18.04.1933
Neðri deild: 52. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1798 í B-deild Alþingistíðinda. (2225)

154. mál, áveitu á Flóann

Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég gat þess við 1. umr. þessa frv., að það hefir verið lagt fyrir þingið í sömu mynd og það kom frá n. þeirri, er ríkisstj. skipaði síðastl. sumar til að athuga þetta mál. Ég gat þess þá einnig, að n. áskildi sér rétt til að bera fram brtt. En n. hefir ekki enn unnizt tími til að undirbúa þessar brtt., svo að þær liggja ekki fyrir nú. N. vill þó ekki fara fram á, að málið sé tekið af dagskrá. Hún mun bera brtt. sínar fram við 3. umr., en áskilur sér, að sú umr. fari ekki fram fyrr en næstkomandi laugardag.

Ég sé ekki ástæðu til að ræða þetta mál mikið almennt á þessu stigi, en vil þó drepa á nokkur atriði.

Samkvæmt skýrslum n. er allur kostnaður við Flóaáveituna 1430000 kr. En ég vil benda á, að þessi kostnaður er aðeins beint framlag til áveitunnar sjálfrar. Þar eru ekki reiknaðir með þeir vextir, sem á upphæð þessa hafa fallið, og mun það nú orðin álitleg summa. Ekki mun heldur talinn með sá styrkur, sem ríkissjóður hefir veitt til vegalagningar á þessu svæði, og ekki heldur það fé, sem farið hefir í að byggja garðana. Ef þetta allt er tekið með í reikninginn, er mér nær að halda, að upphæðin verði á 3. millj. kr.

Sú greiðsla, sem nefndarmenn fara fram á af hálfu þeirra ábúenda á áveitusvæðinu, sem ekki greiða í landi, er 80 aurar á hvern hektara, sem mældur hefir verið til áveitu, í 30 ár, og svo sé allri greiðslu af þeirra hálfu lokið. Ef þarna er reiknað með því, að vextir séu 5%, en hitt afborganir, er höfuðstóllinn 12,30 kr. fyrir hvern hektara, og ætti ríkið, samkvæmt þessu frv., að láta sér það nægja upp í áveitukostnaðinn. Öll greiðslan til ríkisins yrði með þessu móti um 140000 kr., eða 10% af áveitukostnaðinum eins og hann liggur fyrir, fyrir utan vexti og útgjöld til vega og flóðgarða. Það er ætlazt til þess, að ríkið fái aðeins 10% upp í sitt beina framlag til þessa fyrirtækis. En n. ætlast til, að þessháttar greiðsla verði aðeins undantekning, og ríkið fái framlag sitt aðallega endurgreitt í landi. Með þeirri aðferð á ríkið að fá 1 hektara af hverjum 4 af áveitulandi. Sé gengið út frá því, að það, sem ríkið á að fá af hverjum hektara, sé 12,30 kr., verður gildi hektarans af áveitusvæðinu þá metið um 50 kr. Verð alls áveitulandsins verður þá, reiknað út frá þessu, 500—600 þús. kr., eða tæplega helmingur áveitukostnaðarins. Eftir allar umbæturnar er landið þá ekki meira virði en tæpur helmingur þess fjár, sem lagt hefir verið í áveituna. Þegar þetta er athugað, er hægt að vera n. sammála, er hún segir, að „sjáanlegt sé af niðurstöðum hennar, að áveitukostnaðurinn sé ekki á beinan hátt ríkissjóði að fullu greiddur“. Ég vil þar að auki benda á, að með framkvæmd þessara 1. verður ríkið stóreflis jarðeigandi, og á það fellur kostnaður af mælingu og skiptingu lands síns. Auk þess er ekki vafi á því, að ríkinu mun talið skylt að koma upp góðum vegum á þessu landi sínu og gera þar allar nauðsynlegar umbætur. Ég er fyrir mitt leyti í vafa um, hvort ríkinu væri ekki betra að gefa skuldirnar alveg eftir. En n. hefir sem sagt ekki enn tekið fullnaðarákvörðun um einstök atriði frv., en gerir það við 3. umr.

En þessi n., sem átti að athuga Flóaáveituna og hefir nú gert það, átti líka að athuga fjárhagsástæður Mjólkurbús Flóamanna og fjárhagsgetu bænda á áveitusvæðinu til greiðslu á skuldum vegna þess mjólkurbús. Ég vil spyrja hæstv. stj., hvað gert hafi verið viðvíkjandi þessu atriði. N. virðist hafa gengið frá hlutverki sínu hvað áveituna snertir, en ekkert hefir komið fram um hitt atriðið. Ég vildi gjarnan fá upplýsingar um, hvað langt sé komið að athuga fjárhagsástæður Mjólkurbús Flóamanna.