29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 318 í D-deild Alþingistíðinda. (2436)

195. mál, Þingvallaprestakall

Jónas Jónsson [óyfirl.]:

Þetta, sem hæstv. dómsmrh. sagði um, að nefndin hefði ávallt framkvæmt sínar fyrirætlanir gegn hans vilja, skýrir alveg tilætlunina með till. og það, sem bak við hana liggur, nefnil. að hans flokkur hefir ávallt verið mótfallinn friðuninni, og þessi þáltill. er aðeins einn liðurinn í því að vinna á móti friðuninni. Hæstv. kirkjumrh. sagði, að erfitt væri fyrir prestinn á Mosfelli að þjóna líka á Þingvöllum. Presturinn hefir ekki svo ég viti kvartað undan því að sér væri á nokkurn hátt ofþyngt með þessu. En hinsvegar var alltaf gert ráð fyrir því, að presturinn að Arnarbæli þjónaði þarna.

Út af því, sem haldið hefir verið fram um hann við nautpeningi í Skógarkoti, vil ég upplýsa, að það er ekki lögbannað því að þingið vildi frekar halda aftur af þessari friðunarstarfsemi, en hinsvegar hefir nefndin gert samning eða samkomulag við bændurna, að þeir fjölguðu ekki nautpeningi, því að það er álitið hættulegt, að geldfénu fjölgi. Nú hagar svo til, að túnastærðin gerir það fyllilega kleift að hafa þarna stór kúabú, en það eina, sem barizt hefir verið fyrir, er að koma meiri nautpeningi á Þingvelli, og það er sannarlega ekki í anda friðunarlaganna, og árangurinn er auðséður hverjum þeim, sem á staðinn kemur, allt eytt og skemmt af völdum aukinnar beitar stórgripa.

Hæstv. kirkjumrh. minntist ekki á greiðann, sem ég gerði kirkjustj. með því að sjá um, að Arnarfell yrði ekki byggt, ef í ráði væri að gera það að prestssetri. Þessi skoðun var líka vel rökstudd af hv. 2. þm. Árn., er hann sagði, að vel mætti leysa þetta prestsspursmál með hinni litlu og fallegu jörð. Út af dagskrártill. hv. 2. þm. Eyf. vil ég geta þess, að þótt hún vísi málinu frá og felli það þar með, þá vil ég helzt fella það hreinlega, og greiði því atkv. á móti. En hinsvegar vil ég fúslega bjóða hæstv. stj. mína samvinnu til þess að þetta mál verði leyst á sæmilegan hátt, til þess að ekki vakni upp aftur gömlu deilurnar um ábúðina.

Hv. 6. landsk. gat auðvitað ekki hrakið það, að engar ytri menjar er að sjá á Þingvöllum eftir prestana þar, annað en þessi tré, sem ég var að hrósa næstsíðasta presti fyrir að hafa gróðursett. En hv. þm. veit vel, að bæði í Skálholti og á Hólum eru allar slíkar menjar þurrkaðar burt, og það er ekki nema sögulegri vanþekkingu hv. þm. um að kenna, að hann skilur ekki, að þarna eru engar fallegar kirkjur, engin falleg minnismerki eftir miðaldakirkjuna að finna. Hinsvegar er þarna allur gróður eyðilagður í kringum stærsta búið, svo að varla verður bætt. Þetta getur hver maður séð, sem stendur á vestri barmi almannagjár og horfir yfir lágina, og það er ekki fyrr en Alþingi tekur málið upp, að farið er að hlúa að staðnum.

Hv. þm. hefir farið langt yfir skammt í þessu molakaffismáli. Hv. þm. veit vel, að hann réðst sjálfur á tilhögun þá, sem einn prestur hafði um veitingu handa kirkjufólki, og því var ekki nema sjálfsagt, að honum væri bent á annan prest, sem jafnillt hafði komið fyrir hjá, ef ekki meira. Hv. þm. veit líka vel, að einn hv. þm., sem sæti á í Nd., sá þetta sjálfur, og í viðræðum milli þessara tveggja hv. þm. hefir það ljóslega komið fram, að báðum er málið jafnkunnugt. Enda hefir hv. 6. landsk. rekið rembihnútinn á sönnunina í þessu máli með hinu langa símskeyti, sem hann las upp hér í deildinni. Það er ákaflega víða hér á landi, að fólki er gefið molakaffi og jafnvel sykurlaust kaffi, og kemur það sér oft vel, ef fólk þarf að halda á sér hita, en hinsvegar hefi ég ekki heyrt um, að nokkursstaðar á bæjum hafi verið fest upp slík auglýsing, sem hér getur um, jafnvel þó að sykurlaust væri um nokkurn tíma.

Þá var hv. þm. mikið að tala um, að ég hefði brigzlað bóndanum á Svartagili með þeim ummælum, er ég viðhafði um, hvernig hann hefði notað sveitarstyrkinn, og að sú árás væri hvorki réttmæt né drengileg. Eins hélt hann því fram, hve mikil hjálp það hefði verið, að maðurinn fór og byggði þetta nýbýli. Nú verður hv. þm. að gæta þess, að þetta er gömul jörð, nýlega lögð í eyði, og ætti því að vita, að ekki þurfti svo mikið til þess. Um fátækrastyrk þessa manns er það að segja, að kunnugir menn halda fast við það, að hann hafi birgt sig upp af þessum vörum, og hv. þm. hefir sjálf leitt þetta mál inn í umr. og viðurkennt, að maðurinn hafi þegið stuðning til þess af fátækranefndinni.

Í svari sínu til hv. 2. landsk. var hæstv. dómsmrh. með einhverja útúrsnúninga, að ekki ætti að friða Þingvelli fyrir prestum. Lögin frá 1928 ganga út á að friða þá fyrir skaðlegum ágangi og eyðslu af völdum fjár o. fl., og meira að segja var þál., sem hæstv. ráðh. er vel kunnugt um, þess efnis, að bannað væri að auglýsa brauðið þegar það losnaði. Og það má telja meiri háttar brot að gera það í banni Alþingis. Ég er alveg á nákvæmlega sömu skoðun um, að Þingvallanefndin sé fullvaldur landsdrottinn á staðnum fyrir ríkisstj. hönd; þess vegna er það alger misskilningur, að ég hafi í nafni stj. boðið gestum eins og Gunnar Gunnarssyni og Sigrid Undset að vera á Þingvöllum, heldur var það sem Þingvallan.maður og í samráði við nefndina yfirleitt. Með þeirri venju í þessum málum, sem Þingvallanefnd hefir komið á, er það óhugsandi, að stj. geti komizt út í það að bjóða gestum, sem ekki eru þess verðugir, til Þingvalla. Stj. verður auðvitað að sætta sig við úrskurð nefndarinnar. Það er alveg að sínu leyti eins og ef hæstv. dómsmrh. væri kirkjumálaráðh. og ætlaði upp á eigin spýtur að fara að ráðstafa prestssetrinu á Glaumbæ í Skagafirði; það gæti hann alls ekki án þess að samþykki þingsins kæmi til.

Hæstv. ráðh. minntist á búskapinn í Hraunkoti. Það er alkunna, að eins mikið var vandað og hægt var til girðingarinnar, og það tók auðvitað langan tíma að koma henni í lag. En þegar því verki var nokkurn veginn lokið, þá leit ég svo á, og nefndin með mér, að ekki væri sanngjarnt að meina þessum tveim mönnum að hafa þar kindur yfir veturinn, sem þeir höfðu heyjað um sumarið, og frá mínu sjónarmiði var heldur ekki um lögbrot að ræða, því að girðingin var ekki nærri fjárheld; þar að auki felst í þessu sú sjálfsagða sanngirni, sem við á að hafa, þegar ný lög eða lagabreytingar koma, að ekki sé strax farið með hörku eftir lagabókstafnum, heldur að menn séu smávandir á að framfylgja þessu og kynnist því. En þegar komið var fram á vorið og bændur höfðu þegið bætur fyrir þetta, þá var ekki til nein afsökun fyrir að brjóta lögin, og alveg sjálfsagt af umsjónarmanninum að kæra yfir því. Enda höfðu þessir menn skrifað undir samninga um að þeir ætluðu að hætta öllum fjárbúskap, en á öðru heimilinu voru þó 100 fjár og á hinu um 200. Nú hafa þessir menn gefið Þingvallanefnd skriflegt loforð, sem þeir undirskrifuðu hér í þinginu, um að láta þetta aldrei koma fyrir aftur, því að þeim er kunnugt, að það varðar sektum. Ég margtók það fram, að ég óskaði eftir því, að þeir yrðu ekki látnir sæta sektum, því að ég hugsa, að þeir hafi ekki grætt svo mikið á þessu, en lögin og samninga þurfti að framkvæma, svo að ekki varð hjá því komizt.

Þessi aths. mín mun vera orðin nokkuð löng, en ég vil þó að endingu geta þess, að lögin frá 1919 um bann við því að auglýsa prestakallið munu vera í gildi enn, og ég álít, að ef kirkjustjórn og Þingvallanefnd er þetta kappsmál, þá sé hægt að leysa það á annan hátt, og greiði ég þess vegna atkv. gegn dagskrártill. En að lokum vil ég aðeins minna hæstv. ráðh. á það, að Þingvallanefnd er kosin til þess að vernda Þingvelli, og er því auðvitað nauðbeygð til þess að halda sér fast við friðunarlögin á meðan þau eru í gildi.