09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1785 í B-deild Alþingistíðinda. (2209)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Sveinn Ólafsson:

Þetta mál virðist í sjálfu sér ekki flókið eða vandasamt, en mér virðist þó, að till. fjhn., eins og þær koma fram á þskj. 603, um að tvöfalda útflutningsgjald fiskbeina, muni vera sprottnar af ókunnugleika á því, hvernig hagar til í verstöðvunum til og frá um landið. (ÓTh: Meiri hl. fjhn. á að segja). Það er ekki vafi á því, að víða í verstöðvum er það einhver hin helzta atvinnubót liðléttinga, barna og kvenna og annara þeirra, sem lítt eru vinnufærir, að hirða fiskúrgang og gera hann að vöru, og það er ekki nándar nærri alstaðar, að kostur er á að koma þessari vöru í peninga með öðru móti en því að selja hana útlendingum, með því að verðið er lágt hjá beinamylnum innlendum, en flutningur að þeim of dýr. Útlendu kaupendurnir eru mér vitanlega engir aðrir en umboðsmenn norskra verksmiðja, sem frá afskekktum stöðum safna fiskbeinum gegn viðunanlegu verði og koma þeim á útlendan markað.

Þessi hækkun á útflutningsgjaldinu mundi draga tilfinnanlega úr atvinnuvonum þeirra, sem af því hafa stuðning að verka beinin, og yrðu hvorki ríkissjóði sá tekjuauki, sem ætlað er, né heldur til þess að beina þessum viðskiptum til hinna innlendu verksmiðja. Ég held, að samþykkt þessarar till. á þskj. 603 myndi verða hreint og beint til þess að ræna nokkurn hluta þeirra manna, sem litlar atvinnuvonir hafa, að öllu leyti þeim atvinnuvonum, sem þeir nú hafa, og fyrir ríkissjóð verður þetta stopul og óábyggileg tekjuvon. Ég verð þess vegna eindregið að taka undir grg. hv. þm. G.-K. og get fallizt á skoðun hans á þessu máli. Skal ég ekki fjölyrða frekar um þetta, enda ætla ég, að það sé óþarft eins og komið er.