09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (2210)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Jóhann Jósefsson:

Ég get sagt það sama og hv. 1. þm. S.-M., að mér virðist hv. minni hl. fjhn. hafa fært svo góð rök fyrir því, að þessi leið, sem hv. meiri hl. fjhn. hefir fundið út, sé ekki fær. Ég fæ ekki annað skilið en að hv. d. muni geta fallizt á að samþ. frv. eins og það kom frv. hv. Ed. Náttúrlega getur sú mótbára alltaf komið til greina við hverskonar slíkar till., að ríkissjóður megi illa við þessu; en ég vil spyrja, — verður þeirri mótbáru haldið fram, þegar niðurfærsla gjaldsins af landbúnaðarafurðum kemur hér til atkv.? Ég held, að ómögulegt sé að samríma það, að ætla að tvöfalda útflutningsgjaldið af þurrkuðum fiskúrgangi, en afnema, sem ég geri ráð fyrir að verði, útflutningsgjaldið af öðrum vörum, eins og t. d. landbúnaðarafurðum. Það er ekki farið fram á að afnema útflutningsgjaldið af fiskmjöli, heldur að útflutningsgjaldið af fiskmjöli verði eins og á öðrum vörum, eins og t. d. af fiski. Það er misskilningur hjá fjhn., að frv. eins og það kom frá Ed. hafi farið fram á að undanþiggja fiskmjölið útflutningsgjaldi — fjarri því. Ég get orðið við tilmælum hv. þm. G.-K. um að draga til baka þá till., sem ég hefi flutt á þskj. 572, í því trausti, að réttlætið verði ofan á í þessu máli og menn fari ekki að jafna aðstöðumuninn með því að taka mismuninn í flestum eða öllum tilfellum frá fátækum sjómannaheimilum, sem vinna að þessari framleiðslu.