13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 233 í D-deild Alþingistíðinda. (2379)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Tryggvi Þórhallsson:

Till., sem fyrst var borin fram í þessu máli, getur ekki komið til atkv. af ástæðum, sem þingheimi eru kunnar. Flm. till. hafa því borið fram vantraust á hæstv. dómsmrh. í staðinn, og vil ég í sambandi við það bera fram nokkrar aths., og þá fyrst um formshlið málsins.

Mín skoðun er sú, að vantraust á stjórn ætti jafnan að vera borið fram sérstaklega, en ekki vera hnýtt aftan í einstakar þáltill. Vantraust á stjórn er jafnan svo merkilegt mál, að ég tel sjálfsagt, að það sé borið fram sérstaklega.

1923 var borin fram vantraustsyfirlýsing í sambandi við annað mál í Sþ., og vísaði forseti henni frá. Hinsvegar hefir forseti Nd. tekið vantraustsyfirlýsingu, er borin var fram á sama hátt, til greina. Mér er og kunnugt um, að í öðrum löndum er vantraustið stundum tengt við önnur mál. Ég treystist því ekki til að vísa þessu máli frá, en tel hinsvegar rétt að taka upp þá reglu framvegis, að vantraust sé borið fram sérstaklega.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um efnishlið málsins. Á þessum erfiðu tímum hefir verið stofnað til samstarfs í stjórninni af hálfu tveggja aðalflokkanna. Ég álít, að afstaðan gagnvart stj. eigi að miðast við hin stóru: vandasömu mál, er síðar verða tekin fyrir hér á þinginu. Þess vegna mun ég greiða atkv. með brtt. hv. 1. þm. S.-M., sem gengur út á að vísa þessu máli frá. Ég vil afgr. málið án þess að þeirri afgreiðslu fylgi nokkrir títuprjónar, eins og óneitanlega felst í brtt. hv. 2. þm. Rang. Ég er þess fullviss, að kjósendur ætlast til, að afstaðan til stóru málanna ráði því, hverjir fara með völd.

Ég vil geta þess, að þessi dagskrá er óvenjuleg að því leyti, að hún felur í sér ásakanir í garð embættismanns, sem ekki á sæti á þingi og getur því ekki borið hönd fyrir höfuð sér. Ég álít slíkt mjög óviðeigandi. Ég tel mér skylt að taka það fram, í tilefni af þessu, að ég hefi starfað með þessum manni í 5 ár og reynzt hann í alla staði framúrskarandi vandaður og góður embættismaður.