðið að renna því niður, sem hann fullyrti fyrr. Þannig hefir hann orðið að viðurkenna þá fullyrðingu sína ranga, að ég hafi borgað skrifstofustjóranum 8 þús. kr. Sama er með landhelgissöguna að austan; hann játaði, að hún væri lygi. Og viðvíkjandi náðun Þórðar Flygenrings get ég vísað til vottorðsins frá hv. 2. þm. Rang. og skal svo ekki fjölyrða meira um það.

Þá var hv. þm. mjög gleiður, er hann spurði um það, hver mismunur væri á eiginlegri og óeiginlegri fölsun. En munurinn er sá, að hér var ekki um fölsun á nafni að ræða, heldur var það stimpill, sem hafði verið notaður. Þess vegna var líka refsingin svona lítil. Annars hefði hún verið miklu meiri. Það var þetta, sem ég átti við. Ég hefi kannske gleymt að taka það fram fyrr. En ég vona nú, að hv. þm. Seyðf. skilji þennan mun.

Þá var hv. þm. montinn af því að hafa borgað mat sinn, er hann ferðaðist með varðskjpunum 1930. Það var nú vitanlega ekki maturinn, sem ég átti við. Ég var að átelja það, að varðskipin væru tekin til slíkra pólitískra snattferða með hann og fleiri. Og það skiptir engu máli, þótt Pétur Magnússon væri með. Það er ekkert betra fyrir það. Hann réð heldur engu um þessar ferðir. Hann tók bara boði hv. þm. Seyðf. og hv. 5. landsk., þáv. dómsmrh., sem þá voru og eru enn óaðskiljanlegir vinir. Ég hefi farið norður í land í pólitískum leiðangri um sama leyti og fyrrv. dómsmrh., hv. 5. landsk., og hv. þm. Seyðf. Þeir ferðuðust þá í stjórnarbíl, en ég ekki. Ég vil nú spyrja hv. þm. Seyðf.: Hefir hann borgað fyrir þá bílferð? Ég held ekki. Ég hefi a. m. k. ekki séð það í landsreikningnum. Hann hefir líklega gleymt að borga þá bílferð, þótt hann sé montinn af því að hafa borgað fyrir matinn 1930.

Þá var hv. þm. að tala um, að ég hefði sagt það, að ég hefði hlíft Jóni Baldvinssyni, en það hefi ég aldrei sagt. Það, sem ég sagði, var, að 5 kærur hefðu komið á hendur Jóni Baldvinssyni. Ég talaði ekki um neina hlífð í sambandi við það, að þessi kæruefni voru ekki tekin fyrir sem mál. Hv. þm. Seyðf. getur ekki sagt, að ég hafi beitt hlutdrægni í þessu efni. Hefði ég gert það, þá hefði ég haft það eins og fyrirrennari minn, ég hefði látið fara fram rannsókn. Viðvíkjandi einni af þessum kærum finnst mér það reyndar vera álitamál, hvort ekki hefði verið rétt að gera það, en ég álít, að fyrrv. dómsmrh. hafi skorið úr því, og því sé búið að afgreiða það mál. Það er því ekki til neins fyrir hv. þm. Seyðf. að vera að skora á mig að fyrirskipa rannsókn út af þessum kærum á hendur Jóni Baldvinssyni. Ég fer ekkert eftir því, sem sá maður segir, heldur hinu, hvað ég álít rétt, og læt hann vita það, að ég fyrirskipa ekki sakamálsrannsókn, nema ég telji nokkrar líkur fyrir því, að hinn ákærði maður sé sekur og skiptir þar engu máli, hvaða pólitískum flokki sá maður tilheyrir.

Hv. þm. hneykslaðist mjög á því, að ég skyldi ekki muna nöfn á þeim mönnum, sem höfðuð voru mál gegn vegna þess, sem bar við 7. júlí síðastl. sumar. Ég hafði ekkert með það að gera; það var skrifstofustjóri, sem þessu réð.

Þá sagði hv. þm., að það hefði ekki verið furða, þótt upphlaupið yrði 9. nóv. í vetur, því að það hefði átt að lækka tímakaup verkamanna niður í eina krónu. Ég býst við því, að ýmsum af áheyrendum okkar úti um land þyki það ekki neitt gífurlegt, þó að það hefði verið lækkað niður í eina krónu. Setjum svo, að það hefði nú ekki verið rétt að lækka kaupið. En vill þá hv. þm. Seyðf. halda fram, að ákvörðun um kauplækkunina hafi verið rétt svarað með bardaganum 9. nóv.?

Þá minntist hv. þm. á bankastjórana við Íslandsbanka, og er hann mér alveg sammála um það, að það eigi að heyra báðar hliðar málanna. En hann vill, að það gerist endilega fyrir rétti. Ég álít, að ef maður sannar það utan réttar, að hann sé saklaus, þá eigi ekki að fara að kalla hann fyrir rétt.

Hv. þm. sagði, að ég tæki dómsvaldið í mínar hendur. En það er einmitt það, sem allir menn um allan heim, sem ákæruvald hafa, verða að gera, og þýðir ekkert móti því að mæla.

Hv. þm. segir, að það sé viðurkennt, að reikningar bankans hafi verið rangir, og það get ég vel gengið inn á, að þeir hafi verið „objektivt“ rangir, en þó ekki falsaðir fyrir því. Vegna þess, sem ekki var kunnugt þegar reikningarnir voru skrifaðir, en síðar var vitað, urðu reikningarnir rangir. Ég álít, að ég hafi tekið skýrt fram dæmið um reikninga Landsbankans, hvernig fór um mat á honum, og að þar þurfi ekki frekari vitna við.

Hv. þm. Seyðf. reyndi ekki með einu orði að hrekja það, sem ég sagði, sem þó var rothögg á það, sem hann sagði.

Þá þótti hv. þm. ég leggja nokkuð mikið upp úr skýrslu Brynjólfs Stefánssonar. Já, það er vissulega leggjandi mikið upp úr skýrslum, sem eru ekkert annað en útreikningur á staðreyndum. Þar er reiknað út og sýnt fram á, að skuldin er, eftir íslenzkum krónum talið, með 6½% vöxtum. En sé miðað við danskar krónur, verða vextir um 3%. Heldur hv. þm. Seyðf., að hann geti talið nokkrum manni trú um, að ríkissjóðurinn danski láti nokkra peninga út gegn 3% vöxtum. Nei, það, sem gert var hér, var, að það var látið eftir, að þetta væri talið að nafninu til danskar krónur, en átti raunverulega að borgast í íslenzkum krónum.

Svo minntist hann að síðustu á Gísla Johnsen. Sagði hann, að bankinn hefði tapað miklu á honum og bankastjórarnir hefðu átt að sjá það löngu fyrr, að sá maður mundi aldrei geta greitt allar sínar skuldir. Já, það er nú hægt að segja þetta. En hvernig fór svo? Hvað gerðu svo nýju bankastjórarnir? (HG: Það er ekki til neins að spyrja mig að því). Nei, en ég skal þá skýra frá því. Þeir lánuðu honum bara hálfa milljón kr. í viðbót, svo að ekki hafa þeir séð þetta. En svo álítur hv. þm. Seyðf., að það geti komið til mála að taka þessa menn, sem voru áður í bankastjórninni, og refsa þeim fyrir það, að þeir sáu ekki það, sem hinir sáu ekki heldur. En hann orðar ekki, að það eigi að taka hina seinni og refsa þeim.

Ég skal svo hlífa hv. þm. Seyðf. við frekari hrellingum, og verð að lýsa því yfir, að ég er hæstánægður með þessa tilraun hans til hreingerninga, og ég gef honum þann vitnisburð, að hann var allt of bljúgur, er hann sagði, að hann hefði ekki tekið fram nema fátt af því, sem hefði mátt færa fram í sömu átt. Því ég veit, að hann hefir setið með sveittan skalla til að tína það allt til og skrifa upp, sem hann hefir þótzt geta deilt á stjórnina með. Og hann hefir tekið allan tíma síns flokks við þessar umræður, 3 klst. Þrátt fyrir þetta hefir hann ekki getað fundið fleira, en sem betur fer er það nú allt hrakið.