29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 332 í D-deild Alþingistíðinda. (2445)

195. mál, Þingvallaprestakall

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl]:

Ég ætlaði ekki að taka til máls í þessu máli, enda eru umr. þegar orðnar langar og margt kyndugt komið fram, þótt margt mætti segja viðvíkjandi þeim skoðanamun, sem fram hefir komið, og sérstaklega einkennileg orð, sem mér fyndist, að bændur landsins ættu að taka sér til íhugunar síðar meir, en þau eru, að engin vegsumerki sjáist eftir þeirra verk og verði ekki ti1 neinna nota, ef þeir gróðursetja ekki einhver tré í húsagarði sínum. Túnin sýna ekki framtak þeirrar kynslóðar eða ræktun yfirleitt í landinu. A. m. k. kom það berlega fram hjá hv. 5. landsk., að hann lagði ekki mikið upp úr ræktun landsins að öðru leyti en að gróðursetja einhver tré á einhverjum stað. En aðallega stóð ég upp vegna ummæla hv. 2. þm. Árn. Hann minntist á frv., sem ég bar fram snemma á þessu þingi um land, er Hafnfirðingar vildu njóta til ræktunar, og taldi, að ég hefði farið of persónulega í því atriði, nefnt einstaka menn og þar fram eftir götunum. En mér er spurn: Hvernig í ósköpunum var hægt að koma fram með frv. um að taka eignarnámi landspildu, nema að minnast á þá menn, sem hafa landspilduna? Mér er alveg óskiljanlegt, hvernig ég hefði átt að koma fram með frv. á annan hátt. En það, sem gert var persónulega hér í d., var ekki frá minni hálfu, heldur hv. 5. landsk., sem mótmæltu þessu þá. En það, sem er sameiginlegt með frv. mínu og þessari þáltill., er að vita gerðir hv. 5. landsk. í garð skjólstæðinga sinna í trássi við vilja Alþ. Og ef þd. og Alþ. álíta, að þetta sé samboðið þingviljanum, að hafa þetta þannig og láta þessum manni haldast uppi það, sem hann hefir gert, þá ber þingið ábyrgð á því, og er sennilega í augum hv. 2. þm. Árn. þinginu til sóma, að það sé þannig. Það er alveg víst, að hvorki frv. mitt né þessi þáltill. hafa verið of persónuleg frá flytjendanna hálfu, heldur einungis af því, að þarna á maður hlut að máli, sem er mikilsvarðandi og sem stór þingflokkur hefir ekki ennþá viljað sparka í.