29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 304 í D-deild Alþingistíðinda. (2429)

195. mál, Þingvallaprestakall

Atvmrh. (Þorsteinn Briem):

Það eru nú komnar allmiklar umbúðir utan um þetta mál hér í umr. Út í þær ætla ég ekki að fara. Ég ætla hvorki að fara að ræða um kaffibolla á Þingvöllum eða norður á Langanesi, né koma inn á önnur óskyld atriði, sem dregin hafa verið inn í þessar umr.

Það, sem hér skiptir máli, er það, að Grímsnespresturinn er orðinn það fullorðinn maður, að búast má við, að hann innan skamms tíma verði ekki lengur fær um að bæta á sig fimmtu kirkjusókninni, því að þar er líka um að ræða erfiða leið, þar sem snjóþyngsli eru mikil á vetrum. Arnarbælisprestur er líka orðinn roskinn maður og mundi ekki verða hægt að ætla honum þjónustu Úlfljótsvatnssóknar. En þegar svo er komið, að hvorugur nágrannapresturinn getur tekið að sér þjónustu þeirrar sóknar, þá tel ég ófært að veita ekki Þingvallaprestakall, með því líka, að áskoranir hafa komið um það frá íbúum beggja sóknanna. Það er hinsvegar fráleitt að ætla Þingvallapresti lakari kjör og aðstöðu en öðrum prestum í sveit. Og þarf hann því að hafa nokkur jarðarafnot. Ég tók það fram í fyrri ræðu minni, að til þess að prestur gæti fengið aðgang að nokkrum jarðarnytjum á Þingvöllum, þyrfti að komast á samkomulag við Þingvallanefndina. Ég skal taka það fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, að þar á ég ekki við, að presturinn eigi að fá heimild til að stunda sauðfjárrækt inni á friðlýsta svæðinu eða beita 20 kúm í skóginn eða gera nokkuð það, sem raskar friðun staðarins, enda mætti setja honum ströng skilyrði um það efni. Hitt þætti mér sjálfsagt, að presturinn fengi afnot af því ræktaða landi, sem á staðnum er. Tel ég það friðuninni meinlaust og ekkert í veginum, að heyið sé notað þar heima, í staðinn fyrir að flytja það burt af jörðinni, eins og nú er gert.

Viðvíkjandi beitilandi er það að segja, að ég geri ekki ráð fyrir, að presturinn þyrfti að hafa stórbú. Um annað en kúabú væri ekki að ræða, og þó hann hefði einar 4 til 5 kýr til heimilisþarfa, sé ég ekki annað en komast mætti að samkomulagi um afmarkaðan bithaga fyrir þá gripi. Tel ég víst, að rækta mætti bæði til heyframleiðslu og beitar á efri völlunum, og ætti Þingvallanefnd að geta fallizt á, að þá mætti girða af í því augnamiði. Vænti ég þess því fremur, þar sem ég sé það í þingtíðindum frá þeim tíma, er lögin um friðun Þingvalla voru sett, að núv. form. Þingvallanefndar, hv. 5. landsk., hefir sjálfur haldið því fram, að reka mætti kúabúskap í allstórum stíl á jörðunum innan hins friðlýsta svæðis. Það kemur fram, að hann gerir þá ráð fyrir kúabúi á Þingvöllum og talar um, að mjólkursala geti orðið auðveld til Reykjavíkur, þegar nýi Þingvallavegurinn sé kominn um Mosfellsdalinn.

Sem sagt virðist þetta ekki vera mjög erfiður hnútur að leysa frá mínum bæjardyrum séð. Vænti ég, að þegar menn athuga þau skilyrði, sem hægt er að setja prestinum um afnot landsins, án þess að friðun staðarins sé í nokkru spillt, þá þurfi þetta mál ekki að verða erfitt úrlausnar, ef sanngirni er gætt á báðar hliðar.

Viðvíkjandi því, ef presturinn þyrfti að gera eitthvert jarðrask eða byggingar, þá væru lögin vitanlega eftir sem áður í gildi, því að að sjálfsögðu má hvorki prestur né annar spilla staðnum á nokkurn hátt. Yrði prestur að haga byggingunni í samráði við ráðuneytið, sem vitanlega tæki fullt tillit til álits Þingvallanefndar og tillagna hennar. Vil ég ekki trúa því að óreyndu, að ekki megi finna góðan samkomulagsgrundvöll. Hitt sé ég aftur á móti ekki, ef Grímsnespresturinn hefir ekki heilsu til að þjóna fimmtu sókninni, hvernig á með hana að fara, ef ekki kemur prestur í Þingvallakall. Því að eins og ég sagði áðan, er Arnarbælispresturinn líka orðinn roskinn maður, og hefir margar kirkjur fyrir, þar á meðal mjög erfiða annexíu, þar sem er Selvogurinn. Og sé góður prestur valinn til Þingvalla, mun það ekki verða margra manna mál, að hann sé staðnum til óprýði eða rýri þá helgi, sem á að vera yfir Þingvöllum sem friðlýstum helgistað þjóðarinnar.