20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 267 í D-deild Alþingistíðinda. (2406)

88. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Faxaflóa

Flm. (Pétur Ottesen) [óyfirl.]:

Ég vil taka undir það með hæstv. dómsmrh., að réttast mun vera að hafa þá tilhögun á afgreiðslu þessa máls, að fresta nú umr. og vísa málinu til nefndar. Ég vil engan veginn einskorða till. við það orðalag, sem hún nú hefir, heldur mun ég fallast á, að því sé breytt á þann veg, sem betur þykir fara, þó mér sé hinsvegar óljúft að ganga inn á að orða till. á þann veg, að það dragi úr þýðingu hennar.

Hæstv. dómsmrh. talaði um, að ríkissjóður væri þess ekki megnugur nú að halda úti öllum varðskipunum. Það verður auðvitað, því miður, að taka undir það, að mjög miklir erfiðleikar eru á því fjárhagsins vegna að halda úti þremur skipum til landhelgisgæzlu eins og nú standa sakir. En hitt verður þó að benda á líka, hvað ákaflega mikið er í húfi, þar sem um eins mikinn bátaútveg er að ræða eins og hér við Faxaflóa, sem stundaður er á þeim tíma, þegar öll sjósókn er jafnhættuleg eins og á tímabilinu frá því í nóvember og fram eftir vetri. Það liggur stórfé í veiðarfæratjóninu einu, sem bátarnir verða fyrir af völdum botnvörpunganna. Því það kemur ósjaldan fyrir, að vörpur eru dregnar yfir alla lóðasyrpuna og lóðirnar kubbaðar niður. Verða bátarnir þá fyrir geysilega miklu aflatjóni, auk þess sem veiðarfærin eyðileggjast. Á þetta verður að líta og hafa alltaf hliðsjón af því, hvað í húfi er, þegar ákveðið er, hvað hægt er að spara og hvað má spara af útgerðarkostnaði skipanna. Það verður alltaf að ganga eins langt eins og framast er unnt á hverjum tíma fjárhagsins vegna í því að veita útgerðinni nauðsynlegan stuðning og nauðsynlegt öryggi.