22.04.1933
Neðri deild: 55. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1810 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

154. mál, áveitu á Flóann

Sveinn Ólafsson:

Ég stend upp til þess að gera grein fyrir atkv. mínu um þetta mál. Ég á erfitt með að greiða atkv. um það óskorað og óskoðað. Það er að miklu leyti óskoðað enn, þar sem aðalbreytingarnar koma nú fyrst fram á þessum fundi. Það er nú orðið engum blöðum um það að fletta, að Alþingi hefir gengið í egnda gildru 1917 þegar Flóaáveitan var sett á stofn. Allir loftkastalarnir, sem þá voru byggðir í sambandi við þetta fyrirtæki, eru hrundir í rústir. En vonandi læra hv. þdm. eitthvað af þessu máli, fyrst og fremst líklega að varast slíkar gildrur í framtíðinni. Till. hv. landbn. eru mjög nærri því, sem ég hafði hugsað mér, að tiltækilegt væri að gera, eftir að út í slíkt óefni er komið. Það er vissulega óefni, þegar svo er komið, sem upplýst er í skýrslu mþn., að eftir síðasta jarðamati séu jarðir á áveitusvæðinu langtum minna virði en nemur fé því, sem lagt hefir verið í áveitu þeirra.

Þótt ég eins og nú er komið áliti till. landbn. það tiltækilegasta, sem um verður valið í þessu máli sem stendur, þá hefði ég fyrir mitt leyti heldur kosið, að gjaldgreiðslu landeiganda væri dreift yfir lengri tíma, en gjaldið haft lægra á ári. Hér er ekki um marga góða kosti að velja, og mun ég þó greiða atkv. með till. n., en þar á móti ekki með þeirri skrifl. brtt., sem fram er komin og gerir ráð fyrir því, að færa greiðslutímann niður í 30 ár úr 40. Það er langt frá því, að ég sé ánægður með lausn þessa máls, en þar sem ekkert undanfæri er til þess að fresta framkvæmdum, verð ég sem aðrir að taka neyðarkostinn og fylgja frv. með brtt. hv. landbn.