09.05.1933
Efri deild: 67. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 1819 í B-deild Alþingistíðinda. (2254)

154. mál, áveitu á Flóann

Frsm. (Pétur Magnússon):

Þegar ég sagði, að mþn. hefði ekki talið, að ríkissjóður hefði peningalegan hagnað af því að taka löndin, var það ekki af því, að n. teldi löndin verðlaus, heldur af því, að búizt var við, að ríkissjóður yrði að kosta allmiklu til umbóta á löndum og leigja þau eða láta af hendi með mjög góðum kjörum. Yrði því ekki peningalegur hagnaður af þessu, þó að það hefði hinsvegar þjóðfélagslega þýðingu að fjölga sveitabýlum, og aðstaða heildarinnar myndi batna.

Það þýðir ekki að leiða neinar getgátur að því hér, hvort bændur vilji heldur borga í löndum eða peningum. En framkoma Flóaáveitufélagsins bendir til þess í fundarsamþykktum, að félagarnir óski eindregið að losa sig undan landtökunum með peningagjaldi.

Brtt. við 2. gr. eru engan veginn til að samræma frv. við Flóaáveitulögin frá 1917, enda er málið nú komið á allt annan grundvöll en þá, er bændur áttu að borga 3/4 kostnaðar. Þetta er gert til að fá samræmi innan frv. sjálfs, þar sem áveituskatturinn er principatriði.

Ég legg ekki mikið upp úr hækkuðu fasteignamati á þessum slóðum, því að matið mun ekki hafa hækkað meira þar en annarsstaðar á landinu. En hitt er alveg rétt, að ríkið og þessi landshluti ætti að hagnast af því, að aðstaða manna hefir stórkostlega batnað og menn verða, eins og hv. þm. sagði, betri búþegnar en ella. Ég held, að illa hefði farið fyrir bændum á þessu svæði nú, ef áveitan hefði ekki verið komin, þegar litið er á ástandið, hvernig það er, þrátt fyrir stórbætta aðstöðu með auknum hey feng og minnkuðum rekstrarkostnaði.