29.05.1933
Efri deild: 83. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 333 í D-deild Alþingistíðinda. (2446)

195. mál, Þingvallaprestakall

Flm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég trúi því, sem hv. 2. þm. Árn sagði. Ég veit, að ráð svo mæts manns hljóta að vera mikils virði, og ég vil fegin læra hjá honum hógværð og auðmýkt. Ég á ekki svo mikið af því. En hann hélt því fram, að hann gæti ekki samþ. þessa till. vegna þess, hvað hún væri persónuleg. (HSteins: Af því að hún er ekki flutt af hv. 2. þm. Árn.). Ég skil ekki í hverju það liggur. Honum kann e. t. v. að líka eitthvað illa í grg., en till. sjálf getur ekki verið þm. ógeðfelld, þar sem hann hefir tjáð sig hlynntan því, að þessir sýslubúar hans fái prest að sinni ósk.

Viðvíkjandi því, sem hv. 2. landsk. sagði, að hann vildi áminna mig fyrir hnútur til umsjónarmannsins á Þingvöllum, þá vil ég spyrja: voru það nokkrar hnútur? Hafði þá sannleikurinn í sér fólgnar hnútur? Ég sagði aðeins það, sem satt er um framkomu hans. En annars mun það vera álitamál, hve heppin Þingvallanefnd hefir verið í valinu á umsjónarmanni, og vil ég beina því til Þingvallan., sem nú mun öll vera stödd hér, því að ég álít, að samkomulagið sé þar svo vont, að sú n., sem á að gæta friðar og sáttar á þessu friðlýsta svæði, verði þá að gæta þess að vera ekki sjálf völd að mestu friðspjöllunum á „friðlýsta svæðinu“. Því það á næsta illa við á sjálfum helgistað þjóðarinnar, að þar sé rifrildi og illindi manna á milli eins og þar á sér stað nú.