31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 140 í B-deild Alþingistíðinda. (219)

1. mál, fjárlög 1934

Jón Auðunn Jónsson:

Ég á þrjár brtt. við þennan kafla fjárl. á þskj. 296. Er það fyrst við 13. gr. A. II., um 4 þús. kr. nýja fjárveitingu til Laugadalsvegar í Norður-Ísafjarðarsýslu. Þessi vegarkafli í Laugadalnum er sá eini vegur í Norður-Ísafjarðarsýslu, annar en Breiðadalsheiðarvegar, sem er í tölu þjóðvega. Þó hefir ekkert verið til hans lagt frá ríkissjóði ennþá. Aftur á móti hefir verið lagt til vegarins hinumegin við Steingrímsfjarðarheiði, í Strandasýslunni, fullar 87 þús. krónur.

En Djúpmegin hefir enn ekkert verið lagt til vegagerða, þó þörfin sé þar engu síður mikil, því í Laugadalnum er talsvert þéttbýlt og nauðsynlegt að fá þarna akfæran veg. Vegalengdin frá sjó fram í dal, þ. e. a. s. fram að Steingrímsfjarðarheiði, er 14 km. Vegamálastjóri hefir áætlað, að til þess að gera þennan vegarkafla í Laugadalnum akfæran þyrfti 8 þús. kr., en ég hefi ekki hugsað mér, að þetta yrði unnið í einu, heldur yrði því skipt á tvö ár eða fleiri. Á þessum stöðvum var atvinnuleysi mikið síðastl. sumar, og útlitið hið sama fyrir næsta sumar; þess vegna er hér um tvöfalda nauðsyn að ræða fyrir þá, sem þarna búa, og vænti ég, að hv. fjvn. taki sæmilega þessari málaleitan.

Þá á ég aðra brtt. við 13. gr., um aukið tillag til lendingarbóta úr 20 þús. í 25 þús. kr. Ég sé það á nál. fjvn., að hún hefir ráðstafað til ákveðinna framkvæmda bæði því tillagi til hafnarbóta og lendingarbóta, sem óráðstafað er af tillagi yfirstandandi árs, og sömuleiðis öllu tillagi næsta árs. Við þetta vil ég leyfa mér að gera þá aths., að á þinginu 1930 var lagður grundvöllur undir þær bryggjubyggingar, sem framkvæma átti þá á næstu þremur árum. Í ályktun n. það ár er ákveðið að veita fyrstu greiðslu af þrem til nokkurra bryggjugerða. Ein þeirra er bryggjugerð í Hnífsdal. Nú hefir verið unnið að þessari bryggjugerð í Hnífsdal bæði árin 1931 og 1932, og til þess notað það fé, sem veitt hefir verið í fjárl. þessara ára. Þegar í upphafi var það vitað, að leggja þyrfti fram úr ríkissjóði um 27 þús. kr. til þessa fyrirtækis, og er það tekið fram í nál. 1930. Af þessu fé hefir nú þegar verið notað 18382,65 kr. En bryggjan kemur ekki að neinum notum ennþá, og verður það ekki, nema þriðja greiðslan fáist eins og upphaflega var til ætlazt. Allur kostnaður við þetta mannvirki verður rúmlega 80 þús. kr., og hefir kostnaðaráætlunin algerlega staðizt hingað til, svo að engin ástæða er til að ætla, að verulegu muni hér eftir. Ég vænti, að hv. n. sjái, að það er ekki rétt að veita fé til nýrra framkvæmda meðan ekki er búið að uppfylla eldri loforð, sem fjárveitingarvaldið hefir gefið. Slík mannvirki og þau, er hér um ræðir, koma oft ekki að notum fyrr en þau eru fullgerð. Ég hefi ekki fengið fulla vissu um það, hvort Eyrhreppingar geta lagt fé fram á þessu ári á móti þeim 9 þús. kr., sem ríkissjóður hefir skuldbundið sig til að leggja fram á yfirstandandi ári. Þá getur farið svo, að verði að skipta þessum framkvæmdum á 2 ár. En ég hefi vissu fyrir því nú þegar, að á þessu ári getur hreppurinn lagt fram nokkurt fé, og ætti þar á móti að koma 1/3 úr ríkissjóði, ef staðið er við eldri loforð. Fari nú svo, að ekki verði hægt að útvega nægilegt fé, svo verkinu verði lokið á yfirstandandi ári, vænti ég þess fastlega, að í fjárl. fyrir næsta ár verði settar þær 5 þús. kr., sem þyrfti úr ríkissjóði til þess að fullvíst yrði, að hægt væri að fullgera þetta mannvirki 1934. Ég hefi áður lýst erfiðleikunum, sem stafa af hafnleysinu í Hnífsdal, og skal ekki fara mikið út í það nú. Upp- og útskipun er þar ótrúlega erfið, og veit ég til, að orðið hefir að verja 8—12 klst. í það að flytja eins dags afla af hverjum einstökum bát í land. Þetta hefir líka þær afleiðingar, að nú á síðari árum hefir verið mjög erfitt að fá menn til sjóróðra frá Hnífsdal. Það er ekki smávegis tap, sem sjómenn þar verða fyrir, að geta ekki farið á sjó dag eftir dag, þó að veður leyfi og afli sé góður, af því að löndunin tekur þennan óratíma. Ég hygg, að þörfin á hafnargerð muni hvergi vera eins brýn og þarna. Ég vona, að hv. n. og eins hv. d. fallist á brtt. mína á þskj. 296, XVII, þar sem farið er fram á að hækka framlagið til bryggjugerða og lendingarbóta um 5000 kr., með það fyrir augum, að í fjárl. fyrir 1934 verði 5000 kr. í fjárframlag til bryggjugerðar í Hnífsdal, gegn því, að hreppsbúar útvegi upphæð, er sé 2/3 hlutar á móti, svo að hægt verði að ljúka þessu mannvirki. Og ég er sannfærður um það, að sæju hv. þdm., hvað erfiðlega gengur stundum að lenda þarna, þá mundu þeir gera það sem í þeirra valdi stæði til þess að bæta úr því. Vænti ég því, að þeir samþ. þessa till. mína.

Þá á ég brtt. XIX. á sama þskj. Hún fer fram á það, að veittar verði 20000 kr. til viðgerðar á öldubrjótnum í Bolungavík. Þetta hefir verið kallað eitt af eilífðarmálunum hér á þingi. Ég veit, að svo muni þó ekki verða, því þó að margt sé óunnið til öryggis þessu mannvirki, sem hefir lyft plássinu ekki alllítið upp einkum á árunum 1912—24, þá vona ég, að bráðum verði gengið svo örugglega frá þessu nauðsynlega mannvirki, að ekki þurfti aftur að leita til ríkissjóðs. Því miður hefi ég ekki enn fengið till. hreppsnefndar um það, hvernig haga á viðgerðinni. En ég býst við þeim með næstu skipsferð, og verður það sennilega áður en þessari umr. lýkur. Vitamálaskrifstofan hefir því ekki getað gert till. til fjvn. um þessar framkvæmdir, en ég vona fastlega, að það geti orðið áður en lokið er 3. umr. um fjárlagafrv. hér í deildinni.