13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í D-deild Alþingistíðinda. (2390)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Hv. 1. landsk. hélt því fram, að stj. sú, sem mynduð var í fyrravor, hafi verið mynduð um stjórnarskrármálið. Verð ég að segja, að hann er lítilþægur um þetta mál, sem hann setti á oddinn í fyrra og braut jafnvel þingreglur við það tækifæri, ef hann sættir sig við, að eitthvert frv. verði borið fram einhverntíma í málinu, sem óvíst væri þó, hvernig yrði. Menn eru ekki almennt sammála um það, um hvað samsteypustj, var í raun og veru mynduð. Morgunblaðið segir, að það hafi verið vegna kjördæmamálsins. Aðrir segja til þess að leysa úr kreppumálunum. En ennþá er ekki komið fram eitt einasta þskj., sem bendir til, að nokkur áhugi sé fyrir þessum málum, nema stjfrv. eitt, sem lítur út fyrir að verði drepið umsvifalaust við 2. umr. í Nd. Frv. þetta er þess efnis, að ekki megi víta ráðh. fyrir ávirðingar, sem öllum eru kunnar utan þings.

Viðvíkjandi því, að hv. 1. landsk. sagði, að íhaldsmenn, sem í samsteypustj. hafa verið, hafi ekki fengið nægan stuðning af hálfu Framsfl., má geta þess, að pressa hans flokks hefir alltaf reynt að skaða sem mest ráðherra annara flokka. Þegar Sigurður á Yztafelli var í stj. með Jóni Magnússyni, kom ekki út eitt blað í þeim herbúðum, svo að ekki væri ráðizt á þennan ráðherra Framsfl. Hefir aldrei verið gengið eins langt í því að rægja nokkurn ráðh. eins og þennan fyrsta bónda í ráðherrastól á Íslandi. Sem dæmi um bróðurkærleikann í blöðum hv. 1. landsk. skal ég benda á það, að hann hefir þar sjálfur verið að gera gys að kreppunni og vandræðunum, sem nú steðja að bændum, með því að segja, að bændur ættu að gefa sér upp skuldirnar sjálfir. Hann hélt því fram, að samvinnufélögin, sem hafa verzlað með matvöru og byggingavöru við sanngjörnu verði, ættu að gefa bændum upp útistandandi skuldir. Þetta eitt hefir hann nú lagt til málanna.

Þá hélt hann því fram, að aðalblöð Sjálfstfl. hefðu verið mild við ráðh. Framsfl. Ég álít aðalblöð þessa flokks — meðal annara Heimdall og Storm, því að þau túlka innræti flokksins — hafa bæði verið mjög harðorð í garð Ásgeirs Ásgeirssonar og Þorsteins Briems. Framsfl. hefir aldrei orðið fyrir öðrum eins árásum af blöðum nokkurs þingflokks og íhaldspressunni, og hún hefir aldrei gert meira til að spilla samkomulaginu í þessu landi en síðan samsteypustj. var mynduð.

Þá vil ég víkja nokkru að orðum hæstv. dómsmrh. Hann heldur því fram, að hann hafi gert góð kaup á þessari fasteign í Mosfellssveit og ber þau saman við þrenn kaup, er ég gerði, meðan ég var í hans stöðu. Kaupin á Reykjum í Ölfusi voru gerð eftir ákvæði Alþingis, en kaupin á Laugarvatni eftir till. byggingarnefndar skólans. Þessi kaup hafa fengið því meiri viðurkenningu, því lengra sem liðið hefir. En hann fékk ekki að sitja einn dag í friði fyrir sínum eigin flokksmönnum, eftir að hann gerði kaupin á Hlaðgerðarkoti. (Dómsmrh.: Hvernig veit hv. þm. það?). Bærinn logaði allur af hatri og óvild, og meira að segja af fyrirlitningu á hæstv. dómsmrh. út af þessu.

Að því er snertir kaupin á Reykjum get ég tekið það fram, að ýmsir spekúlantar hér í Reykjavík, sem eitthvað hafa að segja hér innan þingsins, svo að ekki sé meira sagt, höfðu ætlað að kaupa þessa hveraorku. Ég keypti hana til þess að tryggja því opinbera það gagn, sem hún gæti látið í té. Er það mála sannast, að mér er ekki kunnugt, að nokkur stuðningsmaður hæstv. ráðh. hafi kritiserað þessi kaup. Svo mikill búhnykkur voru þau álitin fyrir héraðið og landið. En aftur á móti hefir hæstv. ráðh. ekki fengið nokkurn frið út af sínum kaupum, þangað til þau voru rifin niður. Er það rétt með naumindum, að hann getur setið, þó að nú sé búið að ónýta kaupin, og er hér því ólíku saman að jafna.

Ég hefi ekki slíkt traust á sannsögli hæstv. ráðh., að ég trúi því, að hann hafi ekki verið við það riðinn, er ég var fenginn til að segja álit mitt á jörðinni. En þó að ég hafi sagt álit mitt satt og rétt, að þetta væri lagleg jörð, þá hefði mér aldrei dottið í hug að gefa meira fyrir hana en það, sem hún var virt á samkv. fasteignamati. Er það óhugsandi, að Vigfús Einarsson hefði beðið mig um þessi meðmæli og talað um gamalmennahæli, ef hann hefði ekki verið kominn í samninga við hæstv. ráðh. um að hafa þar slíkt hæli. Hefir hæstv. dómsmrh. eflaust ætlað að tryggja sér að hafa andstæðing sinn með sér í þessu, en honum hefir þó ekki orðið kápan úr því klæðinu. Ég hefi alltaf síðan unnið að því að eyðileggja kaupin. Hefi ég alltaf verið sannfærður um, að hann myndi hafa minnkun af þessu máli, enda hefir svo orðið. Hann hefir orðið fyrir því óláni að gera tilraun til að fá andstæðing sinn til aðstoðar því, að hann gæti framið svívirðilega hluti. Almenningur hefir litið svo á, að þótt ýmsir af andstæðingum hans vilji ekki láta hann fara frá út af þessu máli, þá sé það einungis af því, að erfitt myndi að finna mann, er fremdi jafnmörg hneyksli og hann hefir gert, og myndi því hagkvæmast fyrir andstæðingana, að hann sæti fram að næstu kosningum.