26.05.1933
Efri deild: 81. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 284 í D-deild Alþingistíðinda. (2425)

195. mál, Þingvallaprestakall

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég þarf ekki að eyða löngum tíma til að svara hæstv. atvmrh. Ég vil aðeins þakka honum fyrir hans vinsamlegu undirtektir og góða meðferð þáltill., sem ég hefi borið hér fram. Hann hefir játað því, að söfnuðir prestakallsins hafi farið fram á, að aftur yrði settur prestur á staðinn, og viðurkennir fyllilega þessa réttmætu kröfu og lýsti einnig yfir því sem sínu áliti, að kirkjustjórnin hefði það mikil ráð yfir prestssetri Þingvallaprestakalls, að þar gæti prestur setzt að hvenær sem væri. Ennfremur tók hæstv. ráðh. mjög líklega í þá uppástungu mína eða þau orð mín, að viðkunnanlegra væri, að Þingvallabrauð væri einskonar heiðurssess fyrir heiðursklerka íslenzku þjóðkirkjunnar. En um það þarf vitanlega nýja löggjöf um prestakall Þingvalla, sem ekki liggur fyrir nú. Ræði ég það því ekki frekar. En mér þykir vænt um að heyra af vörum hæstv. kirkjumálaráðh., að honum virðist eins og mér, að þetta vera allvel til fallið. Ég bjóst alltaf við þessum undirtektum frá þessum hæstv. ráðh. — Hann ber fyrir brjósti velferð hinnar íslenzku þjóðkirkju og vill ekki vita þar af nokkurri afturför. Ég er sem sagt afaránægð með það, sem hann hefir hér viðurkennt, það tvennt, sem er aðalatriðið fyrir mér. Hann drap einnig lítið eitt á það, að hann hefði átt tal við Þingvallanefndarmann um málið og að hann væri ekki vonlaus um, að samkomulag fengist um hið eina, sem Þingvallanefnd hefir nokkur umráð yfir, og það eru afnot Þingvallajarðar. Jarðarafnotin eru vitanlega á valdi Þingvallanefndar að vissu leyti, eins og vitað er samkv. þeim l., sem sett voru á Alþ. um það efni. En það er líka allt og sumt, því að um prestakallið er það að segja, að það hefir aldrei verið lagt niður með l., og um prestssetrið yfirleitt stendur í 1. nr. 46 16. nóv. 1917: „Þar sem presturinn hefir hingað til haft ákveðið prestssetur, heldur hann ábúðarrétti framvegis.“ Og ennfremur: „Hreppstjóri hefir umsjón með öllum jörðum, sem liggja í hreppi hans, að undanskildum prestssetrum“. Ég bendi á þetta til þess að undirstrika það, að fullskýr lagafyrirmæli séu fyrir því, að prestssetrið og prestakallið sé undanþegið umsjón Þingvallanefndar. Mig furðar á því, úr því svo er málum háttað, að kirkjustj. skuli þá ekki hafa fundið ástæðu til að heyra bænir safnaðanna, sem munu á mjög eindreginn hátt hafa látið í ljós skoðanir sínar. Og mig furðar einnig á því, að ekki skuli hafa verið tekið tillit til þessa ákveðna vilja, sem aðalfundur Prestafélags Íslands lét í ljós seinasta sumar á Þingvöllum, þar sem fundurinn samþ. eindregna áskorun til ríkisstj. um, að hún hraðaði því að veita prestakallið á Þingvöllum. Ég ætla að vona, að úr því svona er komið, þá láti kirkjustj. það ekki dragast alllengi úr þessu að taka til greina vilja þeirra manna, sem þarna eiga fyrst og fremst hlut að máli, en það eru söfnuðir prestakallsins. Vænti ég þess fastlega, að Þingvallanefndin, sem hefir umráð yfir afnotum jarðarinnar á Þingvöllum, sýni fulla sanngirni í samningum við kirkjustj. og komi þar fram sjálfri sér til sóma, og að ekki verði erfitt fyrir ríkisstj. að fá bújörðina sem óskertasta í hendur prestinum, þegar þar að kemur. Annars vil ég halda því fram sem minni skoðun, að ég álít, að kirkjustj. þurfi engan samning að gera við Þingvallanefnd um þetta mál, því að prestssetrið og prestakallið er ekki undir hennar yfirráðum, og hygg ég, að kirkjustj. hafi nægileg ráð til þess, ef hún vill, að bæta prestinum þann skaða, sem hann biður sökum þeirrar skerðingar, sem varð á jörðinni, vegna þess að taka þurfti af landi hennar til almenningsþarfa, vegna þjóðgarðshugmyndarinnar og friðunarstarfseminnar á Þingvöllum. Þar að auki mætti bæta prestinum þann tekjumissi, sem af þessu leiðir að öðru leyti, með því að fela honum að einhverju eða öllu leyti umsjón staðarins og gjalda honum fyrir það þóknun eftir samkomulagi. Vera má, að það sé um of, að prestur staðarins hafi algerlega á hendi umsjónina, sérstaklega að sumarlagi, en þá eru dæmin til þess, að til Þingvalla hefir verið sendur maður til gæzlu og mun öll umsjónin hafa farið fram á þann hátt á árunum 1921-1924. Var til þess valinn barnakennari úr Reykjavík. Ég vil því halda því fram, að hið stóra atriði í málinu sé ekki samningurinn við Þingvallanefnd um jarðarafnotin, heldur þetta, að kirkjustj. noti þau ráð, sem fyrir hendi eru, til þess að bæta prestinum það, að bújörðin hefir misst töluvert af ágæti sínu. Hefi ég þegar bent á leið til þessa, hvort sem öðrum finnst hún fær eða ekki. Og ég vil enn benda á aðra leið, sem mér finnst ekki fjarri lagi, en það er, að presturinn hefði einhverskonar fræðslustörf með höndum — ungmenna eða fólksins yfirleitt —, því að í þessum góðu húsakynnum er það mjög á hinum yndislega stað vel til fallið að fara með fræðslustörf. Ég held því, að þetta mál þyrfti ekki að stranda á samningaundirtektum við Þingvallanefnd. En ef endilega verður álitið, að á því þurfi að halda, þá er nauðsynlegt, að gott samkomulag fáist um það á báðar hliðar.

Ég læt þá útrætt um þessa hlið málsins og sný mér að hv. 5. landsk. Hann hélt hér alllanga ræðu í fyrradag og kom nú lítið nálægt efni því, sem hér liggur fyrir til umræðu. Verð ég því fyrir fram að biðja d. afsökunar á því, þótt mín ræða sem svar til hans fari þá nokkuð út fyrir það aðalefni, sem hér er á dagskrá. — Hv. þm. hóf mál sitt á því að tala um fákænsku mína í þessu máli og eyddi alllöngum tíma til þess að bera mér það á brýn, að ég væri hér með árás á friðunarstarfið, ég vildi færa allt til verri vegar og koma Þingvöllum í sama tortímingarástandið sem verið hefði fyrir aðgerðir prestanna og þess stjórnmálaflokks, sem ég tilheyri. Þennan fagra tilgang minn rakti ræðumaður allýtarlega og kom víða við, og fléttaði mörgu inn í ræðu sína., sem kom málinu alls ekkert við. En mér hefir verið sagt af kunnugum mönnum, að það sé nú vani þessa hv. þm. að tala sem minnst um sjálft málið, sem fyrir liggur, en þvæla úr einu í annað. Og þeir, sem harðast urðu fyrir barðinu á hv. þm., voru auðvitað prestarnir. Þess vegna skil ég það, eftir því áliti, sem birtist í ræðu hans á starfi þeirra á Þingvöllum, að fyrsti þáttur friðunarstarfsins hlaut að verða sá, að láta prestinn víkja. Sjálfur hefir þessi hv. þm. sagt í ræðu um prestakallsmálið á Þingvöllum, sem lá hér fyrir 1928, að „því einu á að útrýma, sem staðnum er til tjóns og óvirðingar“, og ekki hefir borið á öðru meir, sem útrýmt hefir verið, en einmitt prestinum, a. m. k. mest um það talað. Mér dettur auðvitað ekki í hug að efast um, að hv. þm. hafi miklar mætur á Þingvallastað og vilji fegra hann og friða, og ég hefi meira að segja heyrt hann sjálfan minnast á það, að það væri mjög vel við eigandi að byggja á Þingvöllum veglega kirkju. En hvers vegna lét þá ekki þessi hv. þm., á meðan hann hafði aðstöðu til þess, kirkjubygginguna sitja fyrir því að rífa íbúðarhús síra Guðmundar Einarssonar, sem hann hafði fengið 5000 kr. lán til að byggja? Heldur reisti á staðinn 70 þús. kr. hús, þar sem ekki virtist nein brýn þörf á byggingu í bili. Því þá ekki langtum heldur að byggja kirkju? Hún hefði ekki þurft að kosta 70 þús. kr. Ég geri lítið úr þeim ráðagerðum, sem ekki fylgir meiri alvara en þetta. — Hv. þm. lagði mikið upp úr því, að útlendir ferðamenn hefðu verið að koma á þessa staði og taka myndir af bænum, til þess að sýna í öðrum löndum, sem merki þess, hve íslenzk prestssetur væru burðug, og þá ekki sízt á þessum stað. En myndu þá þessir menn ekki með sínar myndavélar geta staðnæmzt hjá kirkjuskriflinu, sem nú sýnist ennþá ljótara og lágkúrulegra en áður við hliðina á þessu nýja fína húsi? Enn í dag geta þeir borið þann vott um íslenzkan amlóðahátt út um löndin. Heldur þá hv. þm. ekki, að þeir hefðu enn getað tekið myndir af kirkjunni til þess að sýna, hve vel er búið að guðshúsinu á þeim stað, þar sem kristni landsins var lögtekin? Og það geta þeir gert enn í dag. Hefði hann notað aðstöðu sína sem ráðh., þá hefði guðshúsið á Þingvöllum mátt líta öðruvísi út og vera honum og þjóðinni til sóma, og fremur séð í gegnum fingur við allt byggingarbrask þessa hv. þm. á meðan hann var ráðh., og þann gífurlega kostnað, sem af því leiddi.

Þá fór hv. þm. að tala um síra Matthías Jochumsson og sálmabókina og hve kirkjan hefði farið illa með síra Matthías. Mér er ekki kunnugt um, að kirkjan sem heild hafi nokkurntíma farið illa með þennan mæta mann, hvað sem hann kann að hafa átt í brösum við einstaka menn. Það eru flestir, sem lenda einhverntíma í einhverju slíku, sérstaklega þeir, sem starfa á opinberum svæðum þjóðfélagsins. Það kemur ekki kirkjunni við. — Þá minntist hv. þm. á, að hann hefði ekki einu sinni fengið sálma sína inn í sálmabókina! Veit þá hv. þm. ekki, hvað hann á þar marga sálma, og veit hann ekki, að síra Matthías var kjörinn einmitt af hálfu kirkjunnar í sálmabókarnefndina og vann þar í átta ár? Ég vil segja hv. þm. það ennfremur, að meðan séra Matthías Jochumsson bjó hér í Reykjavík mun hann hafa stundað verk sín með sóma sem sálmabókarnefndarmaður, en eftir að hann fluttist að Odda 1881, mun hann frekar hafa slegið slöku við það starf, og það af eðlilegum ástæðum, þar sem hann hafði þar miklu verri aðstöðu, langt í burtu frá meðnefndarmönnum sínum. Hver einasti sálmur, sem síra Matthías kom með til nefndarinnar var tekinn í sálmabókina, nema einn, og það var af því, að hann sjálfur óskaði eftir, að hann væri ekki birtur. Þetta var nú öll ósanngirnin, sem þm. varð svo skrafdjúgt um. Annars verð ég að taka það fram, að þetta mál, um sálma Matth. Joch., er álíka skylt þáltill. eins og t. d. K. F. U. M. í Ameríku, þótt honum kæmi til hugar að blanda því saman í ræðu hér í deildinni.

Þá sagði hv. þm., að vel væri séð fyrir kristilegri þörf safnaðanna með þeirri prestþjónustu, sem þeir nú hafa. Mér dettur ekki í hug að efast um ágæti þessara tveggja presta, sem nú þjóna Þingvöllum; langt frá því. Þeir eru báðir ágætir menn og sjálfsagt vel vaxnir starfi sínu, en ég verð að segja, að hv. þm. getur ekkert um það borið, hvort sú prestsþjónusta, sem hann hefir útvegað þessu prestakalli, fullnægir hinni kristilegu þörf safnaðanna; um það getum við hvorugt, ég eða hv. þm., dæmt. Við rannsökum hvorki „hjörtun eða nýrun“. Ennfremur sagði hv. þm., að það væri hægðarleikur að þjóna Þingvöllum frá Mosfelli. Það getur verið að sumarlagi, en ég held, að síra Hálfdán sé ekkert öfundsverður af vetrarferðum sínum til Þingvalla. Þær geta orðið býsna örðugar, þegar vond er færð og illa viðrar.

Það segir sig sjálft, að það fólk, sem á annað borð vill hafa prest, kýs heldur að hafa prestinn nálægt sér, innan sóknarinnar, heldur en í öðrum prófastsdæmum. Hv. þm. talaði um „kulturleysi“ prestanna. Í þessu sambandi vil ég minna háttv. þingmann á, að prestsheimilin voru til skamms tíma, eins og öllum er kunnugt, aðalmenningarstöðvar þessa lands. Prestsheimilin íslenzku voru skólar fyrir alþýðufólkið, meðan ekki var völ á skólamenntun nema að sáralitlu leyti. Voru það kannske ekki prestarnir, sem alloftast bjuggu unglingana undir skóla? Prestsheimilin voru griðastaður, þar sem hver safnaðarlimur var velkominn. Þangað var leitað í gleði og sorg, þar var leitað ráða í hverskonar vandræðum. Því segi ég það, að þegar sóknarmenn eru sviptir slíku heimili, þá eru þeir miklu sviptir. Ég þori að segja, að prestarnir á Þingvöllum hafi ekki verið neinar undantekningar í þessum efnum. Þar hafa verið mann fram af manni valinkunnir sæmdarmenn, svo að safnaðarfólkinu er mikill söknuður að slíkum mönnum og bregður við þegar slíkt heimili leggst niður. Enda mun safnaðarfólkinu í Þingvallaprestakalli hafa brugðið við æðimargt, og ekki átt því að venjast, að hreppsnefndin væri krafin um þóknun fyrir kaffiveitingar handa kirkjugestum; en það mun umsjónarmaður Þingvallanefndar hafa leyft sér að bjóða söfnuðinum upp á. Ef einhver vill bera brigður á þessi orð mín, get ég ofurvel birt bréfið, sem Guðmundur Davíðsson skrifaði hreppsnefndinni í Þingvallasveit, og fór fram á 50 kr. þóknun fyrir kaffi handa kirkjugestum. Mér fannst nú skörin fyrst færast upp í bekkinn, þegar hv. þm. fór að tala um sparnað. Fyrst og fremst hefir mér ekki þótt þessum hv. þm. vera sérlega laginn neinn sparnaður, hvorki á Þingvöllum eða annarsstaðar. Þegar hann fór að tala um, að þessi ráðstöfun á Þingvöllum væri gerð af sparnaðarástæðum, þá ofbauð mér alveg. Hv. þm. minntist á, að umsjónarmaðurinn á Þingvöllum hefði venjuleg barnakennaralaun. Þetta er alls ekki satt. Það eru engin meðalbarnakennaralaun, sem umsjónarmaðurinn á Þingvöllum hefir. Barnakennararnir okkar fá fæstir 350 kr. á hverjum mánuði, auk allskonar fríðinda. Barnakennararnir okkar verða sannarlega að vinna fyrir sínu kaupi. Þeir fá enga aukaborgun fyrir aukaverk sín. Til þess að skýra þessi orð mín get ég tekið til dæmis, að það er ekki lengra en síðan 22. des. síðastl., að það varð að borga aukreitis fyrir að setja bátinn Grím Geitskó í hús. Ég held, að þetta hafi kostað nærri því 400 kr. Ég veit ekki, hvort þessi umsjónarmaður á að inna aukastörf af hendi, en mér finnst það liggja í hlutarins eðli, að hann hefði átt að aðgæta, að báturinn eyðilegðist ekki á vatninu. Annars skil ég ekki, að þörf sé á neinum barnakennara til þess að vera umsjónarmaður þarna á Þingvöllum. Ég hefi þekkt margan ágætan smala, sem hefir verið ágætur til þess að reka úr girðingum hesta og kindur, þó hann hefði ekki gengið í kennaraskólann. Það þurfti engan barnakennara til þess. Hitt er annað mál, ef barnakennarinn hefði verið notaður til þess að kenna börnum, þegar lítið var að gera og ekkert fé í girðingunum. En ráðsmennskunni er ekki svo viturlega hagað, að það sé gert! Annars gæti ég lofað hv. þdm. að heyra, í hverju sparnaðurinn, sem hv. þm. talaði um, er fólginn.

Umsjónarmaðurinn hefir 4200 kr. laun á ári. Hann hefir frí kol, 71/2 tonn, og það kostar 12 kr. undir hvert tonn austur að Þingvöllum. Hann hefir fría steinolíu og fría íbúð. Hvers virði myndu hv. þdm. meta íbúðina í nýja fína sjötíu þúsund króna húsinu á Þingvöllum? (JakM: 7 þús. kr. metur skattanefnd það). Það var gott að fá þær upplýsingar. Þegar þar við bætist prestsþjónusta, sem verður að kaupa aukreitis við allt þetta, þúsund kr. til hvors prests, þá finnst mér ekki hægt að segja, að þetta sé sérlega mikil sparnaðarráðstöfun frá venjulegu búmannssjónarmiði. Ég hefi bent á, að það mætti láta prestinn bæta við sig umsjónarmannsstarfinu fyrir einhverja þóknun, og ég hefi sýnt fram á, að með þeirri tilhögun hefði sparazt á ári hverju ekki svo lítil fúlga. En það er annað, sem einnig hefði sparazt, og það er sannarlega meira virði heldur en nokkrar krónur, það hefði sparazt ósátt og illindi á meðal safnaðarfólksins og umsjónarmannsins. Það er opinbert leyndarmál, að þar logar allt í ófriði, af því að fólkinu líkar svo illa við umsjónarmanninn. Þetta veit hv. 5. landsk. ekki síður en ég, að er satt.

Þá minntist hv. þm. á útlenda heiðursgesti, sem hefðu dvalið á Þingvöllum á ríkisins kostnað. Hann taldi það þýðingarmikið menningaratriði fyrir okkar þjóð, að n. gæti fengið að ráða því, að í þessum húsakynnum mættu menn annara þjóða njóta gestrisni. Ég vil taka það fram, að ég lasta það ekki, að landið taki vel og risnulega á móti því fólki, sem það á skilið, en ég tel það varhugaverða ráðstöfun að láta privatmenn eins og hv. 5. landsk. veita gestum á ríkisins kostnað þann beina, sem honum sýnist. Ég álít, að þegar um heiðursgesti sé að ræða, sem koma hingað á landsins vegum, þá sé það ríkisstj. ein, sem eigi að taka á móti slíkum mönnum og ráðstafa þeim, meðan þeir dvelja hér á landi. Ég skal ekki segja, eftir hvaða reglum Þingvallanefnd vinnur sín störf, en ég þykist sjá, að þetta geti valdið óþægindum. Við skulum segja, að einn maður væri boðinn af hæstv. dómsmrh., annar af hv. 2. landsk. og þriðji af hv. 5. landsk. Ætli það gæti ekki rekizt á? (JBald: Það er góð samvinna í n.). Ekki betri en það, að mér hefir verið sagt, að þetta hafi rekizt á einu sinni, ef ekki tvisvar. Ég tel það mjög óhyggilega og illa stefna í fjármálum að fela privatmönnum, enda þótt þeir séu kosnir af Alþingi, fjárveitingarvald utan fjárlaga og utan Alþingis. Ég sé ekki, að það nái nokkurri átt. Í þessu sambandi er vert að láta þá ósk sína í ljós, að Þingvallanefnd legði öll sín plögg á borðið og sýndi hv. þm., hverju hún hefði eytt til starfsemi sinnar á Þingvöll

um. Menn eiga heimting á að fá að vita þetta, fyrst og fremst þm. og svo öll þjóðin. E. t. v. er það aðeins lítill hluti af því fé, sem farið hefir forgörðum í allskyns bruðl og brass, en eigi að síður er það skylt, að almenningi sé gefinn kostur á að kynnast því, hvernig forráðamennirnir fara með eigur þjóðarinnar.

Hv. 5. landsk. hélt loks ræðustúf um Sigrid Undset. Hann minntist á hana sem einn heiðursgestinn, sem hefir dvalið á Þingvöllum. Ég þarf ekki að spyrja hv. þm. um, hverja tegund skáldsagnagerðar Sigrid Undset leggur aðallega stund á. Hann veit, að það eru fornsöguleg fræði, ekki síður kirkjuleg en veraldleg, og færir þau í búning skáldsagnalistar og snilldar. Heldur þá hv. þm., að Sigrid Undset hefði verið nokkur ógreiði gerður, þó að hún hefði fengið að tala um slík áhugamál sín við prestslærðan mann á þessum stað? Svo var þó helzt að heyra á hv. þm., að skáldkonunni hefði ekki orðið vært á staðnum, ef prestur hefði verið þar. Vera má, að ég hafi misskilið þm., en þannig komu orð hans mér fyrir eyru. — Það var svo margt, sem hann drap á, að það er varla, að ég geti eltzt við það allt. Hv. þm. minntist á „fylliskríl“, sem myndi verða erfiður viðfangs fyrir prestinn. Það var á honum að heyra, eins og það væri eitt aðalviðfangsefnið fyrir prestinn að berjast við þessa fyllirafta. Ég verð að segja, að mér finnst það sitja illa á þessum hv. þm. að fara mjög hörðum orðum um „fylliskríl“, þar sem hann hefir einmitt gert sitt til þess að fjölga þessháttar fólki í Þingvallasveitinni, með því að hlutast til um að byggja stærðarhús yfir stærðarbruggara í Svartagili. — Ég get svo látið útrætt um þetta að sinni, en vil að lokum mæla harðlega á móti því, að ég hafi ráðizt á friðunarstarfið á Þingvöllum með þáltill. minni. Ég verð að segja, að sá staður er mér allt of dýrmætur til þess, að ég vilji í nokkru hnekkja sóma hans og áliti. Hv. þm. getur ekki sannað það, að ég hafi nokkru sinni gert nokkurn skapaðan hlut til þess að skerða eða spilla friðun Þingvalla. Slíkur áburður frá þm. í þingsæti er í raun og veru vítaverður og verður ekki dæmdur nema á einn veg. Ég hefi engu haldið fram öðru en því, að Þingvallastað væri enginn ósómi sýndur, þó að þar fengi að vera prestur. Allt og sumt, sem ég fer fram á í þáltill. minni, er það, að réttur safnaðanna, sem hefir verið fyrir borð borinn, fáist aftur og að bænir þeirra manna og kvenna austur í Þingvallasveit, sem hafa skrifað ríkisstj. og beðið hana um prest aftur, verði heyrðar og óskir þeirra verði uppfylltar. En sé því ekki, að ég þurfi í raun og veru að segja neitt annað en þetta. Ég hefi borið fram þessa þáltill. í því trausti, að þarna náist leiðrétting mála, sem í raun og veru þyrfti að vera búið að leiðrétta fyrir löngu. Það er nú allt og sumt. Ég hefði aldrei farið að minnast nokkurn skapaðan hlut á umsjónarmann þann, sem nú gegnir því starfi, ef hv. 5. landsk. hefði ekki gefið mér fullkomið tilefni til þess. Hann má því sjálfum sér um kenna, ef ég hefi sagt eitthvað af því, sem hann hefði viljað, að ósagt hefði verið.