10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 216 í D-deild Alþingistíðinda. (2367)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Sveinbjörn Högnason:

Það er stutt aths. vegna ummæla hæstv. dómsmrh. um breyt., sem ég bar fram. Hann virtist vera hissa á því, að þingið vildi bera það traust til ráðh., að slíkt mál sem þetta kæmi ekki fyrir framvegis, af því að hann hefði ekki gert neitt annað en það, sem fyrirmæli þingsins hefðu legið fyrir um.

Ég verð að segja, að ég varð dálítið hissa á því, að maður, sem situr í svo virðulegu sæti og ábyrgðarmiklu sem hæstv. dómsmrh., skuli leyfa sér að koma með þessa blekkingu hér í áheyrn Alþingis. Ég vil þá spyrja, hvort þingið hafi mælt svo fyrir, í fyrsta lagi, að gerð yrði tilraun til að eyðileggja eða skemma sjóð Jóhanns heit. Jóhannessonar.

Í öðru lagi vil ég spyrja, hvort Alþingi hafi mælt svo fyrir, að fjvn., sem nú yrðu kosnar, skyldu ráða því einar, hvort fjárveiting yrði til fávitahælis.

Í þriðja lagi vil ég spyrja hæstv. ráðh., hvort Alþingi hafi mælt svo fyrir í fyrra, að tekin yrði fyrir fávitahæli jörð sú, sem ekkert lægi fyrir um, að væri til þess hæf.

Þetta er það, sem allir vita, að liggur fyrir í þessu máli, ráðstöfun af hendi stj. til að framkvæma þetta, og ekkert annað. Ég verð að segja, að eftir því, sem ég skil dagskrána frá í fyrra, sem hv. 2 þm. Reykv. hefir þegar lesið upp, þá sé ég ekki, að fyrirmæli séu frá þinginu um annað en það, að það skuli fara fram rannsókn og undirbúningur að þessu máli lútandi. Nú vil ég beina þeirri spurningu til hæstv. ráðh., hvaða undirbúningur hafi farið fram um þetta mál. Er það ekkert annað en það, að hægt væri að kaupa þessa jörð fyrir 90 þús. króna, ef fjvn. vildi þóknast að reka þar fávitahæli? Slíkan undirbúning gat flm. þessa máls í fyrra gert þá þegar. Það hefði strax verið hægt að fá tilboð um álíka jörð fyrir 90 þús. Það liggur því alveg ljóst fyrir, að ekkert hefir verið gert af því, sem dagskráin frá þinginu í fyrra fór fram á, að ráðh. rannsakaði, eins og berlega kom í ljós af orðum í ræðu flm. þessa máls. Það er því svo í þessu máli, og því verður ekki mótmælt, að hæstv. ráðh. hefir ekkert gert af því, sem Alþingi lagði fyrir hann, en hefir á eigin spýtur fitjað upp á máli, sem Alþingi myndi ætið víta hann fyrir, hvernig sem það væri skipað.

Mér virðist mjög einkennilegt, að það er eins og hæstv. dómsmrh. firrtist við, þó að ég beri það traust til hans, að ég voni, að hann með samstarfi við góða menn geti sett þann hemil á þessa einkennilegu tilhneigingu sína, að slíkt vandræðamál sem þetta komi ekki fyrir aftur, en einungis í því trausti til hans er brtt. fram borin.