09.05.1933
Neðri deild: 69. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1795 í B-deild Alþingistíðinda. (2218)

110. mál, útflutningsgjald af síld og fl.

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Hv. þm. V.-Húnv. þarf ekki að vera hræddur um, að ég hristi hann mjög tilfinnanlega í þetta sinn. Ég er vanur að láta mér nægja eitt skot á svona gemling í sláturtíðinni. — Ég var á einum fundi í fjhn., sem fjallaði um þetta mál, og gaf þá hv. frsm. ýmsar upplýsingar um þessa mjölvinnslu úr fiskúrgangi og hausum o. fl., þannig að ýmislegt af því, sem hann hefir sagt um þetta mál af viti, er á því byggt. Ég álít, að hann þurfi ekkert að skammast sín fyrir þetta; ég efast ekki um, að hann muni geta frætt mig eitthvað viðvíkjandi landbúnaði, sem mér er ekki kunnugt.

Ég er ekkert að miklast af því, þó að ég viti talsvert meira en hv. frsm.; það þarf ekki að vera svo mikið til þess. — Sannleikurinn í þessu máli, sem hér liggur fyrir, er sá, að það varð samkomulag um það í fjhn.afgr. þessi tollafrv. án þess að nokkurt samband væri á milli þeirra, Ég fór til hæstv. form. n., 1. þm. N.-M., og spurði hann eftir, hvort nokkuð hefði búið hér á bak við hjá meiri hl. n., eftir að hv. frsm. fór að reyna að slá sig til riddara á mér hér í umr., og form. n. neitaði því. Hann hafði þá ekki áttað sig á þessu sambandi á milli frumvarpanna fremur en hv. frsm. og hæstv. forseti, sem ekki hefir látið þessi mál koma í réttri röð á dagskrána til afgreiðslu. Málin komu í öfugri röð hér inn í þd., að hv. frsm. alveg óafvitandi, af því að hann hafði ekki áttað sig á sambandinu á milli þessara frv. fremur en aðrir. Það er bezt, að við tökum þessa sök á okkur allir sameiginlega og séum ekkert að grobba.

Ef brtt. meiri hl. verður felld og frv. samþ. óbreytt eins og það kom frá Ed., þá verður það tryggt, að fiskmjöl kemur undir sama útflutningsgjald og áður var. Er því óhætt að fella brtt. meiri hl. og samþ. frv. óbreytt.

Ég segi sem karlinn, að sá liggur, sem liggur, og ef við verðum ofan á í þessu máli, þá skal ég ekki kvarta eða sjá eftir því, að hv. þm. hefir sýnt hér sínar andlegu listir.