05.04.1933
Neðri deild: 45. fundur, 46. löggjafarþing.
Sjá dálk 356 í D-deild Alþingistíðinda. (2500)

119. mál, stjórn varðskipanna

Sveinn Ólafsson:

Af því að hv. frsm. er hér ekki nærstaddur, finn ég mér skylt að koma í hans stað og segja nokkur orð í sambandi við till.

Eins og eðlilegt er, er þessi till. flutt af mönnum úr þeim landshlutum, sem hafa á síðastl. árum farið mest á mis við eftirlit varðskipanna. Ég hefi orðið þess var, að einstaka menn eru óánægðir með till. og vilja gjarnan, að hún annaðhvort falli eða sé tekin aftur. En mér finnst engin ástæða til þess, því ég fyrir mitt leyti er sannfærður um það, að það mundi betur vera séð fyrir strandvörnum, sérstaklega á Austur- og Norðurlandi, ef staðkunnugur maður hefði eftirlit með strandvörnum, maður, sem á hverjum stað væri kunnugur ströndum landsins og væri sjálfur sjómaður. Ég veit, að afturför um eftirlit með strandvörnum á þessum svæðum strandarinnar, sem ég hefi nefnt, stafar að meira eða minna leyti af því, að þennan kunnugleika hefir vantað. Það er auðvitað líka meðfram af því, að á síðasta ári hefir ekki nema annað varðskipið verið úti að staðaldri. Og sú samvinna, sem komin var á 1930-31 á milli útgerðar skipanna og hafna þarna, sem á hverjum tíma gátu aðstoðað um eftirlitið, er niður fallin. Slík samvinna gerði mikið til þess, að strandvörn varð að meiri almennum notum, því svo var um búið, að svo að segja hver veiðistöð hafði samtök með sér og innbyrðis um að aðstoða eftirlitið með því að gefa bendingar, annaðhvort með skeytum eða á annan hátt, bendingar, sem ekki var hægt að fiska upp eða hagnýta sér af þeim, sem óheimilt er að nota landhelgina.

Þessi tilmæli, sem felast í till., um að staðkunnugur maður eða menn, og þá um leið vanir sjómennsku, hafi framkvæmdina á hendi, eru frá hendi okkar flm. með öllu hlutlaus, þó till. hafi verið túlkuð svo af einstökum mönnum, að hún væri einhverskonar árás á þann mann, sem nú hefir þetta eftirlit sérstaklega á hendi. En því fer fjarri, að svo sé. Það kemur ekkert málinu við, hvort sá maður, sem nú hefir á hendi stjórn ríkisskipanna, verði þar áfram eða ekki, en það verður að gera ráð fyrir, að því starfi verði samt sem áður látinn gegna sá maður, sem þennan kunnugleika hefir til að bera. Og fyrir því teljum við flm., að bezt fari á því, að þar sé eftirlit með varðskipunum. En auðvitað verða þau eftir sem áður undir dómsmrn., eins og þau hafa alltaf verið.

Ég ætla svo ekki að fara frekar út í þetta að sinni. Ég held, að ég hafi skýrt nægilega, hvað fyrir okkur flm. vakir með þessari breytingu.