06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í D-deild Alþingistíðinda. (2357)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Reykv. hefir nú hellt úr skálum reiði sinnar eins og honum er títt, og skal ég reyna að vera eins stuttorður í svari mínu og ég get.

Ég vil þá fyrst taka það fram, að það er nokkuð óvanalegt, að á Alþingi sé flutt vantrauststill. á einn af embættismönnum ríkisins, sem kemur þinginu ekkert við. Þessum æsingasegg, hv. 2. þm. Reykv., hefði átt að vera nóg að láta vantraustið ná til mín, en ekki skrifstofustjórans í atvinnumálaráðuneytinu. Ég get ekki séð, af hverju hv. þm. hefir nítt hann svo mikið sem hann hefir gert í ræðu sinni, og það alveg að ástæðulausu, eins og ég mun nú sýna fram á.

Það var svo mikið óðagot á þessum hv. þm., að hann gleymdi alveg að skýra frá því, sem var tilefni þeirrar þáltill., sem hér liggur nú fyrir. Hann lét sér nægja að segja, að allt væri tekið til baka og skýrði rangt frá því öllu saman.

Ég skal þá byrja með því að minnast þess, sem gerðist á þinginu í fyrra. Þá var skorað á stj. eða samþ. dagskrá, þar sem gengið var út frá því, að stj. léti rannsaka það, sem þyrfti til undirbúnings undir stofnun fávitahælis. Nú sá ég, að þarna mundi allt standa á peningaleysi og engar líkur til, að hægt væri að koma þessu hæli upp í náinni framtíð, nema hægt væri að útvega stað og byggingar þar, án þess þó að ríkissjóður þyrfti beinlínis að leggja fram fé til þess nú til að byrja með. Með tilliti til alls þessa var það, að ég gerði samning við Vigfús Einarsson skrifstofustjóra um það, að gjafasjóður Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur keypti af honum þessa jörð, sem hv. 2. þm. Reykv. nefndi, svo framarlega sem fjvn. vildu, að lagt væri fram fé til rekstrar þessa hælis á þessari jörð. Eins og skrifstofustjórinn lýsti yfir nýlega í blaðagrein, var svo beinlínis um samið okkar í milli, að ef fjvn. vildu þetta ekki, þá yrði ekkert úr kaupunum.

Það getur því ekki orkað tvímælis, hvað hér er á ferðum. Og þegar hv. þm. segir, að þetta komi fjvn. ekkert við, þá er það auðvitað ekkert nema vitleysa, því að vitanlega þyrfti að bera það undir fjvn., hvort veita skyldi fé til rekstrar fávitahælis eða ekki. Og samkv. skipulagsskránni sjálfri var fullkomlega heimilt að kaupa jörð, hvenær sem vildi, enda las hv. þm. það upp úr skipulagsskránni, sem tók þar af öll tvímæli. Þar stendur sem sé, að stjórnarráð Íslands ráði kaupum á jörð handa sjóðnum. Ég hefi borið þetta mál undir þann mann, sem samdi skipulagsskrána fyrir hlutaðeigandi gefanda, og hann sagði, að það hefði verið beinlínis um það talað þeirra á milli, að kaupa mætti jörðina löngu áður, ef það teldist heppilegra. (HV: Er það Eggert Claessen?). Já, það var hann, sem gefandinn gerði að trúnaðarmanni sínum. Hann fékk honum allar eignirnar til umráða, meðan verið væri að koma eignunum í peninga. Það sýnir, að gefandinn hafði fullkomið traust á þessum manni. Og það var hann, sem samdi skipulagsskrána fyrir gefandann.

Það, sem ég hefi gert í þessu máli, er því ekkert annað en það, að ég hefi tryggt það, að ríkið gæti fengið þarna keypta jörð, þar sem síðan væri svo hægt að reka talsvert myndarlegt hæli, ef Alþingi vildi svo vera játa. En þá rýkur hv. 2. þm. Reykv. upp, eins og framið hafi verið eitthvert stórkostlegt glapræði með því að gefa þinginu kost á þessu. Ég hefi aldrei vitað aðra eins fjarstæðu.

Þetta mál byrjaði þannig, að þessi hv. þm. hringdi til mín til að spyrja mig um þetta mál. Hann vissi ekkert um það sjálfur. Hann sagði mér að fyrra bragði og áður en hann hafði fengið nokkrar upplýsingar, að hann ætlaði að ráðast á mig fyrir þetta. Síðan fékk hann daglega nýjar og nýjar upplýsingar um þetta mál frá mér. Hann hefir ekkert vitað um það, nema af þeim upplýsingum, sem ég hefi látið hann fá. Ég hefi ekki þurft að liggja á neinu, og ég hefi frá því fyrsta látið honum í té allar þær upplýsingar, sem hann hefir beðið mig um.

Af þessu, sem ég hefi nú tekið fram, er það auðsætt, að ég hefi hvorki gengið á rétt sjóðsins né þingsins, því að það var berum orðum til skilið, að ég mundi ekki halda þessum kaupum fram, ef fjvn. vildu ekki leigja þessa eign hjá sjóðnum, þannig, að hún renti sig sæmilega fyrir hann. Og þó að það væri ekki neitt annað en hitinn, sem er þarna í jörðinni, þá hefði það eitt verið nóg til að borga þá leigu, sem sjóðurinn hefði krafizt, leigu, sem hefði ekki verið hærri en það hefði kostað að hita upp hæli annarsstaðar, þar sem enginn hiti var.

Hv. þm. fjargviðraðist mikið út af því, hvað sjóðnum hefði verið illa stjórnað. Ég vil þá minna á það, að samkv. skipulagsskránni, sem var samin 1914, gerir gefandi sjóðsins ráð fyrir, að eignir þær, sem hann afhendir, séu 100 þús. kr. virði, en nú er sjóðurinn á 3. hundrað þús. (H-V: Hann hefir ávaxtazt síðan). Já, það er nú einmitt það, sem ég var að sýna fram á. Hann hefir ávaxtazt það mikið frá 1914, að hann hefir farið úr 100 þús. og upp í á 3. hundrað þús. Þetta fé er mest í vörzlum stjórnarráðsins, en í vörzlum trúnaðarmanns sjóðsins, Eggerts Claessens, er ennþá eign, sem er í það minnsta 100 þús. kr. virði. Þá hefir sjóðurinn vaxið úr 100 þús. kr. og upp í á 4. hundrað þús. í 19 ár. Nú getur þessi hv. þm. komið og staðhæft, að þeim sjóði sé illa stjórnað, sem hefir vaxið svona mikið á ekki lengri tíma. En hver trúir honum? Ég á von á, að þeir verði ekki næsta margir.

Hv. þm. gerði vitanlega mjög lítið úr þeirri jörð, sem hér um ræðir. Hann nefndi hana alltaf Hlaðgerðarkot, af því að svo hét hún í byrjuninni. Hann gat þess náttúrlega ekki, að það voru keyptar undir þetta býli 60 dagsláttur af einhverju því bezta ræktunarlandi, sem talið er vera til hér í nánd, hinum svonefnda Mosfellsviði. Þetta þótti hv. þm. ekki vert að benda á eða segja frá því, að nú er búið að rækta svo að segja allt þetta land, svo að á þessari jörð er nú 60 dagsláttna tún auk gamla túnsins. Þar eru einnig ágætar byggingar og stórar. Í húsinu eru undir 20 íbúðarherbergi. Útihús öll eru í ágætu standi. Þar er stór hlaða, fjós og haughús og hænsnahús fyrir 500 hænsni. Vermireitir eru þar einnig margir og í ágætu lagi. Í öllum húsum þar er hitaleiðsla. Ég verð yfirleitt að segja, að ég hefi ekki séð hér á landi öllu glæsilegri eign. Og ég get ekki hugsað mér neinn stað hentugri fyrir gamalmennahæli heldur en þennan. Staðurinn er mjög fallegur, og þarna geta gamalmennin fengið nógan hita hvern dag árið um kring, en ekkert er gamalmennum nauðsynlegra en að nógu heitt sé hjá þeim.

Mér skildist á hv. þm., að hann áliti, að ekki mætti ávaxta fé sjóðsins í jarðeignum, af því að svo er ákveðið, að með fé sjóðsins skuli farið sem ómyndugra fé. Ég hélt, að hann væri ekki svo fáfróður, að hann vissi ekki, að ómyndugra fé má ávaxta í fasteignum. Og þótt hann haldi því fram, að eina rétta leiðin til að ávaxta fé opinberra sjóða sé sú, að ávaxta þá sem aðra peninga í sjóði, þá vil ég benda á það, að ég get ímyndað mér, að sumir opinberir sjóðir væru ríkari, ef fasteignir hefðu verið keyptar fyrir fé þeirra heldur en að láta þá liggja í bönkum og sparisjóðum. Krónan hefir lækkað hér um bil um helming, og þar með allir þeir peningar, sem í bönkum eru. En þetta verður ekki að því er fasteignir snertir. Ég segi fyrir mig, að ég hefi þá trú á moldinni, að ég vil miklu heldur eiga peninga mína í góðri jörð heldur en í sjóði, jafnvel þótt tryggur sé. Og eftirtektarvert er það, að þessi sjóður hefir átt eina fasteign og á ennþá. Þetta er hús hér í bænum, og það er sú eign, sem sjóðurinn hefir grætt langmest á. Húsið hefir hækkað stórkostlega í verði síðan 1914 og gefur einnig ágætan arð af sér. En eftir því, sem þessi hv. þm. hefir haldið fram, þá ætti nú undir eins að rjúka til og selja þessa eign. Hann vill sjálfsagt koma með vantraust af því, að ekki er fyrir löngu búið að selja þessa eign, sjóðnum til stórskaða.

Hv. þm. fór ekki mikið út í það, hvers virði þessi jörð væri, en þó held ég, að hann hafi eitthvað drepið á, að fasteignamatið væri lágt, og það er satt, því að það mun ekki vera hærra en eitthvað um 30 þús. En þess ber að gæta, að síðan það mat var framkvæmt hafa verið gerðar stórkostlegar umbætur á jörðinni, ræktað afarmikið og byggingar auknar mjög mikið. Fasteignamatið er því mjög villandi. Mig minnir, að túnið sé talið 4 hektarar eða 12 dagsláttur, en það er aðeins gamla túnið. Síðan hefir verið ræktað svo mikið, að nú er túnið rúmlega 60 dagsláttur. Þessu vill hv. þm. auðvitað ekki skýra frá, en hann veit þetta vel, af því að það er búið að senda honum skýrslu um jörðina. En hann tekur aðeins það, sem „passar í hans kram“, en dettur ekki í hug að minnast á hitt.

Þá minntist hann á heita vatnið og sagði, að það væri illa fengið. Ég veit ekki, við hvað hann á með því. Ég veit ekki betur en að það sé fengið á sama hátt og annað vatn, sem upp úr jörðunni kemur. Hann var að tala um einhverja borgun fyrir að bora eftir því. Mér er alveg ókunnugt um það. Ég hefi engan þátt átt í því. Nei, hann veit vel, að ég hefi engan styrk greitt til þess, þó að hann vildi halda því fram, að ég hefði gert það. Hann talar hér eins og annarsstaðar móti betri vitund, bara til að blekkja aðra.

Þá segir hv. þm., að ef þessi kaup hefðu gengið fram, þá hefði of lítið fé verið eftir til að reka hælið. Ég hefi nú séð útreikninga frá hv. þm. sjálfum, þar sem hann heldur því fram, að með hæfilegum vöxtum verði sjóðurinn orðinn 2-3 millj., þegar hann tekur til starfa. En að þessari niðurstöðu getur hv. þm. ekki komizt, nema hann vilji láta líta svo út, að þessi eign verði gagnslaus fyrir sjóðinn, og þá sennilega líka, að aðrir hlutar hans séu óávaxtaðir. Það er ekki nema eftir öðrum blekkingum hans að vilja láta líta svo út. En eins og ég sagði áðan, þá var ekki meiningin að kaupa þessa eign, nema það opinbera vilji taka hana á leigu í sérstökum tilgangi, og þá ávaxtast fé sjóðsins, þar til hann tekur til starfa.

Ég heyrði, að hv. þm. vildi byggja mikið á því, að í skipulagsskránni stendur, að jörð skuli keypt á kostnað sjóðsins, en þar séu ekki nefnd nein hús. Ég veit ekki, hvort hv. þm. er svo skyni skroppinn, að hann haldi, að hann geti talið mönnum trú um, að sjóðurinn megi alls ekki kaupa jörð nema engin hús fylgi. Ég get ekki skilið, hvernig það á að vera frágangssök að kaupa jörð, þar sem hús eru, þó að þau séu ekki fullnægjandi fyrir gamalmennahæli.

Þá fór hv. þm. að skýra frá því, á hvern hátt ætti að byrja nauðsynlegar rannsóknir til undirbúnings fávitahælis. Hann sagði, að ætti að byrja á að rannsaka, hve margir fávitar væru í landinu. Ég verð að segja, að mér fyndist réttara að byrja á að athuga, hvort hægt væri að útvega nokkurn fjárhagslegan grundvöll fyrir þessa stofnun. Hitt er auðvitað aukaatriði, að fá skýrslu um, hve margir fávitarnir væru. Aðalatriðið er að koma málinu þannig fyrir, að hægt sé fjárhagsins vegna að koma upp þessu hæli, ef þingið vildi gera alvöru úr því, sem talað var þar um í fyrra.

Þá nefndi hv. þm. þau lán, sem Vigfús Einarsson hefir fengið úr þessum sjóði, og þótti alltortryggilegt. Ég hefi sagt hv. þm., að ég á ekki að svara til margra af þessum lánum, en ég get sagt honum það, að ég sé ekki, hvað er á móti því, að honum sé veitt lán út á þessa eign. Nú fyrir fáum dögum hefir þessi eign verið virt á 105-6 þús. kr. af trúnaðarmanni ræktunarsjóðsins, og eftir reglum hvaða banka sem er, og m. a. s. eftir reglum veðdeildarinnar er heimilt að lána þessa upphæð út á þessa jörð. Mér er því ómögulegt að sjá, að þarna hafi verið gengið lengra en hver einasti banki hefði talið sér heimilt að gera. Og ég get ekki séð, að það sé hægt að heimta frekari tryggingar fyrir þennan sjóð heldur en veðdeild Landsbankans mundi gera.

Þá nefndi hv. þm. lán frá 1926, sem skrifstofustjórinn hefir fengið út á húseign sína hér í bænum. Það er sennilegt, þó að ég muni ekki eftir því, að ég hafi samþ. þessa lántöku. En þá var Vigfús Einarsson alls ekki umráðamaður sjóðsins. Hann var þá ekki skrifstofustjóri, heldur aðeins aðstoðarmaður og hafði ekkert með veitingu lánsins að gera annað en að hann sótti um það. Ég held helzt, að Oddur Hermannsson hafi þá verið skrifstofustjórinn, en man það ekki með vissu. Hv. þm. getur því ekki sagt með réttu, að Vigfús Einarsson hafi þar misbeitt embætti sínu.

Þá nefndi hv. þm. önnur lán, sem mér skildist, að hann áliti óforsvaranleg. Ég skal ekki fara langt út í það, því að mér virtist hann ekki heldur benda á, að eitt einasta af þessum lánum væri ótryggt. Hann sagði, að engar afborganir hefðu verið greiddar af neinum þessara lána, að mér skildist. Mér er ekki kunnugt um það, en ég hygg, að í öllum þessum skuldabréfum sé ákveðið, að segja megi upp með 6 mán. fyrirvara hvenær sem er, og er það svipuð aðferð og söfnunarsjóðurinn hefir. Úr slíkum sjóðum eru alls ekki veitt önnur lán en þau, sem eru algerlega trygg, en uppsagnarheimildin er til þess, að hægt sé að taka í taumana, ef verða kynni breyting á verðgildi veðsins.

Þá var hv. þm. að dylgja um aðra sjóði. Ég skal taka það fram, að síðan hann fór að ráðast á skrifstofustjórann út af stjórn sjóðanna, sem eru eitthvað 23 talsins, hefir hann látið yfirendurskoðunarmann ríkisins, Jón Guðmundsson, endurskoða meðferð sína á öllum þessum sjóðum, frá því að hann tók fyrst við stjórn þeirra, og nú hefir endurskoðunarmaðurinn látið í té þá yfirlýsingu, að þar sé ekkert að athuga. Ég segi þetta ekki af því, að ég haldi, að hv. 2. þm. Reykv. hætti fyrir það að bera svívirðingar á skrifstofustjórann, en ég vil, að aðrir viti, að hann er algerlega sýkn af þessum áburði þessa hv. þm.

Um vantraustið á mig ætla ég ekki að segja eitt einasta orð. Ég hefi rakið það mál, sem hér liggur fyrir, í stórum dráttum og er reiðubúinn að gefa nánari upplýsingar og svara hv. 2. þm. Reykv., þegar hann hefir aftur hrist úr klaufunum.