31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í B-deild Alþingistíðinda. (241)

1. mál, fjárlög 1934

Lárus Helgason:

Við 14. gr. fjárl. er ég, ásamt hv. þm. Rang. flm.brtt., sem fer fram á dálítinn styrk til Gústafs Pálssonar til þess að lúka námi í Þýzkalandi. Er þessi styrkbeiðni að upphæð 1200 kr. Þessi maður er prýðilega efnilegur maður, og er hann kominn það langt, að hann býst við að lúka námi ekki síðar en á miðju ári 1934. Hann hefir barizt þetta áfram með sérstökum dugnaði og notið nokkurs styrks frá foreldrum sínum, sem þó eru fátæk. En nú virðist hann vera svo illa staddur, að geti hann ekki fengið hjálp að heiman, þá er hann neyddur til þess að hverfa heim og reyna að vinna sér inn enn á ný einhverja upphæð, til þess svo að geta haldið áfram námi. Og þar sem eiginlega er ekki um neitt annað að ræða en það eitt, að ná markinu, þá er það illt, ef hann þyrfti að hverfa að því ráði að koma heim frá Þýzkalandi og eiga svona lítið eftir ógert þar úti.

Ég er persónulega kunnugur þessum manni. Hann hefir verið í vega- og brúargerð hjá okkur fyrir nokkrum árum. Ég leit svo á, að hér væri um verulega kröftugan og efnilegan mann að ræða. Og ég var að segja það við menn, að ég hlakkaði til, þegar þessi maður væri búinn að læra verkfræði, því ég sá, hvað prýðilega hann fylgdist með verkunum og hafði mikinn áhuga fyrir þeim, enda á hann ekki langt að sækja það. Ég er persónulega kunnugur foreldrum hans og get þess vegna vel um það borið. Ég held því, að þessu litla fé verði ekki á glæ kastað, ef þessi maður hefir líf og heilsu. Heilsan er góð, en um lífið getur maður náttúrlega ekkert sagt.

Ég hefi hér í höndunum bréf frá vegamálastjóra, sem ég ætla, með leyfi hæstv. forseta, að lesa upp. Það hljóðar svo:

„Gústaf Pálsson frá Skógum undir Eyjafjöllum hefir nokkur sumur unnið að brúasmíði í fríi sínu og síðasta árið sem verkstjóri. Hann reyndist mér vel í því starfi, var bæði áhugasamur og ábyggilegur. Hann stundaði 3 vetur nám við Fjöllistaskólann í Kaupmannahöfn, en hvarf þar frá án þess að hafa tekið próf, til framhaldsnáms í byggingaverkfræði við háskólann í Dresden. Býst hann við að lúka þar fullnaðarprófi á miðju ári 1934. Hann er að því er mér er kunnugt efnilegur og reglusamur námsmaður, sem hefir barizt fram til mennta með aðstoð efnalítilla foreldra, hví sumarkaupið hefir hrokkið skammt, a. m. k. hin síðari árin, og nú síðast með lánum á ábyrgð þeirra og annara vandamanna. Lætur að líkum, að mjög er nú orðið þröngt um fjárhaginn, því að námskostnaður er mikill, líklega allt að 300 ríkismörk á mánuði að meðtöldu háu skólagjaldi, en námið leyfir ekki, að hann hverfi hingað heim í vinnuleit að sumrinu, hvorki í fyrra eða í ár. Er hann því að mínu áliti mjög þess verðugur að njóta nokkurs styrks úr ríkissjóði til þess að geta lokið námi sínu, svo sem fengið hafa ýmsir efnilegir, en fátækir námsmenn, er stundað hafa langt og kostnaðarsamt nám við erlenda háskóla.

Geir G. Zoëga“.

Ég held, að það sé ekki til neins fyrir mig að fara fleiri orðum um þetta litla erindi, en vænti þess, að hv. d. geti fallizt á, að hér er um nauðsynlegan styrk að ræða. Ég veit, að það má segja um ýmsa aðra styrki, að þeir séu jafnnauðsynlegir, en ég álít það neyðarúrræði að segja þvert nei þegar um svona lítið er að ræða til manna, sem hafa brotið sig svona áfram. Við þurfum að líta í kringum okkur áður en við gerum það. Það er harðýðgislegt að líta ekkert á þegar um svona myndarskap er að ræða, því það er myndarskapur, þegar maður berst svona áfram eins og þessi maður hefir gert án þess að fá nokkurn styrk. Vænti ég því, að hv. d. geti fallizt á að veita þennan litla styrk.

Þá á ég næst brtt. á þskj. 296, á rómv. tölul. 39, við 16. gr., til þess að lúka við fyrirhleðslu Skálmar í Álftaveri, 2000 kr.

Svo er mál með vexti, að þessi á hefir verið vágestur í þessari sveit. Áður hefir verið gert nokkuð að því að verjast eyðileggingu á engjum í sveitinni, og var í 2 ár veittur dálítill styrkur úr ríkissjóði til hjálpar. Síðara skiptið 1929, en þá var verkinu ekki lokið fyrir það, að fjárveitingin nægði ekki, en verkið komst þó það langt, að hægt var að hlaða fyrir þann hlutann, sem gerði mestan óskundann. Enn er eftir nokkur partur af þeim kafla, sem hlaða þarf fyrir ána, til þess að þetta komi að fullum notum. Það er búizt við, eftir áætlun frá Pálma Einarssyni ráðunaut, að hægt verði að lúka verkinu, sem eftir er, með 3 þús. kr. framlagi. Ég geri ráð fyrir, að 1 þús. kr. leggi sveitarmenn til sjálfir, en hér er farið fram á 2 þús. Það var svo síðast þegar veitt var til þessa, að hreppsbúar lögðu fram 1/3 á móti 2/3 úr ríkissjóði. Hér er um að ræða nauðsyn að koma þessu verki í framkvæmd, og því fremur virðist ástæða til þess að verða við þessu erindi, sem þarna er ekki um neina vegagerð frá ríkisins hálfu að ræða. Að þessum hrepp liggur enginn þjóðvegur, og hefir ríkið því engan kostnað haft af vegagerðum þar í sveit. Nú hefir verið talað um það hér í þessari hv. d. og á þessu þingi, að dreifa vegafénu sem víðast um landið, til þess að skapa ofurlitla atvinnu sem víðast. Hér er um samskonar að ræða. Með þessu er verið að hjálpa mönnum til þess að engjarnar eyðileggist ekki, með þessari litlu upphæð, sem gæti orðið þeim að nokkru liði, þó aldrei nema þeir eigi að leggja fram nokkuð á móti. Ég vil geta þess, að þessi sveit hefir um langt skeið átt við mjög mikla erfiðleika að stríða, meiri en flestar ef ekki allar sveitir þessa lands. Árið 1918 gaus Katla og flóði yfir mestan hluta af landi sveitarinnar og eyðilagði um leið mikinn hluta af skepnum bænda þar í sveit. Urðu þeir svo að eyða sér í mikinn skaða af því, sem eftir var af fénaðinum, því að hagarnir eyðilögðust með öllu vetrarlangt og heyskapur minni en nokkru sinni áður. Næsta ár varð svo mjög hátt verð á öllu fé, en þá urðu þeir að reyna að auka við þennan litla stofn, sem þeir höfðu eftir gosið.

Ég held, að það sé því sanngjarnt, að þessi litli styrkur sé veittur til að fullgera þetta verk, og vænti þess vegna, að hv. d. fallist á það.

Þá á ég smábrtt. á þskj. 306, viðvíkjandi styrk til Brands Einarssonar á Suður-Götum. Hann er sérstaklega gefinn fyrir að hjálpa skepnum, þegar eitthvað er að þeim. Hann er svo að segja skapaður dýralæknir. Hann hefir verið hér til náms hjá dýralækninum um nokkurn tíma. Hefi ég í höndum bréf frá dýralækninum, sem ég leyfi mér að lesa upp, til þess að sýna, að ég hefi ekki farið með staðlausa stafi. Þessi maður hefir alltaf verið fátækur einyrki í þéttbyggðri og fjölmennri sveit og hefir orðið fyrir mjög miklum töfum fyrir þessar sakir. En eins og gengur, þá er það venjulega með þessa menn, að þeir hafa býsna lítið í aðra hönd, þó að þeir eyði í þetta heilum og hálfum dögum, því það er nú ekki vani í sveit að borga þeim mönnum, sem gera eitthvað í þessa átt. Hér er ekki farið fram á stóra upphæð, en bláfátæka menn munar um allt. Hér er aðeins farið fram á 300 kr. Það er ekki nema ofurlítil þóknun fyrir þau störf, sem þessi maður vinnur. Slíkir menn sem þessir þurfa að vera í hverri sveit. Þó dýralæknir sé í Reykjavík, þá hefir V.-Skaftafellssýsla ekki mikil not af honum, þó að eitthvað verði að búfénaði bændanna þar. Ég ætla, með leyfi hæstv. forseta að lesa hér upp nokkrar línur frá dýralækninum þessu viðvíkjandi. Þær hljóða svo:

„Að gefnu tilefni skal ég geta þess, að Brandur Einarsson, Suðurgötum, Mýrdal, tók þátt í námskeiði, sem haldið var fyrir nokkra menn, sem vildu kynna sér almennustu sjúkdóma í búfé okkar, og er mér það ljúft að geta þess, að hann var alveg sérstaklega áhugasamur í þessum efnum og virtist hafa mjög mikil not af þeim leiðbeiningum, sem gefnar voru, enda hafði hann um nokkur undanfarin ár verið sá maður, sem leitað var til í sveitinni, ef hjálpa þurfti sjúkum dýrum. Verð ég því að telja, bæði þegar litið er til mannsins sjálfs og einnig þess, hvað sveitin er afskekkt, að full þörf væri á því, að einhver styrkur væri veittur í þessu skyni.

Reykjavík, 26. marz 1933.

Hannes Jónsson“.

Þessar línur sanna þau fáu orð, sem ég hefi sagt þessu viðvíkjandi. Hér er um litla upphæð að ræða, og vænti ég þess, að hv. d. sjái sér fært að ljá þessu lið sitt. Það er allt annað en þegar um stóra upphæð er að ræða. Ég verð að segja um þetta líkt og um suma unga námsmenn; það er ekki mikið um menn, sem svona er hægt að segja um. Það er þess vert, að litið sé til þeirra og þeim sýndur einhver þakkarvottur. Ég held jafnvel, þótt þröngt sé í búi, að sanngjarnt sé að líta til þessara manna.

Að síðustu á ég brtt. á þskj. 306 undir tölulið VIII. Það er um að ríkið taki ábyrgð á 60 þús. kr. til rafvirkjunar fyrir Hvolhrepp í Mýrdal. Hér er um endurveitingu að ræða, því að árið 1929 var þessi ábyrgð fyrir hendi, en af einhverjum orsökum varð ekkert úr framkvæmd hjá þeim í það skiptið. En þetta hefir verið nokkuð nánar athugað síðan, bæði af mönnum þar í sýslu, sem hafa fengizt við svona lagað, og auk þess hefir verið fenginn rafmagnsfræðingur héðan úr Reykjavík. Þessum mönnum virtist aðstaðan vera góð, og rafmagnið mundi verða ódýrt, einkum þegar litið er til þess, hvað mjög er erfitt með alla aðdrætti. Sérstaklega er það tilfinnanlegt með kolin — og aðra ódýra þungavöru —, hvað þau eru miklu dýrari þar en í Reykjavík. En ef stöðin kemst upp, þá eiga þeir kost á ódýru rafmagni og þurfa þar af leiðandi minni kol að kaupa en áður, og vænti ég þess, að hv. þdm. sjái, hve mikil nauðsyn er á þessu fyrir þessa afskekktu sveit. Það verð ég að segja, að þá fer illa, ef þetta verður nema formsatriði fyrir ríkið. Hér er um fjölmennt byggðarlag að ræða, eftir því sem gerist hjá okkur. Í kauptúninu eru um 309 manns og víst fullkomlega eins margt í sveitinni sjálfri þar í grennd. Ég held því, að þó þessi ábyrgð verði endurnýjuð frá 1929, þá verði tæplega hægt að núa þinginu því um nasir, að það hafi farið þar ógætilega. Ég held miklu fremur, að hér sé um að ræða, að þingið megi helzt ekki neita um svona ábyrgð, því að með því að ríkisábyrgð fáist fyrir þessu fé, þá er búizt við, að stöðin kosti ekki nema 70—80 þús. kr., en þeir fá ekki lán nema með ríkisábyrgð. Vænti ég því, að hv. d. fallist á að endurnýja þessa ábyrgð. Hún stendur í fjárlögum 1929, en var þá ekki notuð, eins og að framan er greint. Sé ég svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta að svo búnu og vænti, að hv. d. fallist á þetta.

Hefi ég svo ekki fleiri till. að tala fyrir að þessu sinni.