13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 231 í D-deild Alþingistíðinda. (2377)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Flm. (Héðinn Valdimarsson):

Mér þykir einkennilegt, hve mikið far hæstv. forseti gerir sér um að tefja afgreiðslu þessa máls. Ég get ekki séð, að til þess geti verið nein ástæða, nema sú, að ósamkomulag sé um það meðal stjórnarflokkanna, og þá einkum innan Framsfl., hvernig eiga að bregðast við till.

Dómsmrh. sagði, að hann hefði sýnt mér þennan margumtalaða samning. Ég get hinsvegar lýst yfir því, að ég hefi alls ekki fengið að sjá samninginn sjálfan, heldur óstaðfest eftirrit af honum, og eftir öðrum heimildum dómsmrh. í þessu máli þykist ég alls ekki skyldugur til að leggja trúnað á gildi þess eftirrits. En þó að eftirritið væri rétt, stendur það óhaggað, að fjárveitinganefndir voru á einu máli um það, að samningurinn væri svo fjarstæður, að ekki kæmi til mála að samþ. hann, enda kæmi þeim málið ekkert við.

Ég vil þá víkja hér að öðru atriði, sem ég hefi áður gert fyrirspurn um, og það er, hvernig sjóðurinn átti að fara að borga V. E. jörðina. Eftir skýrslu hans sjálfs eru engir peningar í sjóðnum, því að þeim hefir hann varið til lána sjálfum sér, Stefáni Þorlákssyni, núverandi kaupanda Hlaðgerðarkots, og öðrum vildarvinum sínum. Fyrst átti sjóðurinn þá að taka við 30 þús. kr. láni frá sjálfum sér, er hvíldi á jörðinni, og 5 þús. kr. úr jarðræktarsjóði. 30 þús. áttu að greiðast strax út í hönd. En hvar átti að taka þá peninga? Ráðh. segir, að greiða hafi átt á 4. þús. kr. í bankavaxtabréfum og hitt í „öðrum verðbréfum“. Ef þetta er rétt, er næsta undarlegt, að þetta skuli ekki vera tiltekið í samningnum. Þá eru eftir 25 þús. kr., sem V. E. átti að lána sjóðnum með 6% ársvöxtum. Hinsvegar skuldar hann sjóðnum 20 þús. kr. í húsi sínu, sem hann greiðir 51/2% í vexti af. Þessar ráðstafanir eru í raun og veru alveg nægar til að lýsa þeim mönnum báðum, sem hér hafa verið að verki. Sjóðurinn lánar Vigfúsi fé á 51/2%, sem hann lánar síðan sjóðnum á 6%.

6. landsk. talaði hér um nauðsyn á fávitahæli. Ég get tekið undir það, að þörf sé á slíku hæli, en það réttlætir auðvitað á engan hátt þessar fáránlegu aðgerðir ráðh. 6. landsk. hélt því fram, að allur undirbúningur í þessum efnum væri óþarfur, þar sem við ættum mann, er væri sérfræðingur á þessu sviði. Eftir því, sem ég veit bezt, er sérfræði þessa manns fólgin í því, að hann hefir verið vökumaður á hælum erlendis, og munu varla aðrir telja slíkt sérfræðistarf en þm. þessi. 1. þm. S.-M. sagði, að tillaga sín fæli ekki einu sinni óbeint traust, en bætti því við, sem allir vita, að er rangt, að hún væri frá sér einum runnin. Það er því ljóst, að þeir, sem greiða þeirri tillögu atkv., vilja ekki einu sinni lýsa óbeinu trausti á hæstv. ráðh.

Tillaga 2. þm. Rang. felur hinsvegar í sér ávítur í garð ráðh., sem hann getur ekki látið sér lynda, nema hann sé í meira lagi lítilþægur. Báðar till. virðast því vera komnar fram í því skyni að komast hjá því að votta ráðh. beint eða óbeint traust, og afleiðingum þessa raunverulega vantrausts á ráðh. að taka, ef önnurhvor þessi till. er samþ.