06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 343 í D-deild Alþingistíðinda. (2470)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Eins og kom fram í ræðu hv. 5. landsk., er nú laust embætti ríkisféhirðis. Því starfi hefir gegnt ágætur maður, sem mikil eftirsjá er að. Ástæðan til þess, að hann hætti starfi sínu sem ríkisféhirðir, var sú, að honum bauðst betur launuð staða í Landsbankanum. Það eru nú orðin 23 ár síðan Landsbankinn hafði ríkisféhirðisstörfin með höndum. Þá neitaði Landsbankinn að hafa þetta lengur á hendi, og var þá fenginn sérstakur maður til starfans, sem þó starfaði undir yfirstjórn Landsbankastjórnarinnar. Það mun hafa verið árið 1918, að ríkið gerði ríkisféhirðisstarfið að sjálfstæðri stofnun. Við það varð að vísu engin önnur breyt. en sú, að kostnaðurinn við starfið greiddist ekki lengur um hendur Landsbankans. 1930 var svo byggt yfir ríkisféhirði eins og margar aðrar stofnanir landsins. Á þeim tíma, sem liðinn er frá því að Landsbankinn neitaði að hafa þessi störf með höndum, hygg ég, að störfin hafi sízt minnkað, hvorki hjá ríkisféhirði eða í Landsbankanum. Allir þeir, sem starfa hjá ríkisféhirði, hafa fullt starf. Ég hefi átt tal um þetta bæði við fráfarandi féhirði, Jón Halldórsson, og núv. settan eftirmann hans, sem unnið hefir við stofnunina í 23-24 ár við bezta orðstír. Fólkið, sem vinnur þarna, er lágt launað, mun lægra en starfsmenn Landsbankans. Ætti nú að flytja þetta starf í bankann, yrði að fjölga þar starfsmönnum að sama skapi og fækkað er á hinum staðnum, og yrði varla sparnaður að því, eftir því sem ég hefi áður upplýst um laun í þessum tveim stofnunum.

Ef á að fela gjaldkerastörfin öðrum en ríkisféhirði, yrði ríkisbókhaldið að flytja með. Ég hefi út af fyrir sig ekkert á móti því að fela einhverri sérstakri stofnun þessi störf, en sé ekki ástæðu til þess, nema eitthvað yrði hægt að spara með þeirri ráðstöfun. En eftir upplýsingum þeim, sem ég hefi fengið, eru engir möguleikar fyrir slíkum sparnaði. Hvorki Landsbankinn, Búnaðarbankinn eða aðrar slíkar stofnanir mundu taka þessi störf að sér á eigin kostnað, og þótt það væri sumum þægilegt að fá laun sín greidd í Landsbankanum, þá er ekki síður þægilegt að hafa skrifstofu ríkisféhirðis í sama húsi og aðrar opinberar skrifstofur ríkisins. Í grg. segir, að Landsbankinn sé nú raunverulega féhirðir ríkisins. Þetta er vægast sagt mjög villandi. Samband ríkisféhirðis og Landsbankans er nú ekki annað en það, að féhirðirinn hefir hlaupareikning hjá Landsbankanum eins og hvert annað fyrirtæki.

Það situr auðvitað sízt á stj. að neita að athuga sparnaðarmöguleika. T. d. mætti láta aðalendurskoðanda ríkisins athuga mannahald og aðra kostnaðarliði hjá bókhaldinu og féhirði, en ég geri mér engar vonir um það, að takist að spara á þessum liðum, nema ef það væri með breytingum frá því skipulagi, sem upp var tekið fyrir tveim árum. Hinn ágæti fráfarandi féhirðir, Jón Halldórsson, gætti þess vel að stilla svo í hóf bæði kaupgreiðslum og öðrum kostnaði, að það yrði ríkinu ekki of þungur baggi.

Ég tel það góða afgreiðslu á þessari till. að vísa henni til stj. Stj. gæti þá látið athuga, hvort nokkrir möguleikar eru þarna til sparnaðar. Ég játa það, að núv. stj. er hikandi við að reka fólk úr vist ríkisins og út á gaddinn. En hún leitast við að beita því ráði, að ráða ekki nýja menn, þegar starfsmenn falla frá, heldur færa menn milli stofnana, þegar unnt er og stöður losna. Starfsfólk landsins hefir ekki síður rétt á sér en starfsmenn einstakra fyrirtækja, og ríkið má ekki koma þannig fram við fólk sitt, að hægt sé að telja það þann atvinnuveitandann, sem óvægnastur sé. — Skoðun mín er sú, að sá sparnaður sé beztur, að ekki sé gert of mikið að því að fjölga starfsmönnum í góðærunum, enda þarf þá ekki að svipta fólk atvinnu hópum saman, þegar illa árar.

En sé þeirri reglu fylgt, að hópa mönnum að opinberum störfum og stofnunum, þegar vel árar, og reka svo í vondu árunum, skapast af því öryggisleysi, sem getur orðið þess valdandi, að ríkið eigi erfitt með að fá góða krafta í þjónustu sína til ábyrgðarmikilla starfa.