10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 217 í D-deild Alþingistíðinda. (2368)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Hv. 2. þm. Reykv. staðfesti það, sem ég sagði, að á þinginu í fyrra hefði verið samþ. rökst. dagskrá, þar sem stj. var falið að láta fram fara þann undirbúning undir stofnun fávitahælis, sem hún teldi nauðsynlegan (HV: Það var skýrt í umr.). Já, m. a. það, að fá þyrfti upplýsingar um, hversu margir fávitar væru á landinu. En það var gert 1930. Það eina, sem hv. þm. þótti áfátt, var það, að ekki hafði verið sendur út maður til rannsóknar á málinu, og get ég vel skilið, að hv. þm. hefði langað til þess að fara. Það var rétt, sem ég sagði um samninginn; uppkastið að honum liggur uppi í stjórnarráði, og það var það, sem ég bauð hv. 5. landsk. að sjá. (HV: Áðan var það frumritið). Það er það frumrit, sem samningurinn var skrifaður eftir. Eftirrit það, sem ég er með nú, sýndi ég hv . 2. þm. Reykv. í gær, og las hann það allt. (HV: Með hvaða skilmálum?) Með því skilyrði, að þm. segði ekki frá því, Hann er búinn að sjá samninginn og þarf því ekki að sjá hann aftur. Ég fer alls ekki að sýna þetta óstaðfesta eftirrit, sem ég er með hér. Það er hægt að segja, að það sé falsað, eins og hv. 5. landsk. gaf í skyn áðan.

Þá sagði hv. þm., að það væri of hátt fasteignamat á eign þeirri, sem tekin var upp í Reykjahlíð. Sé svo, þá mun það einsdæmi hér í Reykjavík. Hitt mun venjulegra, að fasteignamatið sé of lágt. Hv. þm. mun því ganga illa að fá nokkurn til þess að trúa þessari staðhæfingu.

Það sem þessi hv. þm. vildi leggja upp úr orðum hv. 1. þm. S.-M., er bezt að bíða átekta með. Vita fyrst hvort hann hefir talað fyrir hönd flokks síns, eða aðeins fyrir sjálfan sig. (HV: Sitja á nú meðan sætt er). Já, ég býst við, að ég sitji lengur en hv. 2. þm. Reykv. vill. Hann, sem vildi að ég færi um leið og ég tók við þessu embætti í vor. Annars get ég sagt hv. þm. það, að ég ætlast ekki til að hafa traust hans. Vil það hreint og beint ekki.

Þá vil ég víkja örfáum orðum að hv. 2. þm. Rang. Hann sneri alveg við því, sem ég sagði og verð ég því að segja við hann það sama og hann sagði við mig, að ég átti ekki von á, að maður í hans stöðu færi að rangfæra eins og hann gerði. Ég átti hreint ekki von á, að blessaður presturinn gæti ekki farið rétt með jafneinfalt mál og það, sem ég sagði. (SvbH: Hvað sagði hæstv. ráðh.?). Ég sagði, að það, sem um væri að vera, væri það, að láta mig fá vantraust fyrir það eitt að framkvæma það, sem þingið hefði falið mér að gera.

Þá sagði hv. þm., að þingið hefði ekki átt að fá kost á að samþ. þessa óttalegu meðferð á sjóði Jóhanns Jóhannessonar. Út af þessum ummælum verð ég að endurtaka það, sem ég sagði áðan og staðfest hefir verið af skrifstofustjóranum, að það var alltaf meiningin, að ekkert yrði úr þessum kaupum, nema því aðeins, að fjvn. Alþingis vildu leigja af sjóðnum þessa eign fyrir fulla vexti af því fé, sem í hana var lagt. Hlýtur hv. þm. því að sjá, að með þessu var sjóðnum ekkert gert til tjóns. Því hefir nú verið haldið fram, að það væri ekki sama, sem fjvn. þingsins gerðu, og þingið sjálft. Það má vera, að hægt sé að halda þessu fram til þess að segja eitthvað. En fá munu dæmi þess að þau mál, sem landsstj. og fjvn. Alþingis eru sammála um, séu vond mál og nái ekki fram að ganga. Viti hann dæmi þess, skora ég á hann að nefna þau. En ég hygg, að honum muni veitast það erfitt að finna slík dæmi, því að þau eru engin til.

Þá vildi hv. þm. halda því fram, að staður þessi væri ekki góður eða hentugur fyrir slíkt hæli sem þetta. Ég verð nú að segja eins og kerlingin: „Ja, öðruvísi mér áður brá“. Ég hélt ekki, að þessi postuli og lærlingur hv. 5. landsk. teldi vottorð hans einskis virði. (JónÞ: Hann afneitar bara meistaranum). Já, hann gerir það með þessu, þó ég hinsvegar búist ekki við, að hv. 2. þm. Rang., þó mikill guðsmaður sé, fari í föt hins mikla postula, þó að honum yrði það á að afneita meistara sínum. Skal ég svo ekki lengja umr. þessar meira að sinni.