06.03.1933
Sameinað þing: 3. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 350 í D-deild Alþingistíðinda. (2479)

39. mál, ríkisféhirðisstarfið

Fors.- og fjmrh. (Ásgeir Ásgeirsson):

Hv. 5. landsk. sagði, að almennt hefði verið búizt við, að hægt myndi að fella niður einhver störf hjá ríkisféhirði, úr því bókhaldinu var breytt. Ég hefi ekki heyrt þetta áður. Enginn starfsmaður, sem áður var hjá ríkisféhirði, mun hafa flutzt yfir í ríkisbókhaldið. Bókhaldararnir tveir hafa haft nóg að starfa, og í sumar barst mér málaleitun um að bæta þar við einum manni. Þá voru engir starfskraftar aflögu hjá ríkisféhirði. Ég stóð á móti því, að bætt væri við starfsmanni, og lauk málinu þannig, að keypt var rit- og samlagningavél, sem flýtir mjög fyrir störfum. Þetta er hið eina, sem gerzt hefir um fækkun eða fjölgun síðan ég settist í það sæti, sem ég nú skipa. Ég skal játa það, að ég get ekki sjálfur dæmt um það, hvort einhversstaðar er einum manni of margt eða fátt. Við verðum í því efni að treysta á umsögn þeirra manna, sem forustan er falin í hinum ýmsu stofnunum, og ég treysti fyllilega bæði núverandi og fráfarandi ríkisféhirði og umsögnum þeirra.