20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 351 í D-deild Alþingistíðinda. (2484)

99. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Vestfjörðum

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Ég þarf litlu við það að bæta, sem í grg. till. stendur. Ég vil aðeins benda á það, að ekki ætti mikill kostnaðarauki af því að stafa, þó till. þessi sé samþ., því varðskip þurfa hvort sem er að vera að staðaldri við Vestfirði á tímabilinu ágúst-desember, og jafnvel fram í janúar, þar sem langflestir togararnir, bæði erlendir og innlendir, fiska þar á þeim tíma ársins.

Ég vil geta þess til viðbótar því, sem í grg. till. stendur, að nú er svo komið, að allmargir Norðlendingar senda báta sína til Vestfjarða til þess að stunda þaðan sjó á vetrarvertíðinni. Nú eru t. d. 8-12 bátar frá Siglufirði og Akureyri á Ísafirði við veiðar. Eftir því sem bátarnir verða fleiri, er nauðsynin meiri á því að hafa eftirlit með þeim, fyrst og fremst til þess að koma í veg fyrir, að mannslíf tapist, sem hefir komið sorglega oft fyrir á undanförnum árum. Ekki er tiltölulega langt síðan tveir bátar fórust á þessum slóðum, með 12-14 mönnum hvor. Vissulega hefði einhverjum af þeim mönnum verið bjargað, ef skip hefði þá verið til eftirlits.

Í öðru lagi hafa togararnir sýnt óvenjulega ágengni nú upp á síðkastið, einkum síðan í haust. Það hefir stundum komið fyrir, að yfir 20 bátar hafa misst nál. öll sín veiðarværi í einu af völdum erlendra togara.

Vænti ég svo, að þessi till. mín fái sömu afgreiðslu og sú till., sem var næst á undan á dagskránni (till. um björgunarstarf á Faxaflóa).