09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1786 í B-deild Alþingistíðinda. (2211)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hæstv. fjmrh. lét í ljós sína skoðun á þessu máli, og ég verð að segja, að hans eina afsökun er sú frá mínu sjónarmiði, að fjmrh. verða á hverjum tíma að halda fast um pyngju ríkissjóðs og gjalda varhuga við öllum þeim till., sem draga úr fjáröflunarleiðum ríkissjóðs. Þetta er líka einasta afsökun ráðh., þessi meðfædda nízka, sem má færa einum ráðh. til afsökunar. Hitt verð ég að segja, að þegar stj. hæstv. fjmrh., sem líka er forsrh., ber fram till. um, að varið skuli 12 millj. kr. til bænda, sem ég skal ekkert telja eftir, kann ég illa við það, að hér sé verið að fjargviðrast út af því, þó að örfáir, kannske ekki nema 2—3 tugir þúsunda eigi að fara úr ríkissjóði til þess að forðast að skerða hagsmuni sjávarútvegsmanna, og sannleikurinn er nú sá, að það hefir enginn komið með útreikning um, hvort þetta verður tap fyrir ríkissjóð. Útflutningsgjaldið af fiskmjöli verður að lækka, en sú ráðstöfun nær því aðeins sínum tilgangi, að sú lækkun sé ekki gerð á kostnað framleiðendanna. Að vinna úr hausum og beinum fylgir aukin atvinna í landinu, sem hefir í för með sér auknar tekjur fyrir ríkissjóð; auk þess fer mikið af kolum til þessarar vinnslu, og þar fær ríkið tekjur af kolatollinum. Hitt er kaldrifjað, sem kom fram í ræðu hæstv. fjmrh., hvernig á að fara að jafna aðstöðuna. Ég spurði hæstv. ráðh., á hvers kostnað það ætti að gera, og ég spyr, hvernig stendur á því, að nokkur hluti þessarar vöru er fluttur út óunninn, þó að til séu vinnustöðvar hér á landi, sem geta unnið úr vörunni? Það stendur þannig á því, að erlendir kaupmenn bjóða hærra verð fyrir vöruna en hinar innlendu vinnustöðvar. Ég vil segja, að okkur, sem þyngstar búsifjarnar berum af þessu útflutningsgjaldi af síld, er það engin huggun, þó að í fylkingu okkar standi minni sjávarútvegsmenn, sem einnig sé íþyngt með þungum böggum. Okkur finnst ekki þessir baggar léttari, þó að hinir séu klyfjaðir líka. Það er hægt að viðurkenna, að fjárhagur ríkissjóðs er þröngur, en við getum ekki viðurkennt, að þær aðþrengingar eigi að verða þess valdandi, að hlutur sjávarútvegsmanna verði verri í þessum efnum. Ég legg til, að brtt. meiri hl. fjhn. verði felldar, en frv. samþ. eins og það kom frá hv. Ed.