09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Jóhann Jósefsson:

Við 2. umr. þessa máls tók ég aftur, til 3. umr., brtt., sem þá var og er enn á þskj. 572, en ég sé ekki, að hennar sé getið hér á dagskránni. Það skiptir ekki verulegu máli, en ég geri ráð fyrir, að hún verði tekin til greina. (Forseti: Já, sjálfsagt). Menn höfðu vonað, að fjhn. myndi eitthvað breyta afstöðu sinni til þessa frv., en ég sé ekki merki þess í þeim till., sem hér liggja fyrir. Samt sem áður vil ég vona það, að n. sé ekki öll jafnákveðin í því að breyta frv. á þann veg, sem fyrir hefir legið í brtt. hennar. Frv. eins og það kom frá hv. Ed. hefði að minni hyggju átt fullkomlega rétt til þess að ná samþykki þessarar hv. deildar. Eins og verðið er nú á fiskmjölinu, er útflutningsgjaldið, sem af því er tekið, um 6%, og getur þess vegna talizt óhæfilega hátt, miðað við útflutningsgjald af öðrum vörum. Fjhn. hefir gripið til þeirra ráða að leggja til að hækka tollinn á beinum, til þess að veita innlendum fyrirtækjum meiri vernd, en þessi hækkun er þó eins og tvíeggjað sverð. Ég hygg, að hv. frsm. hafi alls ekki vitað nægilega vel, hvað hann var að tala um, þegar hann hér á dögunum var að tala um beinaverkunina. Mér er kunnugt um, að þetta er einskonar heimilisiðnaður í mörgum sjávarþorpum, því að þessari beinaverkun er hægt að vinna með unglingum og gamalmennum. Ég veit ekki, hvaða áhrif það hefir, ef tollurinn er hækkaður um helming, en það gæti vel farið svo, að þeir, sem leggja fyrir sig að kaupa bein, myndu draga úr þessari starfsemi sinni, og afleiðingin yrði verðfall á þessari vöru. Mér virðist eiginlega sanngjarnast og í samræmi við það, sem á að gera með tilliti til hins atvinnuvegarins, að frv. eins og það kom frá hv. Ed. hefði náð samþykki n. óbreytt. Ef n. vill ekki fallast á frv. óbreytt, hefði ég viljað leggja til að létta undir með fiskmjölsiðnaðinum í landinu með því að taka helmingi minna útflutningsgjald af eldþurrkuðu fiskmjöli en sólþurrkuðu, og flyt ég brtt. um það á þskj. 572. Vélþurrkað fiskmjöl selst fyrir talsvert minni verð en það fiskmjöl, sem er sólþurrkað, og þó að áhöld kunni að vera um kostnaðinn, hygg ég, að hann sé fullt svo mikill við vélþurrkunina. Þessi vara hefir því fyllilega rétt til þess að vera í lægra útflutningsgjaldsflokki en sólþurrkaða fiskmjölið. Ég álít, að réttasta leiðin í þessu máli hefði verið að samþ. frv. eins og það kom frá hv. Ed.