27.03.1933
Neðri deild: 37. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í B-deild Alþingistíðinda. (213)

1. mál, fjárlög 1934

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Það eru aðeins nokkur orð, því að nú er liðið á nóttu.

Ég svaraði ekki fyrirspurn hv. þm. Seyðf. um atvinnubótastyrkinn í stjfrv., og var það aðeins af gleymsku. Það hefir jafnan verið svo, að atvinnubótastyrkurinn hefir verið settur inn á þingi, enda er það nokkuð snemmt að fara að ákveða um hann fyrir nýár árið áður en fjárlög eiga að ganga í gildi.

Nú hefi ég jafnan sagt það, að árið 1932 verði sennilega versta árið fyrir atvinnuna í landinu og tekjur ríkissjóðs. Árið 1931 var mikið tapár fyrir atvinnuvegina, en ekkert sérlega slæmt fyrir atvinnu verkamanna eða tekjur ríkissjóðs. En afleiðingin af þessu mikla tapi atvinnuveganna var sú, að árið 1932 varð stöðvun á margskonar atvinnu, sem áður var rekin, sem svo skapaði atvinnuleysi hjá almenningi og kaupgetuleysi. Allt þetta leiddi svo af sér minnkun á ríkistekjunum. Ég hefi ætlað, að árið 1933 yrði betra en þessi ár bæði. Atvinna er heldur að aukast og kaupgeta fólks, sem sést á því, að tekjur ríkissjóðs eru nokkru meiri en á sama tíma síðastl. ár. Ef dæma má af eldri kreppum, má vænta þess, að árið 1934 verði skaplegt ár. Verði það ekki, þá lagast þessi kreppa ekki á sama hátt og aðrar kreppur, heldur þarf þá að grípa til alveg sérstakra ráðstafana, sem ekki er gott að gera fyrirfram. Nú eru í fjárl. allrífleg atvinnubótafjárhæð, sem á að nota fram til næstu ársloka, og um árslok er ekki nema einn og hálfur mánuður til þingsetningar, þegar mætti gera nauðsynlegar ráðstafanir.

Hv. þm. kvað mig hafa sagt, að ógerningur væri að bæta á beinum sköttum. Ég hafði það aðeins eftir sumum flokksbræðrum hans, að þeir töldu, að ógerningur væri að bæta við útsvarsálagningu, og ég sagði, að beinir skattar ríkisins hefðu hækkað á síðasta ári, og verða vitanlega að hækka á þessu ári.

Um kjöttollssamningana skal ég ekki ræða náið. Hv. þm. virðist ekki gera mikið úr þeim erfiðleikum, sem bændur eiga við að stríða um sölu á sínum afurðum, og eru þeir þó mjög miklir. Þó að innanlandsmarkaður sé beztur fyrir þá, þá er norski markaðurinn næstbeztur, og honum má ekki sleppa. Það eru engir tímar til þess að kasta honum frá sér nú, enda ætlaðist síðasta þing til þess, að kjötsölumöguleikar þessir yrðu verndaðir, og þessir samningar við Noreg verða líka væntanlega samþ. af þessu hæstv. Alþ.

Þá kvað hv. þm. það hneyksli, hve mikill verðmunur væri á útfluttu kjöti og því, sem selt er innanlands, og taldi þennan mun ósæmilegan. En ef tala á um ósæmilegan verðmun á ísl. vörum, þá er bezt að ganga hér niður að höfninni, þegar bátarnir koma að. Þá sjáum við skipað upp ágætum fiski, sem seldur er á 3 aura pd. á bryggju, að vissu leyti í heildsölu. En gangi maður svo nokkur skref upp frá bryggjunni, að vagni einhvers fisksalans, kemst maður að raun um, að fiskurinn er þar seldur á 10—15 aura pd. Hvaða verðmunur er nú hneykslanlegur, ef ekki þessi? Það er því ekki á kjötverðinu, heldur á fiskverðinu, sem er ósæmilegur munur, ef um slíkt á að tala.

Ég held, að það sé bezt að minnast ekki frekar á þessa heiðursmenn, sem hann taldi upp, þá Einar Jónasson, Gísla Johnsen og Herkúles. Það er ekki úr vegi að minnast þess, að Herkúles hafði allt annað athæfi með höndum en hv. þm. Seyðf. hefir nú haft, og sá mikli munur er á störfum þeirra, að Herkúles mokaði út úr fjósinu, en hv. þm. hefir hér mokað að stj. og sínum samþingismönnum. En því, sem hann sjálfur hefir verið að moka til okkar, hefir jafnóðum verið skvett í hann aftur, og er því von, að hann kvarti um sóðaskap.