02.06.1933
Sameinað þing: 9. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 168 í D-deild Alþingistíðinda. (2323)

208. mál, templaralóðin í Reykjavík

Flm. (Pétur Halldórsson) [óyfirl.]:

Mér þótti vænt um að heyra, hvernig hv. 3. þm. Reykv. taldi, að bæri að leysa þetta mál. Ég vildi ekki koma að þessu í minni ræðu. En ég er sammála hv. þm. í öllum aðalatriðum. Ég tel, að æskilegast væri, að þessi lóð öll væri kvaðarlaus eign Alþingis. Og ég er sannfærður um, að frá hálfu hins aðilans er hægt að fá þá samninga, er allir mega vel við una. Ég get hugsað mér, að bæjarstj. Rvíkur hugsi á sama hátt, að heppilegra væri fyrir útlit bæjarins að leysa málið eins og hv. samþm. minn nefndi. Ég mundi undir þeim kringumstæðum vilja mæla með því, að forsetarnir teygðu sig mjög langt til samkomulags við templara um lausn málsins. Mér þykir þessi lausn æskilegust fyrir mitt leyti og held, að hún sé sú bezta. Og þá þarf Alþingi og ríkissjóður að gera templurum fært að koma sér upp húsi á öðrum stað, sem þeir gætu verið ánægðir með. Ég tel, að Alþingi eigi að fórna því, sem þarf, til þess að þessi lausn geti fengizt.