10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 213 í D-deild Alþingistíðinda. (2366)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Ég ætla mér ekki að skipta mér af deilum milli dómsmrh. og 5. landsk. En það virðist svo, sem það sé aðeins eitt atriði, sem ráðh. gangi upp í, en það er, að það hafi verið full ástæða til allra þessara ráðstafana til að stofna fávitahæli, sem þó er viðurkennt af öllum öðrum, að voru óverjandi og ómögulegar og brot á skipulagsskránni. Það er þess vegna rétt að taka það upp hér, sem flestum mönnum er kunnugt, hvernig gekk með þetta fávitahælismál í fyrra. Þáltill. er á þskj. 29 í A-deild þingtíðindanna, og heitir till. til þál. um stofnun fávitahælis. Tillögugr. hljóðar svo: „Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að koma upp hæli handa fávitum svo fljótt sem auðið er“. Flm. var 6. landsk.

Í framsöguræðunni getur frúin þess, að málið þurfi mikinn undirbúning. Og sá undirbúningur, sem fyrst og fremst kæmi til greina, virðist aðallega í þessu fólginn, sem frsm. telur upp í ræðu sinni:

„1. Að fá fulla vitneskju um tölu, aldur og ásigkomulag allra fávita í landinu.

2. Að fela hæfum manni að kynna sér fyrirkomulag, rekstur og allan útbúnað á þeim hælum erlendis, sem reynslan sýnir, að borið hafi góðan árangur.

Og þessum undirbúningi tel ég, að mætti ljúka fyrir næsta reglulegt Alþingi, og væri þá málinu haldið lengra, eftir því sem efni og ástæður leyfa.

Eitthvert fé mundi þurfa til að undirbúa málið á þann hátt, sem hér er að vikið. Hve mikið, fer sjálfsagt mjög mikið eftir því, hvernig maður væri valinn til að kynna sér erlend hæli og fyrirkomulag þeirra“.

Frá n. kemur till. um að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, sem er á þessa leið :

„Í því trausti, að ríkisstj. láti fara fram þann undirbúning málsins, sem hún telur nauðsynlegan, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Þá kemur fram brtt. frá hv. 6. landsk., á þessa leið:

„Í trausti þess, að ríkisstj. láti fram fara nauðsynlegan undirbúning málsins fyrir næsta reglulegt Alþingi, tekur deildin fyrir næsta mál á dagskrá“.

Þetta var fellt, en till. n., sem talar aðeins um nauðsynlegan undirbúning, en nefnir ekkert næsta þing, er samþ. Frsm. er Jón Jónsson, og ræða hans hnígur í þá átt, að ekki sé hægt að ákveða með þáltill. að stofna slíkt hæli, án þess að undirbúa málið rækilega, enda væri ekkert vitað enn um kostnaðarhliðina. Bjarni Snæbjörnsson talaði í sömu átt, að ekki væri tilætlunin, jafnvel þótt brtt. 6. landsk. kæmi til atkv., að ráðast í kostnaðarsöm stórvirki án undirbúnings. Ennfremur telur læknirinn, að við höfum nógu margar byggingar, sem nota mætti fyrir fávitahæli, og talaði um skólabyggingar í því sambandi.

Það er því engin ástæða út frá samþykktum frá í fyrra eða umr. um málið að fara að ráðast í stórkostleg jarðakaup, sem hefðu í för með sér stórkostleg útgjöld fyrir ríkissjóð árlega. Ráðh. vissi vel, að þótt tiltekið væri, að samþykki fjvn. væri skilyrði fyrir samningnum, þá mundi þingið a. m. k. aldrei samþ., að það heyrði undir fjvn. Dómsmrh., Vigfús Einarsson og blöð þeirra héldu því fram, að þetta væri ekki samningur, heldur tilboð. Að vísu var í fyrstu gr. dómsmrh. talað um samning, en eftir það alltaf um tilboð. Nú vildi ég alvarlega skora á ráðh: að birta þennan samning í heyranda hljóði. Ég fór fram á það skriflega að fá samninginn í hendur. En í stað þess að fá aðgang að honum, sem ég álít, að ég eigi tilkall til, af því að hann er opinbert skjal, þó að hann sé ekki í gildi, þá hefi ég fengið bréf frá Vigfúsi, þar sem hann segir, að fjvn. hafi leyst sig undan skuldbindingu um að standa við samninginn, og segir síðar:

„Ráðherrann samþykkti þetta vitanlega tafarlaust, eins og ég átti kröfu á, þar sem hér var um tilboð að ræða frá minni hendi, sem ekki var samþykkt.

Þar sem samningur þessi er mín eign og eignir mínar hafa enn ekki verið þjóðnýttar, ræð ég vitanlega, hvað ég geri við hann“.

Nú brýtur þetta í bága við það, sem dómsmrh. sagði við 5. landsk., að hann gæti gengið í stjórnarráðið og séð frumritið af samningnum, hvenær sem væri, af því að það lægi þar. Ég get ekki séð, hvernig það getur verið, að Vigfús fengi samninginn til eignar og umráða, og hann mundi samt liggja í stjórnarráðinu. Ég held það væri bezt fyrir dómsmrh. að lesa upp samninginn, til þess að engin deila yrði lengur um, hvað í honum standi, þar sem viðurkennt er af honum, að það sé bindandi samningur.

Ég hygg ég hafi þá gengið allrækilega frá þessu atriði. Þá er annað atriði viðkomandi söluverði jarðarinnar. Ég skal ekki segja neitt um mat jarðræktarsjóðs, en mér finnst einkennilegt, hvers vegna verið er að tala um slíkt mat, þar sem þó ekki hefir verið beðið um neitt lán úr jarðræktarsjóði. Hvers vegna er þetta „mat“ þá látið fram fara? En til marks um, að það hafi ekki haldið mjög vel, er fyrst og fremst það, sem dómsmrh. sagði, að jörðin var seld, ekki fyrir 105 þús kr., eins og matið hljóðaði upp á, heldur 90 þús. kr. Þar næst er það, að jörðin er látin í makaskiptum fyrir bifreiðarskúra, sem hafa gefið undir 4 þús. kr. brúttótekjur árlega, sem er rúm 4% af þessum 90 þús. — en nettótekjur af skúrunum hafa sjálfsagt engar verið. Mér þætti a. m. k. gaman að sjá framan í þann húseiganda hér, sem segir sig ánægðan með 4% leigu af húsum sínum. En af byggingu eins og þessari væri heimtuð 15%, svo að verð á þessum bílskúrum ætti því í raun og veru að vera langt fyrir neðan fasteignamatið síðasta.

Út af þessari afgreiðslutilhögun málsins virðist það hafa komið í ljós hjá hv. 1. þm. S.-M., að hann og þeir, sem standa á bak við till., vilji á engan hátt sýna dómsmrh. traust. Og í öðru lagi, að hv. 2. þm. Rang. og þeir, sem væntanlega greiða hans till. atkv., álíta þessa stjórnarráðstöfun dómsmrh. það ámælisverða, að slíkt megi ekki framar eiga sér stað. Mér er ekki ljóst, í hverra trausti dómsmrh. situr hér í stjórnarsæti. Ég álít, að ef svo er komið, að meiri hl. þings greiðir þessum till. atkv., sem hér eru fram komnar, þá ætti hann tafarlaust að segja af sér, jafnvel þótt till. okkar jafnaðarmanna verði ekki samþ., sem ég tel víst, að verði borin fram fyrst, samkv. venjulegum fundarsköpum, — sú till., sem fyrst er fram komin og lengst gengur. Ég hygg, að hvernig sem þetta mál færi, verði dómsmrh. að segja af sér. En ef hann vill fullvissa sig um traust, ætti hann að leita trausts.