13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 252 í D-deild Alþingistíðinda. (2389)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Ég vil reyna að vera stuttorður, því að ég sé ekki betur en að kostnaðurinn við þessar umr. fari að slaga hátt upp í andvirði Reykjahlíðar, og þá fer líklega flestum að skiljast, að hv. 2. þm. Reykv. fer ekki betur með opinbert fé en ég.

Hv. 5. landsk. þarf ég litlu að svara. Hann var á svo hröðu undanhaldi í sinni seinni ræðu, að ég sé enga ástæðu til að elta hann á flóttanum langar leiðir. Ég vil bara segja honum það, að ef hann álítur, að ég hafi farið að senda skrifstofustjórann til sín til þess að fá hjá honum þessa yfirlýsingu, sem ég las upp, þá er hann á algerðum villigötum. Ég get að vísu tekið það vel upp hjá hv. 5. landsk., að hann haldi, að ég sé svo slægur, að ég hafi farið svona að, en ég get ekki viðurkennt, að ég eigi slíkt hól skilið. Ég hefi ekkert skipt mér af þessari ferð heim til hv. 5. landsk. og hafði ekki hugmynd um hana fyrr en löngu, löngu seinna, svo að allt, sem hv. 5. landsk. óf og spann út af þessu, er ekkert annað en tómur misskilningur og endileysa, og hans yfirlýsing hefir ekki á nokkurn hátt haft hin minnstu áhrif á þær ákvarðanir, sem ég hefi gert í þessu máli.

Annað var það, sem ég vil líka leiðrétta í ræðu hans, og það voru hin mörgu ummæli hans um það, að Vigfús Einarsson skrifstofustjóri væri svo illa stæður, að það hefði þurft að hjálpa honum. Þetta er hin mesta fjarstæða. Ég veit ekki betur en að þessi maður sé vel stæður efnalega, og ef ég lít í útsvarsniðurjöfnunina, sé ég, að hann hafði talsvert hærra útsvar en hv. 5. landsk. meðan hann var ráðh., og er þó bert, að mikið er lagt á þessi ráðherralaun; það hefi ég reynt.

Auk þess hefir hv. 5. landsk. eins og kunnugt er stórar tekjur af bókasölu. Ég veit ekki til þess, að hægt sé að álíta, að hann sé í neinum sérstökum vandræðum, en eftir útsvarinu er það bert, að hv. 5. landsk. er fátækari en þessi maður, sem hann var að fjargviðrast um, að hafi verið svo illa stæður, en sem ég vil skilyrðislaust halda fram, að sé sæmilega efnaður maður og þurfi ekki að vorkenna honum neitt þess vegna.

Ég sagði það sem einskonar getgátu. af því að ég var óviðbúinn í minni fyrri ræðu, er ég svaraði hv. 5. landsk., að ég héldi, að hann hefði keypt jarðir fyrir hönd þess opinbera fyrir þrefalt fast eignamatsverð. Ég hefi svo aðgætt þetta bæði að því er snertir kaupin á Reykjum í Ölfusi og hin önnur 4 kot, sem þar voru keypt. Ég hefi líka athugað það að því er snertir hálft Laugarvatnið, og ég hefi séð, að þetta er rétt, sem ég sagði, að það hefir verið keypt fyrir meira en þrefalt fasteignamat, og þó er ekki svo um þetta mat, að gerðar hafi verið nokkrar framkvæmdir, sem geri það að verkum, að fasteignamatið hækki. Slíkar framkvæmdir voru þó gerðar í Reykjahlíð. Þriðja eða fjórða dæminu hefði ég getað bætt við, en það voru kaup á hitasvæði norður í Skagafirði.

Þar er jörð, sem er metin á 4200 kr., og hann kaupir úr þessu landi örlitla skák, sem ég skil varla, að sé meira en 5 ha., eða fimmtugasti partur af landinu. Þetta kaupir hv. 5. landsk. fyrir 12 þús. kr. og borgar úr kirkjujarðasjóði algerlega heimildarlaust. Hann var ekki að gera þau kaup að áskildu samþykki fjvn. þingsins eða einhverra annara. Nei!

Það, sem vinnst við þessar umr. allar, er þá sennilega ekki annað en það, að stöðvað verður með þessu nauðsynjamál, sem ég sé ekki, að hægt verði að sinna nú fyrst um sinn. Það er þetta fávitahæli. Ég er sannfærður um, að einasta leiðin til þess að geta sinnt því máli á næstunni var að útvega fasteign, þar sem hægt væri að reka þetta hæli án þess að ríkissjóður þyrfti að leggja fram stórfé. Ég er sannfærður um, að ég gat ekki komizt að betri kjörum en þeim að fá jörð með jarðhita, því að meira þyrfti ríkið ekki að borga eftir til að gera sjóðinn skaðlausan en að fá hitann fyrir ekki neitt. Ef ríkið ræki slíkt hæli, væri óhugsandi, að það þyrfti að borga minna fyrir bara hitann en 5 þús. kr. á ári. Að fá 5 þús. kr. á ári var nóg fyrir sjóðinn til að renta sína peninga, og þá hefði hið opinbera ekki þurft að borga meira en það, sem það hefði þurft að borga á öðrum stað fyrir hitann einan. Svo geta þessir þm. haldið hrókaræður „um þessa vitleysu“!

Ég er viss um, að jarðir kringum Reykjavík lækka ekki í verði. Ég þekki ekki dæmi þess. Hitt hefi ég séð frá landnámstíð og til þessa dags, að þær eru að hækka í verði, og ég þekki engar eignir tryggari, hvorki fyrir einstaklinga eða sjóði, en góðar fasteignir. Ef þær halda ekki sínu verði, heldur ekkert í heiminum sínu verði. Við höfum séð, hvernig farið hefir um okkar krónu, og við fréttum daglega, hvernig fer um gjaldeyri annara þjóða. Og hver getur svo komið og haldið því fram, að bezta og hagkvæmasta ávöxtunin á fé þessara sjóða sé að hafa þá í beinhörðum peningum og innstæðum í bönkum?

Það getur farið svo, að það komi í ljós síðar, hvort það hefði ekki verið eins viturlegt að festa dálítið af fé opinberra sjóða í fasteignum landsins.

Ég ætla, að ég hafi tekið það fram, að það er sú eign, sem hv. 2. landsk. vill láta selja, sem sjóðurinn hefir hagnazt mest á, og hagnast á enn þann dag í dag. Það er hún, sem hefir auðgað sjóðinn svo, að hann getur haldið af stað með hinum mesta myndarskap, þegar hann tekur til starfa.

Hv. 2. þm. Reykv. veit það vel, að ég sýndi honum samning þann, sem hér er um að ræða, skömmu eftir að hann bað um það. (HV: Það er ekki satt). Jú, það er satt, og hv. þm. sá og vissi, hvernig á stóð, og nú stendur hann upp og segir, að þetta hafi verið óstaðfest eftirrit. Nú segi ég honum, að hann geti komið upp í stjórnarráð og séð uppkastið eða frumritið að þessum samningi. Hvað getur hann þá heimtað meira? Það er broslegt í raun og veru að sjá þennan hv. þm. standa hér upp og þykjast hafa þennan mikla áhuga fyrir fávitahæli, en gerir allt til þess að eyðileggja, að málið gangi fram. Hann veit vel, að ríkið hefir ekki peninga til þess að koma því hæli upp.

Viðvíkjandi vöxtunum af lánum V. E. sagði hann, að það væri undarlegt, að hann ætti að borga 51/2% , en fá 6%. Það er ekkert undarlegt við það, þegar bréfin eru gerð með margra ára millibili, en þeir vextir, sem ákveðnir eru í hverju einstöku skuldabréfi, eru með tilliti til vaxta á þeim tíma, þegar bréfið er gefið út.

Hv. 2. þm. Rang. þarf ég litlu að svara. Hann er mér sammála í því, að það sé ósæmilegt að fara með blekkingar, og meira var ekki, sem ég ætlaðist til, að hann viðurkenndi, og vonast ég til, að hann lifi eftir því. Hitt er vitaskuld, að ég er honum algerlega ósamþykkur, þegar hann segir eins og hann orðaði það, að „slíkur verknaður eins og þessi“ megi ekki koma fyrir aftur, en það þýðir, að það eigi ekki að fara eftir því, sem þingið hefir fyrirskipað.

Hv. 2. landsk. þarf ég ekki miklu að svara. Hann sagði það, sem fleiri hafa tekið upp eftir honum, að í mínum flokki myndu allir vera á móti mér í þessu máli. Ætli það sé ekki eins varlegt fyrir hv. þm. að bíða með þessi ummæli þangað til eftir atkvgr., svo að hann verði ekki ber að ósannindum. Ég veit ekki til þess, eins og málið nú er upplýst, þá sé á móti mér einn einasti maður í mínum flokki.

Hv. þm. Seyðf. þarf ég að segja örfá orð. Hann álítur, að þetta hús, sem nú er þarna upp frá, sé ónothæft fyrir fávitahæli. Ég veit ekki, hvort hann hefir komið þangað. (HG: Jú). Finnst þá hv. þm., að þær stofur, sem þar eru, séu svo óvistlegar, að ekki sé hægt að nota þær fyrir slíkt hæli? Það getur vel verið, að hv. þm. Seyðf. ætlist til að hafa þessa menn í einhverjum steinklefum. Ef svo er, þá þykir hv. þm. Seyðf. þessi bygging of góð fyrir þessa fávita.

Það er alveg rétt, að það er langt þangað til sjóðurinn á að fara að taka til starfa, en ef það er tryggt þangað til, að hans fé sé sæmilega ávaxtað, er ekkert á móti því að setja peninga í þá jörð, sem á að reka þetta hæli á. Það munu allir sjá og skilja, og þó að keypt verði jörð seinna, geri ég ráð fyrir, að einhver hús verði á þeirri jörð. Fáar góðar jarðir er hægt að fá svo til kaups, að ekki sé talsvert af húsum þar; en það er eins og þessi hv. þm. álíti, að það sé einhver stórgalli á þessari jörð, að hún er framúrskarandi vel hýst.

Út af orðum hv. þm. Barð. vil ég taka það fram, að ég vil ekki fara að reyna að hafa áhrif á afstöðu hans. Henni ræður hann sjálfur. En ég tek það fram skýrt og greinilega, að ég mun segja af mér, ef innskot hv. 2. þm. Rang. nær samþykki, því að það er ekkert annað en hrein ósanngirni, sem þar kemur fram. Annars vil ég líka taka það skýrt fram, að ég sé ekki ástæðu til að taka Alþingi það illa upp, þó að það samþ. till. hv. 1. þm. S.-M. eftir að hafa heyrt, hvað hæstv. forseti sagði um hana. Hann, formaður stærsta þingflokksins í landinu, segir, að þetta sé smámál, sem ástæðulaust sé að taka ályktun um. Vill hann ekki, að samþykktinni fylgi neinir títuprjónar, eins og hann orðaði það. Ég er vel ánægður með þetta, og mun ég því ekki hreyfa mig úr þessum stól, þó að till. hv. 1. þm. S.-M. verði samþ. Þetta held ég, að sé nógu skýrt og sé ekki ástæða til að fara fleiri orðum um það.