09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1781 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Frsm. (Hannes Jónsson):

Fjhn. tók þetta mál til athugunar nú undir þessa umr., en hún fékk ekki þær upplýsingar, sem gátu fullnægt henni til þess að hverfa frá þeim ákvörðunum, sem hún hafði tekið um afgreiðslu þessa máls. Það er vitanlega rétt, sem hv. þm. Vestm. heldur fram, að vélþurrkað fiskmjöl er í nokkru lægra verði en sólþurrkað, en ég hygg, að það muni verða erfitt að hafa fullnægjandi eftirlit með því, hvað er sólþurrkað og hvað er vélþurrkað. Eins og kunnugt er, fer ekkert mat fram á þessari útflutningsvöru, og útreikningurinn á útflutningsgjaldinu yrði því alveg að vera eftir því, sem upp væri gefið af verksmiðjunum. Mismunurinn á þessum mjöltegundum er ekki meiri en t. d. á síldarmjöli, því að það er mjög mikill verðmunur á síldarmjöli af fyrsta flokki eða saltsíldarmjöli. Það mun vera um 50% lægra í verði en annað síldarmjöl. Ef á að taka tillit til þessa mismunar á þessum mjöltegundum, fiskmjölinu, þá ætti einnig að taka til greina þann mismun, sem er á verðgæðum síldarmjölsins. Þessari iðngrein, fiskmjölsframleiðslunni í landinu, er gert hægara fyrir með till. n., og það svo verulega, að ég álít, að það sé engu minni stuðningur fyrir fiskmjölsframleiðendurna en það, sem fólst í frv., þegar það kom frá hv. Ed. Það, sem aðallega hefir verið fært fram sem andmæli gegn till. n., er það, sem hv. þm. G.-K. hefir haldið fram, að þessi tollhækkun á útfluttu efni, hausum og beinum, myndi verða til þess að skapa lægra verð fyrir þá, sem selja þessa vöru til verksmiðjanna. Nú var bent á það við 2. umr. þessa máls, að það væru líkur til þess, að aðstaða verksmiðjanna hér heima batnaði svo við það, ef aukin væri vinnsla í landinu, að líkur væru til þess, að þær gætu a. m. k. greitt sama verð og nú er borgað, og jafnvel heldur ríflegar. Ég hefi reynt að afla mér upplýsinga um það, hvaða verð væri á þessari vöru, hráefnum til fiskmjölsgerðar, en hefi ekki fengið nógu ábyggilegar upplýsingar um það. Ég hygg, að það muni vera nokkuð óákveðið og að þessi hráefni séu keypt á hverjum tíma og á hverjum stað allt eftir því, hvað hægt er að fá þau fyrir. Eins og tekið var fram við 2. umr., þá skapar þessi verksmiðjurekstur talsverða atvinnu í landinu, og því er ástæða til að reyna að hlynna að þessum fiskmjölsverksmiðjum eftir því sem föng eru á. Það hefir verið bent á það, að þessi fiskmjölsframleiðsla eykur þann erlenda gjaldeyri, sem þjóðin hefir yfir að ráða, og er það engu að síður nauðsynlegt en að auka atvinnuna í landinu. Af öllum þessum ástæðum hefir n. ekki séð ástæðu til að víkja frá sínum fyrri till. um þessi efni, og við atkvgr. gefst hv. dm. tækifæri til þess að lýsa skoðun sinni á till. hv. þm. Vestm., ef þær koma hér til atkv. Annars hafði ég litið svo á, að það yrði að bera fram nýjar till. við þessa umr., ef þær ættu að geta komið til atkv., og af þeirri ástæðu bar meiri hl. n. fram að nýju sínar brtt. Ég ætla eiginlega ekki að fjölyrða um þetta frekar. Það verður sennilega ekki hægt að færa fram nein óyggjandi rök fyrir málstað þessara tveggja aðila, sem hér eiga hlut að máli, eða hvora leiðina eigi að fara til þess að efla þessa innlendu framleiðslu: að lækka útflutningsgjaldið af fiskmjölinu eða hækka útflutningsgjaldið af hráefnunum; en ég vil að lokum benda á það ósamræmi, sem yrði við það, að lækka útflutningsgjaldið af fiskmjöli, en láta útflutningsgjaldið af síldarmjöli haldast, og mér skilst, að það væri litt verjandi, enda mun verðið á síldarmjöli vera heldur lægra.