20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 266 í D-deild Alþingistíðinda. (2405)

88. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Faxaflóa

Dómsmrh. (Magnús Guðmundsson):

Það ræður af líkum, að ríkisstj. telur sér skylt að reyna að játa verða eins mikið gagn að varðskipum ríkissjóðs eins og framast má verða. Það er líka auðsætt, að þingið verður að hafa hönd í bagga með, hvernig þessum skipum er ráðstafað. Mér dettur því ekki annað í hug en taka vel þeim till., sem hér liggja fyrir. Þó vil ég benda á, að með till. hv. þm. Borgf. er lagt fyrir stj. að hafa varðskip að staðaldri á ákveðnum stað. Það álít ég óheppilegt, því í því felst bein skipun um að hafa skip á þessum stöðvum, hvernig sem á stendur. Þessu legg ég því til, að sé breytt á þá leið, að skorað sé á ríkisstj., eins og venja er til í þáltill., að hafa skip á þeim stað, sem um er að ræða. Þá yrði ekki skoðað sem brot gegn þingviljanum, þó taka þurfi skipið burt til starfa annarsstaðar við landið, en það getur alltaf komið fyrir, þó stj. vilji gera allt, sem hægt er, til þess að uppfylla það, sem þáltill. fer fram á. Ég tel rétt að fresta umr. og vísa málinu til hv. sjútvn. Vona ég, að hún breyti þá orðalagi till. á sínum tíma, því ég tel mjög óheppilegt það skipunarform, sem hún nú er í.

Annars eru mestu örðugleikarnir á þessu sviði fólgnir í því, eins og hv. þm. mun kunnugt, að hafa það fé, sem til þarf, ef halda á öllum varðskipunum úti árið um kring. En þess þarf vitanlega, ef fullnægja á öllum kröfum, og mun enda varla hrökkva til. Eins og nú standa sakir, er ekki fé til þess að halda öllum varðskipunum úti, og fjárveiting gildandi fjárl. er ekki miðuð við, að það sé gert. Þess vegna verður ekki hjá því komizt að draga úr kostnaðinum með því að láta ekki nokkuð af varðskipunum vera í gangi á hverjum tíma. Hversu mikið draga þarf úr landhelgisgæzlunni, fer vitanlega eftir því, hvað stj. fær mikið fé til umráða til hennar. Ég skal fullvissa hv. þdm. um það, að stj. er öll af vilja gerð til þess að uppfylla allar sanngjarnar kröfur, sem fram koma, að svo miklu leyti sem hægt er innan þess fjárhagsramma, sem stj. verður að fara eftir og sniðinn er af þinginu sjálfu.