10.03.1933
Sameinað þing: 4. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 225 í D-deild Alþingistíðinda. (2370)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Guðrún Lárusdóttir:

Ég skal ekki bæta við þær deilur, sem hér hafa farið fram. Ég skil ekki í öðru en hv. þingheimi sé farið að leiðast þófið, og verð ég að láta í ljós það álit mitt, að tíma þingsins og fé þjóðarinnar sé illa varið, þegar hv. þm. rífast hér klukkutímum saman um þau efni, sem hægt væri að útkljá annarsstaðar í fullum friði.

En af því dregnar hafa verið inn í umr. till. um fávitahæli, sem ég hefi áður borið fram hér á þingi, langar mig til að nota tækifærið til að rifja það mál upp og brýna hv. þm. á nauðsyn þess. Ég vil bera það undir samvizku þjóðarfulltrúanna, hvort sem þeir kalla sig sjálfstæðis-, jafnaðar- eða framsóknarmenn, þetta mikla mannúðarmál. Það er hart fyrir íslenzku þjóðina að sitja einlægt hjá og horfa á aðgerðir annara þjóða á þessu sviði. Hver einasta menningarþjóð í Evrópu mun nú eiga hæli fyrir fávita, nema vér Íslendingar. Frændþjóðir vorar á Norðurlöndum byrjuðu þegar 1840 að vinna að þessum málum. Þetta vita Íslendingar vel, en hafa samt ekkert aðhafzt enn.

Tildrög þeirrar þáltill., sem hér var nefnd hálffallna till. áðan, voru þau, að upp kom hér í bænum leiðinlegt mál, sem ég ætla ekki að fara að rifja upp. Það mál varð til þess, að kosin var n. til að athuga ástand og aðbúð barna og unglinga hér á landi yfirleitt. Á meðal þeirra upplýsinga, sem sú n. leitaði, var það, hvað mörg börn á landinu væru fávitar. Svörin, sem n. bárust víðsvegar að, báru það með sér, að allmörg fávitabörn eru til, og að frá mörgum heimilum mundi verða flúið á náðir fávitahælis, ef því yrði komið á fót.

Ég bar till. um fávitahæli fyrst fram á þinginu 1931. Vakti þá fyrir mér, að holdsveikraspítalinn væri tekinn fyrir fávitahæli, en byggt yfir holdsveika sjúklinga annarsstaðar. Sú uppástunga byggðist á því, að holdsveikraspítalinn var orðinn óþarflega stór, þar sem ekki eru nú orðnir nema 19-20 menn, sem þjást af holdsveiki. Þessari till. var vísað til n. og kom hún þaðan aldrei aftur.

Næsta skrefið í þessu máli var þáltill. sú, sem ég bar fram á síðasta þingi. Fól hún í sér aðeins það, að stj. væri falið að koma upp fávitahæli svo fljótt, sem auðið væri. Það vita allir, hvað ógurleg byrði fávitar eru sínum heimilum. Þeir, sem séð hafa mæður með smábörn, sem eru að vaxa upp til þess að verða fávitar, e. t. v. lítt viðráðanlegir vandræðamenn, hljóta að komast við og viðurkenna þörf á hæli fyrir slíka aumingja. Eitt neyðarópið barst Alþingi í fyrra frá stað, þar sem þannig var ástatt, frá aðþrengdum foreldrum 16 ára fávita unglings, sem var að verða heimilinu ofviða. Var farið fram á styrk til þess að senda hann á hæli í Danmörku, þar sem ekkert hæli er til fyrir slíka menn hér.

Það er búið að lýsa því hér, hvað gerðist í Ed. í fyrra í þessu máli. Ég hefði nú raunar getað skýrt frá því sjálf, án þess að fá hv. 2. þm. Reykv. til þess að lesa upp mín eigin orð, sem ég þá lét falla, en ég ætti nú samt e. t. v. að þakka honum fyrir ómakið. D. fór þá leið við afgreiðslu till., að samþ. rökst. dagskrá, þar sem stj. var falið að sjá um undirbúning málsins. Ég vildi bæta inn í dagskrána, að stj. skyldi leggja fyrir næsta þing árangur þess, er hún léti gera í málinu, en það var fellt. Í umr. benti ég á, hvað fyrir mér vakti að gert yrði til undirbúnings því, að hælið kæmist á fót, og það hefir hv. 2. þm. Reykv. lesið hér upp. En í því fólst vitanlega ekkert lögmál, sem hæstv. ríkisstj. væri skyldug að fara eftir. Hún hafði alveg óbundnar hendur um það, hvort hún byrjaði á því að kaupa jörð fyrir væntanlegt hæli, senda mann til útlanda til að kynna sér rekstur slíkra hæla, eða safna skýrslum um, hvað margir fávitar væru í landinu. Allt þetta var henni heimilt að gera í málinu, og margt fleira. E. t. v. hefir ekki verið mest þörfin á að safna skýrslunum, þar sem nokkur vitneskja lá þegar fyrir um þetta efni. Einnig vil ég nú upplýsa það, að síðan í fyrra hefi ég komizt að því, að við höfum þegar mann hér heima, sem starfað hefir 10 ár á fávitahælum erlendis, svo ekki hefði þurft að hlaupa langt né kosta miklum peningum til þess að fá mann með sérþekkingu á þessum málum, þegar staðurinn fyrir hælið var fenginn. Einnig get ég upplýst, að það er kona hér á landi, sem verið hefir á fávitahælum í Þýzkalandi og kynnt sér meðferð aumingjanna þar. Það hefir oft viljað brenna við hér hjá oss, að allt hefir þurft að verða svo dýrt. Stundum hefir þurft að láta einhverja hafa bitlinga, og þá hafa menn verið sendir út úr landinu til þess að kynna sér hitt og annað, og hafa þær sendiferðir stundum orðið alldýrar þjóðinni.

Þegar hér er komið sögu, komst málið í einskonar kyrrstöðu. Það er ekki hægt að segja, að mikið hafi verið fyrir það gert síðan fyrrnefnd dagskrártill. var samþ. Þó vil ég ekki fylla þann flokk, sem býr sér til barefli á hæstv. dómsmrh. út af ráðstöfunum hans, þegar hann er að hugsa um, hvort ekki sé hægt að greiða eitthvað fyrir þessu máli. Það má alltaf deila um það, hvort þessi staður eða hinn sé heppilegur fyrir slíkar stofnanir, sem hér er um að ræða. Yfirleitt virðist mega deila um flest, sem til tals kemur hér á þessum virðulega stað. Hitt dylst mér ekki, að hæstv. stj. hefir séð, að eitthvað þurfti að gera, og um það er ég henni alveg sammála.

Í fyrra var þáltill. minni vísað til hv. allshn., og leitaði hún umsagnar landlæknis um málið. Ritaði hann þá bréf, sem prentað var sem fskj. með nál. Bréf þetta sýnir, að landlæknir álítur þetta aðkallandi nauðsynjamál. Og þegar stj. er falið að vinna að jafnmikilsverðu máli, kemur mér ekkert undarlega fyrir sjónir, þó hún vilja nota sér tilboð, sem getur orðið til að hrinda málinu í framkvæmd. Slíkt getur með engu móti talizt refsivert.

Ég óska þess og treysti því, að hæstv. stj. sýni það framvegis, að hún beri mikla , umhyggju fyrir þessu máli, þó enn hafi það ekki komið berlega fram nema í þessu eina atriði. Og þó brtt. mín um að stj. skyldi leggja árangurinn af undirbúningnum fyrir þetta þing væri felld, þá vona ég, að hún komi málinu í það horf, að maður fái að sjá eitthvað frá henni um það efni fyrir þinglok. Ég segi ekki, að það sé skylda hæstv. stj. samkv. ákvörðun þingsins. En ég vona, að þeir, sem stj. skipa, séu þannig innrættir menn, að þeir sjái, hvað hér er um aðkallandi þörf að ræða, og að þeir vilji gera það, sem í þeirra valdi stendur, til þess að létta undir með þeim, sem þyngstar og sárastar bera byrðarnar vegna þessara aumingja fávita.

Ég lofaði í upphafi að þreyta ekki með langri ræðu. Og að lokum vil ég aðeins óska þess, að bæði þetta mál og önnur, sem þingið þarf að leysa, takist að leiða til lykta með friði og réttsýni. Ég óska, að allir hv. þm. megi vera sér þess meðvitandi, að þeir eru fyrst og fremst fulltrúar þjóðar sinnar, og að það er ekki ábyrgðarlaust starf.