20.03.1933
Neðri deild: 31. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 352 í D-deild Alþingistíðinda. (2486)

99. mál, björgunarstarf og eftirlit með fiskibátum á Vestfjörðum

Flm. (Jón Auðunn Jónsson):

Það er sjálfsagt rétt, sem hæstv. dómsmrh. sagði, að það er næsta erfitt að koma í veg fyrir þessi veiðarfæraspjöll, en það er sannfæring okkar á Vestfjörðum, að ef varðskip væri þarna alltaf — þó kannske ekki alveg að staðaldri — og látið aðvara togarana um það, hvar lóðirnar lægju — hví það er mest lagt á sama staðinn dag eftir dag —, þá mundu togararnir frekar skirrast við að toga yfir línuna. Mér er kunnugt um það, að alltaf eru minnst 5-6 ljósbaujur á línunni og hún er löng, allt upp í 10 þús. faðmar. Það mundi áreiðanlega draga úr þessum feikna veiðarfæratöpum, ef varðskip léti togarana vita um það, að veiðarfærin væru lögð á vissa staði. Náttúrlega mætti gera það fyrir heila viku í einu, með því að varðskipið sendi út fregnir til togaranna, sem nú hafa allir móttökutæki.

En að öðru leyti er það nú svo, að það þyrfti að vera varðskip að staðaldri fyrir Vesturlandi, vegna þess, að allur togaraflotinn er þar einmitt á þessum mánuðum.