13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 234 í D-deild Alþingistíðinda. (2380)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Jón Baldvinsson:

Mikils þykir nú við þurfa, þegar forseti Sþ. og einn merkasti flokksforingi Framsóknar stendur upp úr forsetastólnum til að reyna að slétta yfir misfellurnar hjá dómsmrh. Sjálfstæðisflokksins.

Ég verð að telja það fullkomlega rangt og óeðlilegt að bera fram brtt. við hreina vantraustsyfirlýsingu. En tilgangurinn með þessu er auðsær, og hann er sá, að hindra hv. þm. í að láta það í ljós, hvort þeir beri traust eða vantraust til dómsmrh.

Hæstv. forseti fór að lýsa afstöðu sinni. Hann hélt því fram — og óska ég eftir, að hv. 1. landsk. láti álit sitt á þeim ummælum í ljós — , að samsteypustj. hefði verið mynduð til að leysa úr ýmsum vandamálum, og þá víst helzt kreppumálum. Nú hefir hv. 1. landsk. og blöð hans haldið því fram, að samsteypustj. hafi verið mynduð til þess eins, að leysa stjskrármálið. Ummæli hæstv. forseta eru alveg í mótsögn við þetta.

Hæstv. forseti sagði, að ekki kæmi til mála að fara að stofna til stjórnarskipta út af þessu smámáli. Ég veit nú ekki, hvað hann kallar smámál, en víst er, að Framsókn hefir skipt um ráðh. fyrir minni sakir en þessar. Ég á við það, er Magnús Jónsson var flæmdur úr stjórninni hérna um árið. Virðist samvizka og sómatilfinning Framsóknar hafa verið næmari þá en nú.

Ég hefi engan heyrt mæla þessum kaupum bót, ekki einu sinni flokksmenn ráðh. Þeir hafa ávítað hann fyrir athæfið og kvartað sérlega undan því, hve seinheppinn hann hafi verið bæði í þessu og öðrum tilfellum. Þótt hæstv. dómsmrh. kæmi ekki þessum verknaði fram, af því að tekið var fram fyrir hendurnar á honum af almenningsálitinu, þá er hans sök í rauninni söm og á skilið þær ávítur, sem felast í till. okkar jafnaðarmanna, og einnig þær ávítur, sem felast í dagskrá hv. 1. þm. S.-M. Til þess eins, að hæstv. dómsmrh. geti áfram setið við stj. hafa nú 5 framsóknarmenn staðið hér upp og gert grein fyrir atkv. sínu. Hv. 1. þm. S.-M. talaði fyrst, og fyrstu ræðu sína flutti hann, að því er virtist, í umboði flokksins, og var hann ekki fáanlegur til þess að vita gerðir ráðh. minnsta snefil, en sagðist koma með dagskrá sína til þess eins að þurfa ekki að láta neyða sig til að votta dóms.mrh. traust. hvorki beint né óbeint. Seinna hefir sami þm. sagt, að þessi orð hafi verið töluð fyrir eigin reikning. En það hafa fleiri framsóknarmenn komið hér fram. Hv. 2. þm. Rang. flutti hér ávítunartill. sem brtt. við vantraust okkar jafnaðarmanna. Þessi till. gengur styttra og er mildari. Hv. 5. landsk. hefir talað hér fyrir fullu vantrausti á hæstv. dómsmrh. Svo kemur forsrh. og er að reyna að bræða þetta allt saman; en hans orð virtust ekki nægileg, því að hv. þm. Str. gekk úr forsetastóli til þess að hlynna að sambræðslunni. Við jafnaðarmenn mótmælum því, að forseti hagi atkvgr. þannig, eins og hann hefir skýrt frá, að hann muni gera, bera brtt. við dagskrána upp fyrst. Við krefjumst þess, að vantraustið verði borið upp óskert út af fyrir sig, og verða menn þá að greiða atkv. með eða móti, eftir því sem þeim sýnist. En verði atkvgr. hagað eins og hæstv. forseti lýsti, og brtt. hv. 2. þm. Rang. komi fyrst til atkv., þá munum við Alþflm. greiða henni atkv., því að hún felur í sér vantraust á ráðh. og vítir verknaðinn, og ráðh. gæti ekki setið, ef dagskráin yrði samþ. þannig breytt. Að lokum vil ég segja það við hæstv. forseta, að ég álít vantraust geta komið fram á hvaða stigi máls sem er. Álít ég eins forsvaranlegt hér og annarsstaðar, að vantraust sé borið fram fyrirvaralaust og ekki þurfi langan tíma til að afgr. slíkt; í mesta lagi þurfa flokkarnir að fá dálítið fundarhlé til þess að athuga, hvernig snúast skuli við málinu. Vantraust á að geta komið fram í sambandi við hvaða mál sem er, og það er ekki til annars en tafar að útbýta því hátíðlega og láta liggja vikum saman þangað til forseta þóknast loksins að láta ræða það. Það er fullkomlega þingleg aðferð að bera slíkar till. fram á hvaða tíma sem er, og ég áleit það rangt þegar vantrausti var vísað frá fyrir nokkrum árum af forseta Sþ., vegna þess að það var fram komið í sambandi við annað mál.