31.03.1933
Neðri deild: 41. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

1. mál, fjárlög 1934

Steingrímur Steinþórsson:

Sjálfur á ég enga brtt. við frv. og mun ekki þreyta hv. d. með því að fara að tala um brtt. einstakra þm., en mun láta nægja að sýna með atkvæði mínu afstöðu mína til þeirra. En ég hefi hér erindi að reka fyrir hv. þm. Barð., sem er veikur og getur því ekki komið hingað sjálfur til þess að mæla fyrir till. sínum. Hann á 4 brtt. við fjárl., en biður mig fyrir þau skilaboð, að hann taki aftur til 3. umr. 3 af þeim. Þær eru á þskj. 296, undir tölul. XXIX, XLVII og XLIX, en þá 4., sem er að finna á sama þskj. undir tölul. L, vill hann ekki taka aftur nú við þessa umr. Hún felur í sér heimild, 22. gr. II. Nýr liður: „Heimild fyrir ríkisstj. til að kaupa læknisbústað Reykhólalæknishéraðs á Reykhólum ásamt lóð og öllu tilheyrandi, við því verði, er skuldir þær nema, er á eigninni hvíla, þegar kaup fara fram“. Grg. fyrir þessari till. hefir hv. þm. beðið mig með leyfi hæstv. forseta að lesa upp hér í deildinni. Grg. er hér í bréfsformi, stíluðu til fjvn.:

„Alþingi, 14. marz 1933.

Með skírskotum til samtals við hina heiðruðu fjárveitinganefnd leyfi ég mér hér með að senda henni bréf frá hreppsnefnd Reykhólahrepps til mín., dags. 17. f. m., með tilmælum um, að nefndin taki til greina þær óskir, sem fram koma í bréfinu, sem sé:

Leggi til, að ríkissjóður yfirtaki læknisbústaðinn á Reykhólum með áhvílandi veðskuldum, sem um síðustu áramót námu kr. 20548,27, og öðlist jafnframt öll réttindi með bústaðnum. Bústaðurinn kostaði um kr. 40000,00, og lagði ríkissjóður fram kr. 11700,00. Í héraðinu eru aðeins ca. 500 íbúar, og má því nærri geta, að slíkur fjárhagsbaggi sem þessi er héraðinu algerlega ofviða. Einn hreppurinn af þremur hreppum héraðsins, Geiradalshreppur, hefir lagt fram sinn hluta, en hinir tveir, Reykhólahreppur, ca. 250 íbúar, og Gufudalshreppur, ca. 150 íbúar, standa einir undir þeim veðlánum, sem á hvíla (20548,27). Hinn síðarnefndi er algerlega fjárþrota, fékk 1930 bjargráðasjóðslán, kr. 5000,00, á eingöngu fátæklinga að gjaldendum og getur nú engan þátt tekið í skuldabyrðinni. Stendur Reykhólahreppur því raunverulega einn undir byrðinni. Af þessu er ljóst, að engar líkur eru til, að héraðið geti staðið undir skuldabyrði læknishústaðarins. Sýslufélagið, sem er sérstaklega lítið (um 900 íbúar) og vanmáttugt, getur ekkert hlaupið undir bagga, og því ekki í annað hús að venda um hjálp en til ríkissjóðs. Hinsvegar ekki um raunverulega þungan bagga að ræða fyrir ríkissjóðinn, þótt hann taki á sig bústaðinn fyrir veðskuldinni, er nemur 20 þús., og eignist 40 þús. kr. eign fyrir.

Þess skal getið, að bæði Gufudalshreppsbúar og Reykhólahreppsbúar hafa á almennum fundi hreppsbúa skorað á Alþingi að verða við kröfunni um yfirtöku læknisbústaðarins. Tek ég hér með upp fundarsamþykkt Reykhólahreppsbúa í þessu efni:

„Fundurinn skorar á Alþingi og ríkisstjórn að láta ríkið taka að sér læknisbústað Reykhólalæknishéraðs til eignar og rekstrar (sjúkraskýlið), með öllum þeim fjárkröfum, sem á honum hvíla, sem og þeim réttindum, sem honum fylgja“.

Bréf frá oddvita Reykhólahrepps til mín fylgir einnig hér með.

Virðingarfyllst

Bergur Jónsson.

Til fjárveitinganefndar neðri deildar Alþingis“.

Skal ég svo ekki hafa fleiri orð um þetta, en vona, að hv. d. láti þm. ekki gjalda þess, að hann var þess ekki megnugur að koma hingað sjálfur til þess að mæla fyrir till. sinni, en líti á nauðsyn þess að létta undir með þessum fátæku hreppum til þess að standa straum af læknisbústað sínum, sem er þeim algert ofurefli eins og nú standa sakir.