13.03.1933
Sameinað þing: 5. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (2394)

37. mál, riftun kaupa á Reykjahlíð í Mosfellssveit

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það eru aðeins örfá orð, sem ég þarf að segja. Ég hélt, að hv. 5. landsk. mundi vilja sem minnst um kaupin á Reykjahlíðinni tala, eftir að hann hefir nú látið undan síga í þessu efni. En hann hefir nú sýnt greinilega, hvernig hann lítur á sínar eigin gerðir þar, svo að það þarf enginn að gera annar. Það er öllum skiljanlegt, hvers vegna hann heimtaði vottorðið aftur. (JónasJ: Ég heimtaði það birt). Nei, hann heimtaði, að það yrði sent sér strax af skrifstofustjóra, að viðlögðum missi æru og embættis. — Þá hefi ég ekki meira að segja við hv. 5. landsk. út af þessu máli.

Þá er það hv. 2. landsk. Hann sagði, að það hefði verið þingvilji í fyrra, að þetta yrði strax undirbúið, og er það einmitt hið sama og ég hefi haldið fram. (JBald: Þá kann hæstv. dómsmrh. ekki að lesa). Ég er eins vel læs og hv. 2. landsk. á Alþt., og jafnvel þótt það væru bankaseðlar. (JBald: Eða Behrensreikningar).

Hv. 2. þm. Reykv. þarf ég að svara nokkrum orðum viðvíkjandi samningnum. Hann hefir nú viðurkennt, að hinn 7. marz hafi hann átt kost á að sjá samningana, en það vita allir, hvenær árásin var birt, og hann hefir enga tilraun gert til að fá að sjá þá fyrr en löngu seinna. (HV: Ég heimtaði skipulagsskrána). Hún er birt í Stjtíð. og ég er ekki skyldugur til að lesa þau fyrir hann. Hann skoraði á mig að gefa skýrslu um það, hvernig Eggert Claessen hefði farið með sjóð Jóhanns Jóhannessonar og Sigurbjargar Guðnadóttur. Eftir skipulagsskránni átti hann að fara með fé sjóðsins og gera reikningsskil á því til stjórnarráðsins, og taka laun fyrir eins og honum sýndist. Svona var traust gefandans mikið til hans. (HV: Hvar stendur það?) Það stendur í skipulagsskránni : „eins og hann telur hæfilegt“.

Hv. þm. talaði um, að mörgum flokksmönnum mínum fyndist bezt, að ég væri gefinn framsóknarmönnum. Einmitt það!

Ég verð að viðurkenna, að ég hefi aldrei heyrt það, að réttast væri að gefa hv. 2. þm. Reykv. Býst ég við, að tvær ástæður liggi til þess, að engum hefir dottið það í hug. Fyrst það, að ekki mundu margir menn vilja þiggja þá gjöf, og í öðru lagi mundi hv. þm. heldur vilja selja sig en gefa.