24.05.1933
Efri deild: 80. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 275 í D-deild Alþingistíðinda. (2423)

195. mál, Þingvallaprestakall

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Ég er hræddur um, að hv. flm. þessarar þáltill. sé ekki eins kunnugur þessu máli eins og hann ef til vill þykist vera. Kenndi þess á ýmsan hátt í ræðu hans, eins og líka í till. sjálfri.

Ég vil þá fyrst taka það fram, að ef fallizt er á þessa málaleitun eins og hún er flutt hér fram og hugsuð, er það sama sem að gerbreyta þeirri stefnu, sem Alþingi tók 1928, þegar það friðaði Þingvöll. (GL: Fyrir prestum!). Það er þegar byrjað að bæta úr þeirri niðurníðslu, sem Þingvöllur var kominn í, og sem fór vaxandi undir umsjón og áhrifum þeirra, er þar bjuggu, sem voru prestarnir. Það, sem Alþingi gerði 1928, var að taka Þingvöll úr því ófremdarástandi, sem hann var kominn í, þjóðinni til minnkunar. Þessum merkilega sögustað hafði verið spillt af vanþekkingu og smekkleysi forráðamannanna. Fossinn var skemmdur, vegur sprengdur gegnum gjána, og vegur lagður yfir sjálfa vellina. Skógurinn næst prestssetrinu var gersamlega eyðilagður. Eins og eðlilegt var, var skógurinn mest höggvinn frá prestssetrinu, því það var stærsta heimilið. Og bærinn, sem hæstv. kirkjumálaráðh. minntist á að þar hefði verið, hann var sem fyrirmynd þeirra niðurníddu húsa, sem skapazt höfðu hér á landi eftir að hætt var að byggja torfbæi og áður en farið var að byggja almennt úr steini. Þar var hver skúrinn við annan, allt svo grautarlega saman sett, smekklaust og vesalt sem framast mátti verða. Þingvallanefndin sá sér ekki fært að láta slíkt hróf standa yfir 1000 ára hátíðina; hún taldi ekki forsvaranlegt að sýna útlendingum Þingvelli í því ástandi, sem forráðamenn þeirra höfðu skilið við þá í. Og ég held, að það sé almenn ánægja yfir því meðal þjóðrækinna manna í landinu, sem gert var til að má þann blett af, sem forráðamennirnir höfðu skilið eftir á staðnum. Ekki hafði sá guðrækni hv. þm., sem þessa till. flytur, sýnt smekk sinn í því að benda á það sem borgari í landinu, að laga þyrfti neitt til á Þingvöllum, til þess að sómi væri að staðnum, einnig frá kirkjulegu sjónarmiði. Hin stórfellda viðrétting Þingvalla, sem gerð var frá 1928 til 1930, var til þess að gera staðinn hæfan fyrir Alþingishátíðina. Sú viðrétting átti sinn þátt í því, að hátíðin varð þjóðinni til sóma. Útliti staðarins, að því leyti sem til manna kemur, var þannig, að að því var ekki fundið.

En það stóð líka á bak við þessa viðrétting Þingvalla eldri hreyfing. Hreyfing, sem byrjaði með Fjölnismönnum, þegar þeir vildu fá þingið til Þingvalla, og sem kom fram í því, að þjóðlegir menn héldu ávallt þar sína áhrifamestu fundi til að fylgja eftir málum þjóðarinnar, frá því sjálfstæðisbaráttan hófst. Þingvellir voru þannig pólitískur helgistaður, þar sem menn unnu sín heit. Svo var það nokkru eftir aldamótin, að ungmennafélagshreyfingin byrjaði, einskonar ný Fjölnismannahreyfing. Frá sjónarmiði æskunnar úti um land var m. a. skógræktarmálið stór liður í endurreisnarstarfinu. Og Þingvöllur var í hugum ungmennafélaga staður, sem þeir vildu hlúa sem bezt að á allan hátt. Því var það, að þegar þessi nýja frelsishreyfing hafði ástæður til að láta til sín taka, þá fyrirvarð hún sig fyrir arfinn, sem henni var skilinn eftir á Þingvöllum, og hún hafði rétt til að fyrirlíta þá, sem að honum stóðu. Æskan hafði fulla ástæðu til að skammast sín fyrir Þingvallastað eins og honum var skilað.

Þá höfðu þeir menn afsökun í fátækt landsins. Nú hefir síðan skipt um. Þingvelli, þessum fornhelga stað, hefir nú verið sýndur meiri sómi en áður, það hefir orðið stefnubreyting um meðferðina á Þingvöllum. Fyrir alþingishátíðina urðu umráðendaskipti á þessum stað og síðan hefir hann verið hafinn úr því 18. aldar kulturleysi, sem hann var í. Það þýðir ekki annað fyrir hv. 6. landsk. en að viðurkenna, hvernig allt var útlits á Þingvöllum í tíð fyrrv. umráðamanna staðarins, hvernig niðurníðslan og ómenningin hékk við allt á þessum stað í tíð íhaldsstj., en þá var það, að æskan í landinu vaknaði, hún fann, að meðferðin á þessum stað var óþolandi, og æskan í landinu sagði, við viljum ekki og við ætlum ekki að þola þessa svívirðingu, þola þennan helga stað svo vanhirtan. Í þessum anda var hafizt handa um endurreisn þessa staðar, og ég get í þessu sambandi svarað útúrsnúningi hv. 6. landsk., er hún spurði, hvort það hefði verið prestinum á Þingvöllum að kenna, hve staðurinn var vanhirtur. Ég get svarað hv . þm. því, að það var einmitt presturinn og forráðamenn jarðarinnar, sem stóðu gegn öllum umbótum. Fyrir eitthvað 8 árum gerðu þeir hv. þm. Borgf. og Árni Jónsson, þáv. þm. N.-M., fyrir hönd Alþingis tilraun til þess að komast að samningum við prestinn á Þingvöllum, sem hafði umráð yfir jörðinni, tilraun til að upphefja þennan merkilegasta stað þjóðarinnar úr þeirri sáru eymd og niðurlægingu, sem hann var fallinn í, en sú tilraun bar engan árangur. Presturinn var harður í horn að taka og bannaði öll afskipti frá hinu opinbera, og þar við sat, þangað til svo skipaðist, að presturinn lét af embætti og deilan féll niður af sjálfu sér. Um það bil hófst undirbúningur alþingishátíðarinnar, og þá var tekið til óspilltra mála að reisa við þennan fornhelga en niðurnídda stað. Íbúðin á prestssetrinu var endurbyggð og gerð sómasamleg og boðleg hinum tignu gestum. Hin litla fátæklega kirkja var endurbætt, svo að hún væri ekki þjóðinni til vansæmdar, og Alþingi ákvað að friða skóglendið og hraunið með því að girða það og búa svo um, að búfé gerði ekki usla á landinu, eins og verið hafði frá landnámstíð. Það var ákveðið, að leggja skyldi niður búskap á Þingvöllum, prestur skyldi ekki hafa þar setu, og umsjónarmaður var settur til þess að gæta staðarins.

Fyrir hinni kirkjulegu hlið málsins var og vel séð. Presturinn, sem þjónað hafði, flutti ekki lengra burt en það, að hann gat haldið áfram að þjóna kirkjunni. Auk þess var um það samið, þegar prestaskipti urðu á Mosfelli í Mosfellssveit, sem er næsta prestakall við Þingvelli, að þeir yrðu annexía frá Mosfelli og bættust við það prestakall án sérstaklegrar borgunar frá ríkissjóði. Hinn helmingur Þingvallaprestakalls, Grafningurinn, var lagður við Grímsnesprestakall.

Skylda prestsins á Mosfelli, sem er síra Hálfdan, sonur biskupsins, til að þjóna Þingvallasókn hefir að vísu enn ekki verið framkvæmd. Það má ef til vill reikna mér það til óguðlegheita, að ég veitti honum undanþágu frá þessari skyldu í bráð, en þegar hann kom að Mosfelli, voru aðstæður þar ekki góðar; húsakynni voru léleg, vegur til Þingvalla mjög slæmur, svo ég sá ekki ástæður til að hraða svo mjög framkvæmd þessarar ráðstöfunar. Síðan þetta var hefir verið byggt á Mosfelli með þeim skilningi, að presturinn tæki við Þingvallakirkju. Ennfremur hefir verið lagður ágætur vegur frá Mosfelli til Þingvalla, svo nú er kominn tími til, að presturinn á Mosfelli taki að sér Þingvallakirkju fyrir ekki neitt. Þessir tveir prestar, á Mosfelli í Mosfellssveit og Mosfelli í Grímsnesi, munu vera í náðinni hjá hv. 6. landsk., enda eru þeir almennt taldir merkisprestar og hefir aldrei verið kvartað um það, að þeir ræktu ekki vel sitt starf. Það er því alveg fullkomlega séð fyrir hinni kristilegu þörf safnaðanna af tveimur völdum prestum, og vantar því alveg ástæðuna fyrir því að vilja gera á þessu fyrirkomulagi róttæka breytingu. Slík till. yrði vitanlega að byggjast á því, að það væri ekki nægilega vel séð fyrir þörf safnaðanna, en slíku er ekki til að dreifa, eins og ég hefi þegar sýnt fram á. Auk þess mundi breytingin leiða af sér aukinn kostnað fyrir ríkið, en það hefir hv. 6. landsk. ekki vitað, að hægt er hvenær sem er að spara hálf prestslaun með því að láta prestinn á Mosfelli taka við Þingvallasókn. Þetta er þá í stuttu máli sú hliðin, sem að kristninni snýr, og ég hygg, að það verði erfitt fyrir hv. þm. að sanna það, að á nokkurn hátt sé í kirkjulegum efnum búið svo að því fólki, sem þarna á hlut að máli, að yfir því sé hægt að klaga.

Hv. 6. landsk. flytur þessa till. líka í sparnaðarskyni. Þm. vill koma þessum helga stað í sama ástandið, sömu niðurníðsluna og hann var í meðan presturinn sat þar undir stjórn Jóns Magnússonar. Hv. þm. vill láta afnema eftirlitið með Þingvöllum og eyðileggja það viðreisnarstarf, sem þar er hafið, úr því hann þykist flytja sína till. í nafni sparnaðar. En ef prestur yrði settur þangað, þá þyrfti þar annan vinnukraft, ef eftirlitið ætti að halda áfram. Þar er girt skóglendi, sem þarf að planta og grisja. Umferð er þar mikil af gestum, bæði innlendum og útlendum. Það er óhugsandi, að presturinn tæki að sér að passa upp á, að hliðin við Bolabás og Hrafnagjá séu alltaf lokuð, að reka út fé og gripi, sem slæðast inn í girðinguna, hreinsa rusl eftir gestina og sjá um, að þeir skemmi ekki skóginn eða fornar menjar. Þetta land, sem áður var bezta beitiland á Suðurlandi, hefir Alþ. ákveðið að friða. Það er stærsti friðaði bletturinn á landinu, og það er óhjákvæmilegt að hafa þar sérstakan eftirlitsmann, engu síður en á Vöglum og Hallormsstað. Ég ætla, að hv. þm. verði mér

sammála um það, að ekki verði hægt að búast við því, að presturinn, einkum sá prestur, sem hv. 6. landsk. og hæstv. ráðh. vilja koma þangað, vilji taka að sér að hafa eftirlit með þeim ferðamannastraum, sem til Þingvalla liggur, og því slarki öllu, er þar fylgir með. Ég býst ekki við, að hann vildi taka að sér að bjástra þar við dauðadrukkna menn og hafa eftirlit með þeim, en það yrði hann að sætta sig við, ef hann tæki að sér eftirlit með þessum stað, eins og hv. þm. vill, en það mundi enginn prestur taka að sér. Þess vegna er síðari liðurinn í till. hv. 6. landsk. fram kominn vegna vantandi kunnugleika á þessu starfi. Ég ætla líka að leiðrétta það, sem hv. þm. sagði um 5 þús. kr. laun umsjónarmannsins á Þingvöllum og stafaði af ókunnugleika, að þessi maður hefir ekki svo há laun. Hann hefir nákvæmlega sömu laun og hann hafði sem barnakennari hér í Rvík, og hv. þm. fer nærri um, hve há laun barnakennara eru, og mun þá sjá það við nánari athugun, að ekki muni hann setja landið á höfuðið vegna launanna.

Ég ætla, að ég hafi nú sýnt fram á það, að till. hv. 6. landsk. er fram komin fyrir ókunnugleika á þessu máli, og að hv. þm. mundi ekki hafa færzt þetta í fang, ef hún hefði vitað, að hér er hvorki um meira né minna að ræða en það, að snúa hjólinu alveg við, leggja niður eftirlitið, setja upp búskap á Þingvöllum og eyðileggja þá friðun, sem þegar er komin á.

Ég vil þá víkja að þeirri hugmynd, sem hefir vakað fyrir ýmsum mönnum, að þessi sérstaki heiðursstaður þjóðarinnar ætti að vera aðsetursstaður fyrir úrvalsprest þjóðarinnar á hverjum tíma. Það er hlutur, sem rétt er að tala um. En þá er einnig rétt að rekja fleiri þræði þess máls. Það hefir verið sagt, að hefði Matthías Jochumsson verið á miðjum aldri nú, á þeim aldri, þegar kirkjan var að reyna að bola honum úr sinni þjónustu og þegar sálmarnir hans fengust ekki prentaðir í sálmabókinni, þá hefði hann ekki verið settur á Þingvöll sem höfuðprestur þjóðarinnar. (GL: Þetta kemur nú ekki málinu við). Það kemur málinu við í sambandi við þá drýldni, sem hv. þm. sýnir í flutningi sinnar till. Það er ekki hægt að neita því, að farið var með Matthías Jochumsson eins og farið var með Þingvelli meðan þeir voru undir umsjón fylgismanna hv. þm. (GL: Matthías Jochumsson er mitt skáld). Þegar sálmarnir hans voru ekki teknir í sálmabókina, það sýnir, að Matthías hefði ekki verið settur á Þingvöll nú, þó hann hefði lifað. (GL: Þetta segir nú hv. þm. af því Matthías er dauður). Ég býst við, að ég hafi betri skilning á Matthíasi heldur en fylgismenn hv. þm., sem vildu flæma hann frá kirkjunni. En það hefir líka verið talað um að setja á Þingvöll einhvern af mestu andans mönnum þjóðarinnar, þó ekki væri prestur, t. d. skáld eða listamann, svo sem Stefán G. Stefánsson, Einar Jónsson, Einar Kvaran eða Ásgrím Jónsson, en það hefir komið í ljós, að það mundi ekki verða neitt sérstaklega auðvelt að fá slíka andans menn til að vilja búa á Þingvöllum sumar og vetur. Fólk er þannig gert, að það kærir sig ekki um að vera einangrað uppi í afdal yfir háveturinn, ef annars er kostur. Ég geri ráð fyrir, að hvorki Einar Jónsson eða Einar Kvaran eða Matthías Jochumsson, þó hann yrði vakinn upp úr gröf sinni, mundu kæra sig um að flytja þangað, til þess að tína bréf og rusl, sem ferðafólk skilur eftir, eltast við kýr og kindur og loka hliðum fyrir ferðafólk, eða dvelja þar einangraðir á vetrum. Til þess fást ekki úrvalsmenn þjóðarinnar. En ef till. hv. þm. er tekin úr umbúðunum, þá kemur það fram, að tilgangurinn er ekki neitt í þessa átt. Hugmyndin er að setja á Þingvöll aðeins venjulegan prest. En hvað ynnist við það? Ég efast um, að með því yrði betur séð fyrir kirkjulegri þörf safnaðarins heldur en nú er gert, meðan sonur biskupsins þjónar þar, og ég neita því, að hægt verði að fá þangað nokkurn af andans mönnum þjóðarinnar til þess að taka á móti þeim skríl, sem þangað safnast á sumrin. (GL: Vill ekki hv. þm. segja Reykjavíkurskríl?). Það getur verið, að hv. 6. landsk. sé ekki ókunnug því dóti, sem þangað safnast héðan úr Reykjavík og liggur í spýju sinni og þörf er að líta eftir. Þess vegna er þessi draumur hinna þjóðlegu manna, sem vilja halda uppi virðingu Þingvalla með því að setja þangað mesta andans höfðingja þjóðarinnar, byggður á vanþekkingu; það er hvorki hægt að fá þangað listamann, og það verður ekki heldur frá kirkjunnar hlið neitt til þess gert að setja þangað neinn úrvalsprest. Eins og hæstv. kirkjumálaráðh. veit, þá yrði það ekki hægt nema með því að setja sérstök lög um prestsveitingu á Þingvöllum. Presturinn yrði að hafa stjórnarveitingu og vera launaður eins og erkibiskup, ef sæmilegur prestur ætti að fást þangað með því skilyrði, að hann mætti ekki stunda búskap. Þess vegna er till. hv. þm. árás á friðun Þingvalla, ekki af því, að prestur er settur þangað, heldur af því, að það er búið að friða landið með því að leggja þar niður allan búskap, og sú friðun er eyðilögð, ef á að fara að hefja þar búskap aftur. Ef presturinn hefði þar t. d. 20 kýr, þá veit hæstv. ráðh., að það yrði nokkuð skrítin friðunin, ef ætti að fara að beita þessum nautgripum í skóginn og láta hann klippa vaxtarbroddana af nýgræðingnum. Enginn mannlegur máttur getur varnað því, ef farið verður að búa þar aftur með sauðfé og nautgripum, að þá er friðun skógarins eyðilögð. Friðunarmálið byggist á algerðri friðun, plöntun og vernd. Ég vil út af ræðu hæstv. ráðh. benda honum á það, að landsstj. getur notað Þingvallabæinn til þess eins, sem hægt er að nota hann, fyrir heiðursbústað á sumrin handa tignum gestum eða þeim börnum þjóðarinnar, er hún vill sérstakan heiður sýna. Eftir alþingishátíðina voru skilin þar eftir nokkur af þeim húsgögnum, er gestirnir notuðu þá, og síðan hafa þau verið notuð handa þeim gestum, er stj. hefir boðið þangað til dvalar. Ég get af þeim gestum nefnt bæði Sigrid Undset og Gunnar Gunnarsson, sem bæði voru heiðruð með því að fá þeim þennan stað til dvalar, einnig danskan málara, sem þar dvaldi við að mála myndir fyrir danska þingið af Friðrik VIII. og Hannesi Hafstein. Ég get einnig nefnt frú Önnu Borg, eina af mestu listamönnum Íslands. Á þennan hátt hafa Þingvellir verið notaðir til þess að gera hróður landsins meiri, með því að sýna tignum gestum þann sóma að leyfa þeim að búa þar. Og ég hefi séð það á blaðagreinum eftir þessa menn, að þeir hafa metið mikils þann heiður og velvild, sem þeim var með þessu sýnd, og ég get sagt það hér, að ég hefi nýlega sem formaður Þingvallanefndar fengið bréf frá útlendu skáldi, sem þar hefir dvalið, þar sem spurt er: Mætti ég gefa öll mín verk í góðu bandi í bæinn á Þingvöllum sem þakklætisvott til íslenzku þjóðarinnar fyrir þann heiður, er hún hefir sýnt mér sem gesti sínum? — Ég hefi unnið að því, að vísindamenn tækju sér aðsetur á Þingvöllum, og ég hefi átt tal um það við bankastjórnirnar, að fjármálamenn, sem hingað koma, tækju sér þar dvöl.

Ég verð að hryggja hæstv. ráðh. með því, að allar þær bollaleggingar, sem með till. á að reyna að gera að veruleika, eru brot á þeirri friðunarhreyfingu, sem vakin er um þennan helga stað, nema ef hægt væri að láta prestinn búa á Brúsastöðum eða Kárastöðum, því um leið og farið er að búa á Þingvöllum, þó þar sé hvorki haft sauðfé eða geitur, en auðheyrt, að ætlazt er til, að presturinn stundi þar nautgriparækt, þá er það sýnt, að allt eftirlit með friðan staðarins er búið.

Ég fyrir mitt leyti er ekki á móti því, þó að prestur komi í Þingvallasveitina, en ég sé enga nauðsyn þess. Það er séð fyrir kirkjulegum þörfum þess fólks, er þar býr, og ef presturinn yrði settur á Þingvöll, þá mundi honum líðast að leika hinn helga stað jafngrátt og hann var leikinn, áður en friðunin komst á, alveg eins og þeim ágætu mönnum með samskonar skoðanir og stuðningsmenn „Bjarma“ leiðst það á sínum tíma að halda Þingvöllum í slíkri niðurníðslu, að erlendir gestir, sem meira höfðu til að bera af listasmekk og tilfinningu fyrir sögulegum verðmætum heldur en góðgirni til Íslendinga, skemmtu sér við það að taka myndir og gefa út póstkort af þessum stað, til þess að sýna eymd og niðurlægingu hans og þeirrar þjóðar, er þannig gleymdi vöggu þingræðisins.

Ég veit ekki til, að nokkurt kirkjulegt tímarit hafi komið með ósk um það, að Þingvelli ætti að búa svo út, að af því væri sómi og heiður, að umbúðirnar væru eins og hið góða innihald, sem ég veit, að hv. þm. álítur, að þar eigi að vera.

Ég vil þess vegna leyfa mér að halda því fram, að þann dag, sem þing eða stj. byrjar aftur á því að leggja Þingvelli undir búskap og það eftirlitsleysi, sem þar áður var, þá sé búið að brjóta niður það starf, sem unnið hefir verið til verndunar Þingvöllum.

Ég vil sérstaklega segja það við hinn vitra kirkjumrh. (ÞBr), og segi það í fullri alvöru, þó að mér finnist, að honum hafi skjátlazt í þessu efni, að þó að honum í góðri meiningu takist að breyta þessu, þá er spá mín, að það standi ekki lengi.

Það er orðin svo sterk alda á bak við Þingvelli, að það tekst aldrei að gera þá að því, sem þeir áður voru.