02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 161 í D-deild Alþingistíðinda. (2307)

213. mál, lækkun vaxta

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég skal ekki fara mörgum orðum um þessa till. að sinni. Hún byggist á nauðsyn þeirri, sem krefur, að atvinnulíf þjóðarinnar sé eflt og létt undir með framleiðendum á þann hátt, að vextir séu lækkaðir og útvegun starfsfjár þar með gerð ódýrari að þeim mun. Á þessu þingi hefir verið samþ. frv. um lækkun innlánsvaxta, og það felur einnig í sér, að Landsbankinn ráði, hverjir sparisjóðsvextir gildi hér á landi, og ætla mætti, að hann hefði betri tök á því en aðrir að lækka vextina eitthvað. Á síðastl. hausti voru útlánsvextir lækkaðir um 1/2%, án þess þó að innlánsvextir lækkuðu að því skapi, og er því eigi ólíklegt, að enn megi lækka þá, gegn því að innlánsvextir sæti sömu meðferð. Með lögunum frá 1928 er forstjórum þjóðbankans falið að ákveða vaxtagreiðslur, og þess vegna hefir verið farin þessi leiðin, að þess er æskt, að hæstv. ríkisstjórn beiti sér fyrir því við forstjóra bankans, að athuguð verði skilyrði fyrir þessu máli og hafizt handa.