31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 171 í B-deild Alþingistíðinda. (234)

1. mál, fjárlög 1934

Bernharð Stefánsson:

Þar sem ég er einn á meðal þeirra þm., sem flutt hafa brtt. um hækkun á fjárframlögum til þjóðvega, þá skal ég eftir ósk hv. frsm. lýsa yfir því, að ég mun taka till. mína aftur til 3. umr.

Hæstv. dómsmrh. játaði, að stjórnin hefði ekki úthlutað Siglfirðingum atvinnubótastyrk árið sem leið og sagði, að fyrrv. stj. hefði litið svo á, að ríkið væri búið að gera svo mikið fyrir Siglufjörð til atvinnuauka þar á staðnum, með stofnun síldarverksmiðjunnar þar, að Siglfirðingar þyrftu ekki sérstakan atvinnubótastyrk. Það er rétt, að mér er kunnugt um, að fyrrv. stj. leit svo á þetta, en ég get upplýst það, að Siglfirðingar líta allt öðruvísi á það mál. Þeir líta svo á, að þær framkvæmdir, sem ríkið hefir látið gera á Siglufirði, sérstaklega bygging síldarverksmiðjunnar, hafi verið gerð fyrir síldarútveginn í heild, en ekki til atvinnubóta fyrir Siglfirðinga. Og í öðru lagi telja þeir, að hún hafi ekki fært Siglufirði sérstakar atvinnubætur af því að samhliða hafi verið dregið svo mikið úr rekstri annara síldarverksmiðja þar á staðnum.

Ég vona, að hæstv. stj. sjái sér fært að láta Siglfirðinga njóta jafnréttis í þessu efni, og ég geri beinlínis þá kröfu, að á þessu ári verði Siglufjörður látinn njóta fullkomins jafnréttis við aðra kaupstaði á landinu um úthlutun á atvinnubótastyrk. Og mér fannst ekkert koma fram í ræðu hæstv. dómsmrh., sem gæfi annað til kynna, og þess vegna vænti ég hins bezta.