31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 181 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

1. mál, fjárlög 1934

Jónas Þorbergsson:

Ég á eina litla brtt. á þskj. 296, þar sem farið er fram á það, að ekkju Stefáns skálds frá Hvítadal séu í 18. gr. veittar 500 kr. Eru fyrir slík fordæmi um ekkjur skálda- og listamanna. Vænti ég, að hv. dm. fallist á þessa brtt. Er sanngjarnt að láta þessa ekkju njóta sömu hlunninda og þær ekkjur aðrar, sem á þessum lið eru. Fer það ekki milli mála, að Stefán heitinn var góðskáld, að vísu ekki svo ýkja mikilvirkur, en allt, sem hann orti, var vel ort. Um ástæður þessarar ekkju er það að segja, að maður hennar er látinn frá 8 börnum í ómegð, og á hún nú við mikla örbirgð að stríða. Ég þykist ekki geta komið auga á neinar ástæður til þess fyrir hv. dm. að leggjast á móti þessari litlu till., þar sem hún hefir svo ákveðin fordæmi og svo ríkar ástæður, sem fyrir hendi eru. Mun ég því ekki fjölyrða um þetta frekar.

Ég mun ekki við þessa umr. tala langt mál. Ég geri ráð fyrir, að ég neyðist til að bera fram eitthvað af brtt. við 3. umr. Ég vil þó nota tækifærið til þess að segja nokkur orð um afstöðu mína til þeirra brtt., er fyrir liggja frá hv. fjvn., sem ég á að vísu sjálfur sæti í. Má ef til vill þykja kynlega við bregða, er ég, sem hefi ekki, skrifað undir nál. með fyrirvara, fer nú að tala á móti gerðum n. En ég verð þó að lýsa yfir því, að þótt ég væri n. sammála í höfuðdráttunum og samvinnan væri hin ákjósanlegasta, þá var ég allmjög ósammála miklum meiri hl. n. um afgreiðslu á nokkrum liðum. Er þetta að vísu ekki svo að skilja, að ég sjái ekki nauðsyn þá, sem knúð hefir n. og þingið til sparnaðar, og er það ekki þess vegna, að ég er ekki að öllu leyti óánægður með afgreiðsluna í einstökum atriðum. Mér er það mótstæðilegt í viðhorfi þingsins, að mér virðist það horfa um of eftir bjargráðum á þeim vegum, að fella niður sem flestar smáfjárveitingar til manna, sem af eigin rammleik og hvöt eru að halda uppi andlegri viðleitni með þjóðinni. Ég lít svo á, að sá mikli kostnaður, sem þjóðin leggur í það að ala upp æskulýðinn og veita honum þá menntun, sem hægt er, verði að endurgreiðast þjóðinni í þeim andlegu verðmætum og sjálfstæðu verkum, er skáld, listamenn og vísindamenn orka. Ég lít á sjálfstæða viðleitni slíkra manna sem einskonar ávöxt af þeim gróðri, sem vaxinn er upp í menntastofnunum landsins. Þykir mér því undarlega við bregða um starf Alþingis, þegar búið er að veita svo mikið fé, til þess að ala upp æskulýðinn í skólum landsins, að það telur rétt að bregða fæti fyrir þessa sjálfstæðu andlegu viðleitni. Virðist mér slíkt vera svipuð búhyggindi eins og það, að stýfa blómið af nytjaplöntunni áður en hún nái að bera ávöxt. Ég hefi enga trú á því sem bjargráði til þess að losa þjóðina úr klóm kreppunnar, þótt sparaðar væru 25—30 þús. kr. með því að kæfa niður andlega viðleitni á þennan hátt. Þegar við hættum að skilja, hvers virði slík viðleitni er fyrir þjóðina, þá erum við áreiðanlega komnir út á glapstigu. Ég hefi í hv. n. reynt að hamla upp á móti þessari stefnu eftir mætti. Auk þess sem þessi stefna er runnin mér í merg og bein, tel ég, að mér beri nokkur aukaskylda til þess að verja málstað andlegrar viðleitni, með því að atvikin hafa hagað því svo til, að ég hefi tekið hér á þingi sæti þess manns, sem allan sinn þingaldur hélt uppi þessari stefnu. Þessi fáu orð vildi ég segja til skýringar á því, sem ég vildi láta koma fram hér í hv. d., eins og ég hefi látið það koma fram í n.

Ég mun ekki fara hér út í einstök atriði eða liði. Verð ég e. t. v. knúður til að vera á móti nokkrum till. frá hv. fjvn. Um aðrar þær till., er hér liggja fyrir, þarf ég ekki að fjölyrða. Gefst e. t. v. tækifæri til þess síðar fyrir mig að lýsa afstöðu minni til þeirra, þegar hv. flm. eru búnir að gera grein fyrir þeim.