31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 148 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

1. mál, fjárlög 1934

Guðbrandur Ísberg:

Ég á eina brtt. á þskj. 296, við 12. gr. fjárl., þess efnis, að hækkuð verði styrkveiting til Rauðakrossdeildarinnar á Akureyri úr 500 upp í 1500 kr. Deildin hefir starfað nokkur ár á Akureyri, leigt húsnæði til sjúkrarannsókna og haft lærða hjúkrunarkonu til þess að annast hjúkrunarstörf í bænum, einkum hjá þeim, sem ekki hafa getað eða átt erfitt með að veita sér hjúkrun á annan hátt.

Útgjöld deildarinnar eru: Laun hjúkrunarkonu 3600 kr., húsaleiga 600 kr. á ári. Tekjur deildarinnar eru lítilsháttar tekjur af hjúkrunarstarfseminni, lítilsháttar af því, eins og ég tók fram áðan, að hjúkrunarkonan vinnur að mjög miklu leyti hjá þeim, sem lítt eða ekki eru færir um að greiða hjúkrunarkostnað. Auk þess hefir deildin notið 1000 króna styrks frá Akureyrarbæ. Styrkur frá ríkissjóði var til að byrja með 1000 kr., en síðar færður niður í 500 krónur. Hrökkva tekjur deildarinnar ekki svipað því fyrir útgjöldum og hefir reynzt afarerfitt fyrir stuðningsmenn og velunnara deildarinnar að fá þann halla jafnaðan. Reynt hefir verið að afla þess fjár, sem á hefir vantað, bæði með samskotum, samkomum, fyrirlestrum og hlutaveltu. En nú hafa hlutaveltur verið bannaðar á Akureyri á síðasta ári. Er nú svo komið, að viðbúið er, að deildin verði að leggjast niður og hætta störfum. Kæmi það sérstaklega hart niður á fátækari hluta bæjarbúa, sem notið hafa læknishjálpar og hjúkrunar frá deildinni.

Þó að svo líti út, sem hér sé farið fram á hækkun styrksins upp í 1500 krónur, þá er því í raun og veru ekki þannig varið. Fyrir mistök var styrkurinn fyrir árið 1931, 500 kr., aldrei greiddur til deildarinnar. Sá maður, sem veita átti styrknum móttöku f. h. deildarinnar, krafðist hans of seint, og fékkst hann því eigi greiddur. Hækkunin að því er þessar 500 kr. snertir er því aðeins það, sem þegar var búið að veita í fjárlögum. Raunveruleg hækkun frá því áður hefir verið veitt nemur því aðeins 500 kr.

Með tilliti til þess mikla starfs, sem Rauðakrossdeildin hefir unnið í þágu fátækra sjúklinga, og með tilliti til þess, hversu fjárhagur deildarinnar er erfiður, vil ég mælast til þess, að hv. dm. taki þessari málaleitun vinsamlega með því að samþ. till. Fjárhæðin er svo lítil, að litlu skiptir fyrir ríkissjóð, en hinsvegar mikið nauðsynjamál, sem hér er um að ræða.