13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 243 í D-deild Alþingistíðinda. (2385)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Guðrún Lárusdóttir:

Út af ummælum, sem féllu í ræðu hv. 2. þm. Reykv., vildi ég aðeins segja nokkur orð. Hann þóttist hafa eitthvað eftir mér um það, að hér í Reykjavík væri sérfræðingur, sem gæti gefið leiðbeiningar um meðferð á fávitum. Ég held, að ég hafi ekki nefnt sérfræðing. En hitt get ég staðið við, að hér í bænum er nú staddur útlendur maður, sem hefir mikla þekkingu og æfingu í því að meðhöndla fávita. Hann er ekki lærður læknir, en hefir margt til brunns að bera, sem gerir það að verkum, að hann er vel fær um þetta starf. Hann hefir kynnt sér meðferð þessa fólks á fávitahæli erlendis og allan undirbúning og rekstur slíkra stofnana. Hann hefir starfað að hjúkrun sem diakon; sú list er einskonar þjálfun, sem er lítið þekkt hér á landi, en táknar sérstaklegan góðan undirbúning og leikni í meðferð sjúkra manna og fávita. Þessi maður hefir hlotið mikla menntun og æfingu í þeim efnum í mörg ár. Og þó að hann sé ekki formlega sérfræðingur, þá mun það ekki ofmælt, að hann hefir nægilega þekkingu til þess að annast um sjúkt og vangæft fólk.

Það mátti skilja hv. 2. þm. Reykv. á þá leið, að hann bæri ekki mikla virðingu fyrir starfi þessa manns. Að vísu sagði hann það ekki beint, en mér virtist það auðfundið á orðum hans. Eins og ég áður minntist á, þá hefir þessi maður unnið á fávitahæli erlendis sem vökumaður og hjúkrunarnemi, og vildi ég gjarnan fá tækifæri til að sýna hv. 2. þm. Reykv. þau meðmæli, sem hann hefir hlotið, bæði frá erlendum og innlendum læknum. Þessi meðmæli gefa hugmynd um, hversu fær hann er, og ég er viss um, að hann mundi reynast mjög vel einnig hér við samskonar störf.

Viðvíkjandi fyrirspurn hv. 2. þm. Rang. í sambandi við þá þáltill., sem hér liggur fyrir, vil ég taka það fram, að mér hefir aldrei skilizt, að meðmælabréf hv. 5. landsk. um jörðina Reykjahlíð til fyrrverandi eiganda hennar, Vigf. Einarssonar, hafi verið pantað af stjórninni. Sú fyrirspurn snertir því ekkert það mál, sem ég hefi hér rætt um. Og þess vegna er stj. ekkert bundin af mínum orðum um undirbúning þessa nauðsynjamáls, stofnun fávitahælis, sem ég hefi talið og tel enn, að þurfi að komast sem fyrst í framkvæmd.