31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 172 í B-deild Alþingistíðinda. (236)

1. mál, fjárlög 1934

Halldór Stefánsson:

Hv. frsm. fjvn. beindi þeirri ósk sinni til allra þeirra þdm., sem flytja brtt. við fjárlfrv. um aukin fjárframlög til þjóðvega, að þeir tækju þessar till. sínar aftur nú við þessa umr., til þess að fjvn. gæti tekið þær til nýrrar athugunar á fundi sínum fyrir 3. umr. og ákveðið, hverjar af þessum till. hún vill taka upp eða mæla með. Ég óska þess, að hv. frsm. hlýði á mál mitt. Ég get þá lýst því yfir fyrir mína hönd og einnig fyrir hönd hv. 1. þm. Skagf., þm. N.-Þ., þm. Seyðf. og þm. Rang., að við höfum allir fallizt á að taka þessar brtt. okkar aftur til 3. umr., svo að hv. n. geti tekið þær til nýrrar athugunar. Hv. 1. þm. Eyf. hefir gefið yfirlýsingu um sína brtt. samhlj. þessu, og hv. 1. þm. S.-M. hefir nú kvatt sér hljóðs og mun þá svara fyrir sitt leyti. Að lokum skal ég geta þess, að einungis einn þeirra þm., sem hér eiga hlut að máli, þm. N.-Ísf., er ekki viðstaddur hér í þd. Ég hefi ekki borið mig saman við hann um þetta og get því ekkert sagt um hans brtt.