31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 149 í B-deild Alþingistíðinda. (224)

1. mál, fjárlög 1934

Haraldur Guðmundsson:

Við 1. umr. þessa máls hefi ég drepið á heildaryfirlit fjárl., svo að ég þarf ekki að fjölyrða um þau við þessa umr.

En rétt þykir mér að benda á, hvernig nefndin lítur á horfurnar á þessu ári. Hún segir í nál.:

„Horfurnar framundan um viðskiptaástandið virðast ekki enn benda á breytingu til batnaðar. Telur nefndin því enga ástæðu fyrir hendi að gera ráð fyrir, að ríkistekjurnar reynist yfirleitt meiri árið 1934 en síðastl. ár, að óbreyttri tekjulöggjöf“.

Þegar ég ræddi um þetta við forsrh. og spurði hann, hvers vegna ekki væri gert ráð fyrir neinum atvinnubótum í fjárl., þá svaraði hann því til, að hann gerði sér vonir um, að nú færi kreppunni að létta af. En nefndin hefir ekki litið svo á, og tel ég, að n. hafi í þessu rétt fyrir sér.

Hinsvegar hefir n. gert till. um lækkun á tekjum, sem ástæðulaust virðist með öllu að lækka. T. d. gerir hún að ástæðulausu till. um að lækka áfengistollinn, tóbakstollinn, verðtoll og vörutoll, og sama er að segja um stimpilgjald. Þessa liði hefði alls ekki verið ástæða til að lækka. Hinsvegar hefði mátt hækka t. d. fasteignaskattinn, sem áætlaður er í fjár1. 330 þús., en varð síðastl. ár 370 þús. Hér eru því vantaldar 40 þús. kr. Sömuleiðis má hækka tekjuskattinn. Er enginn vafi á því, að ef tekjuliðurinn verður samþ. eins og hann liggur fyrir, þá skakkar um 550 þús., ef ekki fer allt í kalda kol.

Aðalsvipur á till. n. er sá, að fella niður smástyrki til menningarmála. þessar upphæðir eru litlar, lítið sparað á því að fella þær niður, en hinsvegar veldur þetta miklum óþægindum fyrir þá, sem verða fyrir þessu, þegar menn verða fyrir þær sakir að hætta við nám erlendis o. s. frv.

Um verklegar framkvæmdir farast n. svo orð í nál.:

„En um framlög til verklegra framkvæmda, sem að vísu má segja um, að eigi séu bundin með lögum og því hreyfanleg, var það einhuga álit nefndarinnar, að með engu móti væri gerlegt að draga úr þeim. Fyrir það fyrsta væru framkvæmdir þessar mjög aðkallandi til hjálpar og hagsbóta héruðum þeim, sem hlut eiga að máli og lengi hafa eftir þeim beðið. Og í annan stað kæmu fjárveitingar til þessara framkvæmda héruðunum til hjálpar sem atvinnubætur, er gera mörgum frekar kleift að inna af höndum ýms opinber gjöld, sem annars yrði engin leið að greiða“.

Svo virðist á þessu, sem n. hafi skilið þörfina á verklegum framkvæmdum, þörfina á því að bæta úr atvinnuleysinu. En eftir þennan formála er skammt stigið. Þessi litla hækkun á fjárveitingu til vegagerða, 29 þús. kr., er miklu fremur sem afsökun, því að lítið bætir úr samgöngum og engin bót á atvinnuleysinu.

Ég vil í þessu sambandi þakka n. fyrir það að hafa tekið upp styrk til Fjarðarheiðarvegarins. Alloft hefir verið rætt hér í d. um þörfina á því að leggja þennan veg, en ekkert hefir fengizt að þessu. Brtt. mín á þskj. 296, nr. XIII, fer fram á, að í stað 8000 kr. komi 13000 krónur. Skal ég víkja strax að þessari till. Eftir áætlun, sem gerð er af Hannesi Arnórssyni, má gera sæmilegan bílveg yfir heiðina fyrir 25 þús. kr. Fyrir minni upphæð telur verkfræðingurinn að megi gera sæmilegan sumarveg. Hefir þetta verið hið mesta áhugamál og margsinnis komið áskoranir frá þingmálafundum víðsvegar að um að hrinda þessu verki í framkvæmd hið allra fyrsta. Ef ríkissjóðsframlagið verður hækkað um 5000 kr., úr 8000 upp í 13000, eins og ég fer fram á með þessari till. minni, má telja víst, að þessi vegargerð geti farið fram í sumar, svo að sambandið milli Seyðisfjarðar og héraðsins ætti að geta verið komið á í haust. Þetta er vegargerð, sem hefir dregizt lengi, enda hafa Seyðfirðingar jafnan orðið útundan við skiptingu vegafjárins, og vænti ég því, að hv. d. taki tillit til þessa og fallist á að samþ. þessa lítilsháttar hækkun. Í sambandi við þetta vil ég víkja að því, að ríkisstj. hefir aðeins ætlað 895 þús. kr. til vegamála í stjfrv., ef stjórn vegamálanna er skilin undan, og sé því bætt við, sem n. gerir till. um til hækkunar, nemur fjárveitingin til vegamálanna þó ekki nema 924 þús. kr. alls, sem er helmingi lægri upphæð en lagt hefir verið til vegamálanna undanfarin ár samkv. LR. Er þetta mjög slæmt vegna atvinnuleysisins, sem er í landinu, og hefði þvert á móti þurft að verja meiru til vegagerða en áður hefir verið gert, í stað þess að draga svo stórlega úr því. Vegagerðir eru einmitt einhverjar heppilegustu atvinnubæturnar, sem ráðizt verður i, því að fé það, sem varið er til þeirra, gengur allt að kalla í vinnulaun, eins og n. bendir réttilega á í nál. á þskj. 213.

Hin till. við þennan kafla fjárl., brtt. 296, IV, við 12. gr. 17. b., fer fram á 12000 kr. styrk til viðbyggingar víð sjúkrahúsið á Seyðisfirði. Þetta sjúkrahús er orðið allgamalt, en þarna er ungur og góður læknir, svo að húsið er notað mjög mikið af héraðsbúum, og auk þess dálítið af mönnum ofan heiðar og allmikið af útlendum sjómönnum, sem skipað er í land þarna til að fá læknishjálp. Hefir oft orðið að koma sjúklingum fyrir úti í bæ vegna þrengsla í sjúkrahúsinu, og hefir gamalmennahælið þarna á staðnum helzt orðið til hjálpar í þeim efnum, en eins og sjálfsagt er, er ekki hægt að reikna með þeirri hjálp til frambúðar. Með viðbótarbyggingunni, sem meiningin er að byggja við spítalann, hefir verið reiknað út, að spítalinn mundi geta fullnægt þörfum héraðsbúa um sjúkravist og eins þeirra útlendra manna, sem leituðu til spítalans og eru allmargir, vegna siglinganna, sem til Seyðisfjarðar eru á erlendum skipum. — Verði hinsvegar dregið að koma þessari viðbyggingu upp, má búast við því, að húsið verði svo úr sér gengið, að byrja verði af nýju, þegar ráðizt verður í þessar framkvæmdir. Ég hefi ekki séð teikningu af þessari viðbyggingu, en ég þarf ekki að taka það fram, að ég tel sjálfsagt, að þetta fé verði ekki greitt út nema heilbrigðisstj. hafi áður lagt samþykki sitt á teikninguna og gengið úr skugga um það, að kostnaðurinn sé við hæfi.

Þá á ég ekki fleiri brtt. við þennan kafla fjárl., en áður en ég sezt niður, vil ég benda á það, að enn hefir svo farið eins og svo oft áður, að tekjuáætlun fjárl. er samin með svo mikilli varúð, að það er fyrirfram vitað, að tekjurnar fara hundruðum þúsunda fram úr áætlun, og er stj. þannig fengið fé í hendur, sem er óbundið af fjárl. og hún getur ráðstafað eftir geðþótta sínum. Þetta er vitað og viðurkennt af öllum. Ég hefi alltaf haldið því fram, að Alþingi beri skylda til þess, svo framarlega sem Alþingi vill ekki afsala sér fjárveitingavaldinu í hendur stj., að áætla ekki aðeins gjöldin, heldur engu síður tekjurnar líka eins nærri sanni og unnt er á hverjum tíma. Eins og ég hefi bent á, eru tekjurnar að þessu sinni svo varlega áætlaðar, að þær eru a. m. k. taldar ½ millj. kr. lægri en ástæða er til að ætla, að þær verði, og eftir venjunni mun stj. telja sér heimilt að ráðstafa þessum umframtekjum eftir eigin geðþótta. Er sannarlega kominn tími til að snúa aftur á þessari braut.