02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 165 í D-deild Alþingistíðinda. (2321)

208. mál, templaralóðin í Reykjavík

Flm. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Tilefnið til þess, að við nokkrir þm. höfum flutt þessa till. til þál., er það, að ókláruð viðskipti eru milli templara og Alþ. út af lóðinni hér sunnan við alþingishúsið, sem templarahúsið stendur á. Saga þessa máls er sú, að er templarar vildu byggja fundarhús, þá er þeim á árinu 1887 útmæld þessi lóð, en það skilyrði þó sett, að þeir, eða síðari eigendur, séu skyldir að flytja burt á aðra lóð, er þeim verði vísað á og sé á þeim stað, sem þeim verði kostnaðarminnst að flytja á. Þessi skilyrði eru dags. 21. jan. 1887. Templarar vildu ekki sætta sig við þessi skilyrði. Er þá ný útmæling gerð 10. febr. 1887. Er það ný lóð og engin skilyrði sett. Er hafinn undirbúningur til að byggja á henni. En síðar á árinu, þegar á að fara að byggja, leyfir byggingarn. templurum að byggja þar, sem fyrst var mælt út, og vissu þeir ekki annað en að það leyfi væri skilyrðislaust. En hvernig sem á því hefir staðið, þá fór það þó svo, að þegar þetta var bókað, þá var hin upphaflega kvöð sett á aftur, án þess, að því er vitað verður, að templarar hefðu hugmynd um það. Kvöð þessi var miðuð við það, að þinghúsið hefði þörf fyrir þessa lóð. Þegar svo, 1893, girt var í kringum Alþ.húsið, héldu allir, að lóð Alþ.hússins væri ákveðin með þeirri girðingu, og mundi því ekki verða gengið eftir þessari kvöð meira. Hið næsta, sem gerist, er það, að í ágústmánuði 1923 hugsa templarar sér að reisa viðbótarhús á þessari lóð. En forsetar Alþ. mótmæla vegna þessarar kvaðar og stöðva bygginguna. Er svo mál hafið og það dæmt í gestarétti Reykjavíkur 7. nóv. 1927. Sá dómur staðfestir það, að kvöðin sé enn í gildi. Hæstiréttur staðfestir svo þennan dóm. Er því ekki efi á, að kvöðin er enn í gildi. En þá er eftir að vita, hvort Alþ. óskar eftir að njóta þessa réttar, hvenær eða hvernig. Einnig hvort ekki er hægt að komast að einhverjum öðrum samningum um þetta mál. Þeir, sem umráðaréttinn hafa nú á lóð þessari, þurfa að vita þetta, vegna mannvirkja, sem þeir hafa hugsað sér að reisa. Er því heppilegt, að endir sé bundinn á þetta og forsetum falin framkvæmd. þess. Ekki er að vísu hægt að búast við því, að þessu máli geti orðið lokið áður en þingi slítur nú. En heppilegt er fyrir báða aðilja, að sá endir sé bundinn á þetta, sem báðir geti sætt sig við. Við, sem till. flytjum, teljum heppilegt, að forsetum sé falið þetta mál. Gæti það þó verið á valdi þeirra, að ekki væri endanlega að samningum gengið, fyrr en Alþ. kemur saman næst. Það er óbundið í till. Á þennan hátt mætti fljótlega ljúka því máli, sem segja má, að beðið hafi óafgr. síðan 1887. En báðum aðiljum er nauðsyn á, að því sé lokið.