09.05.1933
Efri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1817 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

154. mál, áveitu á Flóann

Frsm. (Pétur Magnússon):

Ég get verið sammála hv. 2. þm. N.-M. um það, að ríkissjóð skiptir það ekki miklu máli, hvort skuldin er strikuð út eða ekki. En þó er hér um afgjald af rúml. 20 þús. hekturum að ræða, svo að áveitugjöldin nema talsverðu með tímanum, þó að þau séu hverfandi í samanburði við tilkostað ríkissjóðs.

Það er fullvíst, að mikill meiri hluti bænda vill heldur greiða áveituskatt en láta land af hendi, jafnvel þótt það sé máske ekki ávallt búhnykkur fyrir þá. Landið, sem ríkissjóður fengi, gæti heldur ekki haft neina þjóðhagslega þýðingu. vegna þess hve það yrði lítið — ef til vill undir 4—5—6 býli. Ég vil því halda fast við það, að úr því að horfið var frá að krefjast lands af öllum bændum, eigi ekki að kúga suma til þess að láta land af hendi. Enda myndi lítil eða engin áhætta fylgja því að falla frá þessu ákvæði. Hv. 2. þm. N.-M. sagði, að komið gæti fyrir, að tvær jarðir legðu fram engjaland, en nýbýlið strandaði á því, að þriðja jörð vildi ekki leggja til land undir tún eða bæjarstæði. En þó að svona stæði á, eru alveg hverfandi líkur til þess, að samkomulag næðist ekki. En þótt svo tækist til, að ekki næðist samkomulag, leiddi þetta aldrei til annars en þess, að þessar tvær jarðir yrðu að greiða áveituskattinn, sem ekki er hærri en það, að bændum ætti ekki að vera um megn að greiða hann, þótt ekki megi gleyma því, að fleiri gjöld hvíla á þeim vegna áveitunnar, svo sem viðhaldskostnaður, sem nemur 75 aurum á hektara, og vextir og afborganir af lánum, sem þeir hafa orðið að taka margir hverjir til að byggja flóðgarðana.